MDMA og skyld efni

Inngangur

E- pillan er amfetamínafbrigði sem virkar líkt og amfetamín en hefur um leið áhrif á skynjun neytandans og víman verður því öðru vísi en af amfetamíni. Hún hefur fyrst og fremst verið notuð og markaðsett fyrir hinn ólöglega vímuefnamarkað sem ofskynjunarefni  íkt og LSD. Efnafræðiheiti E-pillu er dimethylene-dioxymethamphetamine. Það var fyrst markaðsett undir heitinu „Ecstasy“ en hefur verið kallað hinum ýmsu nöfnum í vímuefnaheiminum eins og: E-pilla, E-pilla, MDMA, Adam, XTC, M&M eða Rave. Efnið hefur verið þekkt frá lokum Seinni heimstyrjaldar en náði ekki útbreiðslu og olli ekki teljandi vandamálum fyrr en eftir 1980. Það náði ekki að keppa við LSD á sjöunda áratugnum þegar ofskynjunarefni voru sem vinsælust vegna þess að LSD hefur kröftugri ofskynjunaráhrif og veldur ekki ógleði og uppköstum eins og E-pillan gerir gjarnan.

E-pillan náði fyrst útbreiðslu í höfuðborg vímuefnanna San Fransisco og breiddist þaðan út til Bandaríkjanna á níunda áratugnum. E-pillan komst þó ekki í sviðsljósið almennilega fyrr en um 1990 þegar fjöldi unglinga í Bretlandi og Þýskalandi fóru að hópa sig saman, taka efnið inn og dansa maraþondans undir áhrifum þess í stórum hópum. Fyrstu dauðsföllin sem sagt var frá í Bretlandi vegna efnisins kom svo E-pillunni í miðpunkt umræðunnar. Efnið barst til Íslands um 1995 og síðan þá hefur mikill fjöldi íslenskra unglinga notað efnið.

Það eru þrjú atriði sem gera þetta vímuefni varasamt og hættulegt:

  • Í fyrsta lagi getur efnið valdið skyndidauða vegna eitrunar en slíkt er ekki fyrir hendi þegar LSD er notað. Nú þykir sannað að yfir 100 einstaklingar hafi látist af völdum efnisins á síðustu fimm árum.
  • Í öðru lagi þykir sannað að efnið getur valdið heilaskemmdum við tiltölulega litla notkun. Skemmdirnar koma þá fram sem varanlegt þunglyndi eða kvíði.
  • Í þriðja lagi getur efnið valdið skyndilegu og svæsnu þunglyndi í neyslunni og rétt eftir hana og svipar að þessu leiti til LSD.

Náskylt E-pillu og með svipaða verkun eru MDA (dimethylenedioxyamphetamine) og MDEA (dimethylenedioxyethylamphetamine). MDA var töluvert notað í Bandaríkjunum á árunum 1968 til 1980 og gekk undir nafninu „Drug of love“. MDEA sem hefur gengið undir nafninu „Eve“ eða Eva kom fram eftir að MDMA eða Adam var bannaður í Bandaríkjunum 1985 og þá til að komast fram hjá lögunum. MDA hefur líklega mesta ofskynjunarverkun þessara efna en MDMA minnsta og MDEA er þar á milli. MDA virkar í 10-12 tíma meðan MDMA og MDEA virka í 4-6.

Söguleg atriði

Árið 1887 varð Egelan fyrstur manna til að smíða amfetamín og skyld efni. Það var þó ekki fyrr en 1910 að rannsóknir á áhrifum þessara efna á líkamann hófust. Um svipað leiti eða 1912 var MDMA fyrst framleitt. Rannsóknirnar á amfetamínefnunum beindust í fyrstu að áhrifum þeirra á hjarta, æðar og úttaugakerfi. Áhrif efnanna á heilann urðu mönnum ekki kunn fyrr en um 1930.

Þýska lyfjafyrirtækið Merck þar sem efnið var fyrst búið til fékk einkaleyfi fyrir MDMA og MDA árið 1914. Líklega höfðu menn þar á bæ enga hugmynd um hvernig efnið virkaði og allra síst á heilann. Sögur fóru þó af því að fyrirtækið ætlaði að setja efnið á markað sem megrunarlyf. Það varð þó aldrei af því að efnið væri sett á markað sem lyf. Engum sögum fer síðan af efninu um langan tíma. Að vísu gerði bandaríski herinn tilraunir með efnið um 1950 með mikilli leynd svo það spurðist ekki út fyrr en miklu seinna. Vegna þess að enginn hafði áhuga á efninu og það var lítið þekkt var það ekki flokkað með öðrum fíkniefnum og bannað í byrjun sjöunda áratugsins eins og MDA.

Bretar bönnuðu efnið 1977 en það hélt áfram að vera löglegt í Bandaríkjunum fram til 1985. Um 1975 ákváðu ólöglegir vímuefnaframleiðendur að finna þessu löglega efni nafn, pakka því, dreifa og auglýsa í anda stórfyrirtækja. Í undirheimunum komu uppástungur um að kalla efnið „Empathy“ áður en nafnið „Ecstasy“ varð ofan á. Þessi framleiðsla og markaðsetning hefur verið í gangi síðan.

Um 1980 byrjuðu nokkrir geðlæknar í Bandaríkjunum að gera tilraunir með MDMA til lækninga. Þeir pukruðust með efnið af ótta við að það yrði bannað líkt og LSD og gert hafði verið í Bretlandi. Læknarnir þurftu að búa til efnið sjálfir undir handleiðslu lyfjafræðings og hafa hóp lækna til að ábyrgjast að þeir væru að gera eðlilegar og ábyrgar rannsóknir. Niðurstöður þessara rannsókna voru ekki birtar í virtum læknatímaritum en en þeim var dreift í handritum í þröngan hóp lækna.

E-pillan var bönnuð í Bandaríkjunum 1. júlí 1985 og sett í flokk með öðrum ofskynjunarefnum. Þegar læknarnir sem höfðu verið að gera tilraunir með efnið ráku upp ramakvein urðu ráðuneytismenn undrandi því þeir höfðu ekki haft hugmynd um rannsóknir læknana á efninu. Bannið kom til af því að þó að lítið færi fyrir efninu fannst það stundum þegar hald var lagt á ýmis ólögleg vímuefni.

Læknarnir sem notuðu ecstasy til lækninga héldu því fram að efnið væri ólíkt LSD, meskalíni og MDA að því leiti að valda ekki ofskynjunum. Þeir sögðu efnið breyta skynjuninni án þess að valda ofskynjunum og því að fólki fyndist það fara út úr líkamanum. Töldu efnið geta komið að haldi í geðlækningum hjá sjúklingum sem áttu erfitt með að tala um líðan sína og tilfinningar og þurftu lækningu vegna áfalla eða kvíða. Engar vandaðar rannsóknir styðja þetta álit.

Algengt var að E-pilla væri notuð á heimavistum við menntaskóla og háskóla í Bandaríkjunum um 1985. Sú saga fór af efninu að það efldi innsæi og sjálfsþekkingu. Sumir héldu að efnið væri ástarlyf („Aphrodisiac“). Það er þó misskilningur því að efnið eykur ekki áhuga á kynlífi eða næmi, þvert á móti minnkar það kyngetu og truflar ris og sáðlát karla. Neytandanum finnst að vísu að hann eigi auðveldara með samskipti og finnur fyrir meiri samkennd og samhug með öðrum.

Eftir 1980 fer að bera á samkvæmum í Þýskalandi og Bretlandi sem minntu óþyrmilega á fyrstu LSD samkvæmin í San Fransisco um 1967 og 1968 sem kölluð voru Acid Test. Vímuefnið sem nú var notað var E-pilla þó að samkvæmin væru í fyrstu kölluð Acid House. Samkvæmin fóru þannig fram að dansað var í myrkum sal við blikkandi ljós undir taktfastri tónlist sem kölluð hefur verið „rave“ tónlist. Samkvæmin voru oft haldin í vöruskemmum og til þeirra boðið í gegnum dreifingarkerfi ólöglegra vímuefna. Allir sem mættu fengu E-töflu. Neytendurnir í Bandaríkjunum höfðu notað efnið við allt aðrar aðstæður einir eða í litlum hópum. Þessi samkvæmi bárust síðan til Bandaríkjanna og voru þar kölluð „Raves“. Smám saman hafa þessar samkomur breyst og neysla E-pillu fer nú fram á ákveðnum tónleikum eða skemmtistöðum.

Í byrjun litu neytendur svo á að E-pilla væri hættulaus og ekkert væri athugavert við neysluna. Efnið var sagt auka þörf manna fyrir að dansa og hreyfa sig. Þessi menning ef menningu skyldi kalla átti upptök sín í Bretlandi og einmitt þaðan hafa komið fréttirnar um hin tíðu dauðsföll. Við þetta hafa viðhorfin breyst eitthvað en efnið er komið til að vera á ólöglega vímuefnamarkaðinum og tengist skemmtunum unga fólksins.

Eflaust hafa einstaka Íslendingar kynnst efninu í Bretlandi upp úr 1990. Efnið kemur þó ekki til landsins að neinu marki fyrr en 1995 og þá í sambandi við mikla útitónleika. Þá varð fyrst vart við efnið á meðferðarstofnunum SÁÁ. Eitt sýni af MDMA barst til Rannsóknarstofu Háskólans í Lyfjafræði 1991 og annað af MDEA 1992. Engin sýni bárust á árunum 1993 og 1994. Tvö sýni bárust 1995. MDA hefur ekki fundist á Íslandi.

Frá 1995 hefur E-pilla verið stöðugt á vímuefnamarkaði hér og á Sjúkrahúsið Vog koma rúmlega 200 einstaklingar á hverju ári sem hafa notað efnið á síðustu tveimur árum. Um 80 þeirra eru 19 ára eða yngri. Fæstir þeirra eru reglulegir neytendur.

Efnafræði og lyfjahvörf

Ecstasy er náskylt amfetamíni og eins og það myndað úr benzenhring sem bundin er við ein stutt kolefniskeðja með aminhóp. Við bensenhringinn er tengdur metylhópur með tveimur súrefnisatómum í stöðum 3 og 4 sem gerir efnið líkt mescaline. Efnið er fituuppleysanlegt og kemst hratt og auðveldlega upp úr meltingar-veginum inn í blóðrásina. Áhrifanna gætir eftir 20 mínútur og hámarksþéttni í blóði verður eftir eina klukkustund.

Þó að efnið sé einfalt í framleiðslu er framleiðsla þess öll ólög og ekkert eftirlit er með henni og dreifingunni og sölunni. Það er því hægt að selja fólki hvað sem er undir því yfirskini að á ferðinni sé MDMA. Fram til þessa virðast efnin nokkuð hrein og eru slegin í töflur sem hafa merkilega nákvæma skammta sem eru um 100 mg. Efnið hefur líka verið selt í hylkjum og duftformi. Auðvelt er að sprauta því í æð. Venjulega taka neytendurnir eina til tvær töflur og nota því 60 til 250 mg í hvert sinn.

Helmingunartími er 8 klukkustundir og víma eftir einn skammt stendur í 4 til 6 klukkustundir.

Lítill hluti efnisins breytist í MDA í líkamanum en 3/4 af efninu er skilið óbreytt út með þvagi. Það er því hægt að flýta fyrir útskilnaðinum með því að sýra þvagið.

Lyfhrif

Efnið hefur flókna verkun og hefur áhrif á mörg boðefnakerfi heilans. Það hefur í sér fólgna amfetamínverkun og LSD verkun. Þessi verkun er þó veikari en verkun móðurefnanna. Eins og amfetamín losar MDMA dopamín, seritónín og noradrenalín úr skaftendum tauga og fyllir neytandann aukinni orku og hreyfiþörf. Með því að losar dópamín í verðlaunastöð heilans veldur það sæluvímu. Það örvar semjuhluta sjálfráða taugakerfisins og veldur þannig hækkuðum blóðþrýstingi, hröðum hjartslætti, hraðari öndun og munnþurrki sem er í réttu hlutfalli við stærð skammtanna. Eins og LSD hefur það áhrif á seritóninviðtaka af gerð 2 og veldur þannig breyttri skynjun en sjaldnast hreinum ofskynjunum. Efnið losar seritonin úr skaftendum og eyðir seritonínbirgðum úr taugaendum í framheila auk þess að eyðileggja varanlega seritonintaugaenda í heila tilraunadýra og manna. Í stórum skömmtum koma fram ofsjónir, óróleiki, hiti og ofsahræðsla.Þar sem þol gegn vímunni myndast fljótar en gegn ýmsum hliðarverkunum geta vaxandi skammtar valdið alvarlegum einkennum .

E-pilluvíma

Venjulegur skammtur til að valda vímu er um 100 mg. Að taka inn stærri skammt eykur lítið sem ekkert á vímuna en eykur hættu á óþægindum, hliðarverkunum og eitrunum. Neytandinn finnur til vímu og aukins sjálfstrausts. Flestir finna fyrir lystarleysi og ógleði á fyrstu mínútunum. Svimi sækir að og kjálkarnir fara að skjálfa sumir gnísta tönnum. Í byrjun finna flestir fyrir kvíðatilfinningu sem getur breyst í ofsahræðslu. Í vímunni lýsir fólk því að það finni fyrir aukinni samkennd, samúð og skilningi og aukinni þörf fyrir að hreyfa sig og dansa. Hjá næmum einstaklingum koma fram vægar ofskynjanir, hjartsláttur og höfuðverkur.

Eftir vímuna kvarta margir um að vera ruglaðir kvíðnir og þunglyndir. Þessi líðan varir í nokkrar klukkustundir upp í nokkra daga eftir neyslu í eitt skipti. Þol myndast fljótt gegn LSD-verkun efnisins og því þýðir ekki aðnota efnið dag eftir dag til að fá breytingar á skynjuninni. Amfetamínverkunin helst þó að þol myndist einnig við henni. Þeir fáu sem nota efnið oft og reglulega eru því í mikilli hættu að fá eitranir og hættulega fylgikvilla því þeir nota efnið eðlilega í stærri skömmtum en hinir.

Eitranir og dauðsföll

E-taflan er sérstaklega varasöm því hún virðist geta valdið dauðsföllum við litla skammta. Þannig getur ein tafla drepið mann án þess að gerir nokkur boð á undan sér. Þetta er að vísu sjaldgæft. Auk þessa getur stór skammtur auðvitað verið banvænn og hættan vex séu menn veikir fyrir eða noti um leið önnur vímuefni eins og áfengi.

Dauðaskammtur af MDMA er um 500 mg undir venjulegum kringumstæðum. Þess eru þó dæmi að menn hafi tekið allt að 42 töflum án þess að verða meint af. Í litlum skömmtum 100-150 mg getur komið fram vægur kvíði, skjálfti og kjálkaskjálfti. Við 250-300 mg skammta koma fram breytingar á sjónskynjun og hlutirnir verða skínandi og neytandanum finnst að frá þeim stafi geislum eða þeir víbri. Landslag verður útflúrað. Við þessar aðstæður er neytandinn oft var um sig og vill vera einn og getur skyndilega farið í slæmt þunglyndi.

Það fer eftir reynslu og þoli hvaða áhrif stór skammtur, 300-400 mg hefur. Einkenni sem koma fram geta verið allt frá kvíða og óróleika í ótta, ofsahræðslu, geðveiki eða ofsóknarsturlun. Þá getur neytandinn orðið sjálfum sér og öðrum hættulegur.

Stórir skammtar valda hröðum hjartslætti og hækkuðum blóðþrýstingi. MDMA getur því valdið hjartsláttartruflunum hjá þeim sem eru veikir fyrir – hafa dulda eða þekkta hjartasjúkdóma sem eru áunnir eða meðfæddir. Þeir sem eru með ofstarfsemi á skjaldkirtli eru líka í hættu. Dauðsföll hafa orðið vegna þessa. Heilablóðfall hefur líka verið rakið til E-töfluneyslu.

Þegar fólk fór að nota efnið á „rave-samkomum“ og dansa í þéttum hópi jókst hætta á alvarlegum afleiðingum til muna. Á tveggja ára tímabili 1991-1992 var skýrt frá að minnsta kosti 15 dauðsföllum af völdum E-töflu á Englandi í virtum læknatímaritum. Þá var talið að um ein milljón unglinga hefðu notað efnið. Í öllum þessum tilvikum voru viðkomandi einstaklingar að dansa í þéttri kös manna þegar þeir féllu niður meðvitundarlausir eða í krömpum. Þeir voru allir með háan líkamshita, hraðan hjartslátt og háan blóðþrýsting. Vegna hitans eyðilögðust eggjahvítuefni í blóðinu með mjög alvarlegum afleiðingum. Flestir sem dóu fengu dreifða blóðstorknun (DIC) og rákvöðvasundrun (rhabdomyolysis) og upp úr því nýrnabilun. Sjúklingarnir dóu 2-60 klukkustundum eftir að á sjúkrahús var komið þrátt fyrir að sérþjálfaðir læknar og hjúkrunarfræðingar gerðu allt sem í mannlegu valdi stóð til að bjarga þeim. Þessi dauðsföll voru því mjög hörmuleg og átakanleg fyrir aðstandendur og heilsugæslufólkið.

Dansinn og aðstæðurnar virðast skipta miklu máli í að skapa þessa lífshættu því að þótt efnið valdi hitahækkun í gegnum seretónínviðtakana og boðefni heilans voru þessi dauðsföll óþekkt fyrir daga „rave-samkomanna“. Þessi dauðsföll af völdum ofhitnunar eru annars eðlis en þau dauðsföll sem verða vegna hjartsláttartruflana eða of stórra skammta af efninu. Flestir sem dóu tóku einungis litla eða miðlungs skammta af E-pillu. Þó að hluta af þessum vanda sé að rekja til vökvataps við dansinn getur verið varasamt að drekka of mikið því menn hafa látist þess vegna. Vafasamt er einnig hvort menn geta minnkað hættu á slíkum dauðsföllum með vatnsdrykkju því eflaust er um ofurnæm lyfjaviðbrögð að ræða sem ómögulegt er að sjá fyrir og varast.

Varanleg áhrif og skemmdir á heila

E-pilluneysla getur haft í för með sér afleiðingar sem ná langt út fyrir eina kvöldstund. Þessar afleiðingar geta bæði verið geðtruflanir, líkamlegir fylgikvillar sem koma vegna neyslunnar eða heilaskaðar. Áður hefur verið talað um fylgikvilla eins og heilablóðfall og hjartsláttartruflanir sem geta haft mismiklar og alvarlegar afleiðingar. Geðtruflanir sem geta komið upp eru þunglyndi, kvíði og sturlun oftast ofsóknarsturlun. Þessi einkenni geta oft varað vikur eftir neysluna og geta komið eftir einn skammt.

Sýnt hefur verið fram á það með tilraunum að MDMA minnkar birgðir heilans af seritóníni hjá tilraunadýrum. Þessi eituráhrif eru í réttu hlutfalli við skammtastærð. Taugaendarnir virðast taka efnið upp líkt og það væri boðefni. Við það losnar serotónín úr taugaendunum svo kröftuglega að seritóninskorturinn kemur skyndilega fram. Skorturinn er að mestu viðsnúanlegur. Hitt er þó öllu alvarlega að um leið og MDMA er tekið upp í taugaendana virðist skapast hætta á að taugaendarnir skemmist. Langan tíma tekur að bæta úr þeim sköðum og spurning hvort það tekst fullkomlega. Apar eru miklu næmari gagnvart þessum breytingum en nagdýr.

Rannsóknir á neytendum E-pillu sýndu að þeir höfðu minna af niðurbrotsefnum seritónins í heilavökva. Nýlega var sýnt fram á með PET skanni á E-pilluneytendum að sömu skemmdir verða á taugaendum manna og tilraunadýranna sem áður er lýst.

Þó að sýnt hafi verið fram á slíkar breytingar á heilanum er ekki ljóst hvaða þýðingu þessar breytingar hafa. En samkvæmt þekkingu okkar á heilanum og hlutverki seritónínboðefna er hægt að gera að því skóna að slíkar breytingar auki hættu á að fá fram varanlegar persónuleikabreytingar. Breytingarnar verða þá væntanlega í þá veru að einstaklingurinn hefur viðvarandi kvíða, þunglyndi og verður daufari og framkvæmdaminni.

Ofnotkun eða misnotkun

E-pillunotkun er venjulega samofin annarri vímuefnaneyslu. Flestir sem taka efnið inn hafa áður notað amfetamín og kannabisefni. Efnið er notað líkt og önnur ofskynjunarefni stöku sinnum því að þol myndast strax og því er ekkert vit í að nota efnið daglega. Sumir neytendur segjast þó taka efnið vikulega. Efnið er því sjaldnast notað eitt sér í langan tíma því að ef vímuefnaneyslan verður regluleg breyta neytendurnir um efni og hér á Íslandi velja þeir oftast amfetamín. Þannig er neysla E-pillu gjarnan tímabundin tilraunaneysla hjá neytandanum og hann kemur til meðferðar fyrst og fremst em amfetamínfíkill.

Neyslan virðis nú um sinn vera bundin við ákveðnar skemmtanir og neytandinn er sjaldnast einn við neysluna. Á þessum skemmtunum er mjög algengt að nota líka önnur vímuefni auk algengu vímuefnanna eins og áfengis, kannabisefna og amfetamíns er algengast að nota LSD í litlum skömmtum og „russ“ sem eru rokgjörn nitrit. Stundum er E-pilla og LSD tekin til skiptis á sama kvöldi.

Frá 1980 til 1990 voru tölur stöðugar frá High Ashbury Free Medical Clinic í San Fransisco en þar koma um 6000 sjúklingar á ári. Innan við 1 % af sjúklingunum voru með vanda út af E-pillu á þessu tímabili og starfsmenn meðferðarstofnana þar og reyndar í öllum Bandaríkjunum gerðu lítið úr vandanum sem stafaði af þessu efni á þeim árum. E-pillan var þó mikið notuð í Bandaríkjunum á árunum 1980 til 1990 og vitað var að í sumum framhaldsskólum í Bandaríkjunum höfðu 39 % nemenda reynt þetta efni að minnsta kosti einu sinni.

Neyslan hefur verið langmest á Bretlandi eftir 1990 og um ein milljón ungra Breta var talin hafa notað efnið 1992. Og síðan þá hefur efnið mikið verið í sviðsljósinu þar bæði vegna mikillar neyslu og eins vegna hörmulegra dauðsfalla sem einkum var fjallað mikið um í fjölmiðlum árið 1995. Nýleg könnun benda til þess að allt að 30% breta sem eru 15 til 25 ára hafi notað E-pillu og 5 % 14 ára unglinga.

Árið 1995 komu 103 einstaklingar á Sjúkrahúsið Vog sem höfðu notað MDMA, 21 þeirra voru reglulegir neytendur og notuðu efnið vikulega. Sömu tölur fyrir 1996 voru 257 og 84 og fyrir 1997 voru tölurnar 229 og 20. Og fyrir árið 1998 175 og 20. Reglulegir neytendur sem koma á Sjúkrahúsið Vog eru því um 20 á hverju ári. Aðal vímuefnavandi þeirra er alltaf annar en E-pilluvandi, flestir eru amfetamín eða kannabisfíklar. Meðal þeirra er langvarandi einkenni um kvíða, þunglyndi og ofsóknarhugmyndir mjög algeng.

Meðferð

Vandamálin sem koma upp vegna neyslu E-pillu eru aðallega þrenns konar ef sjálfri vímuefnafíkninni er sleppt.

Í fyrsta lagi er skyndieitrun sem getur verið allt frá vægri eitrun sem svipar til kaffieitrunar til lífshættulegra einkenna um of stóran skammt örvandi lyfja.

Í öðru lagi er krónísk eitrun, sem kemur við reglulega notkun, sem á sama hátt getur verið frá vægri vanlíðan yfir í ofsóknarsturlun.

Þriðji vandinn er sá að oft kemur lyfjaneyslan af stað varanlegri kvíðataugaveiklun sem getur verið allt frá því að vera væg yfir í að vera ákaflega alvarleg og þá með ofsahræðsluköstum, oföndun og fælni.

Þegar sjúklingar koma inn í E-pilluvímu er meðferðin byggð á sögu einstaklingsins og einkennum sem hann hefur. Venjulega leitar sjúklingur til læknis vegna þess að hann hefur tekið of stóran skammt og orðið kvíðinn eða óttasleginn. Í kjölfarið kemur hraður hjartsláttur og ofsóknarkennd. Róa þarf sjúkling niður og segja honum að öllu sé óhætt.

Mjög misjafnt er til hvaða aðgerða þarf að grípa. Í vægari tilfellum er hægt að koma sjúklingi í gott umhverfi og veita honum stuðning og uppörvun með róandi tali. Ekki má skilja sjúkling einan eftir og útskýra þarf fyrir sjúklingi að áhrifin munu fjara út. Ef einkenni eru alvarlegri á að gefa róandi lyf eins og libríum og jafnvel lyf sem hemja adrenerga verkun eins og tensól. Ef sjúklingurinn er órólegur og óttinn verður að ofbeldishegðun, sjálfsmorðstilburðum eða sturlun er rétt að byrja að róa sjúkling niður með benzodíazepinlyfjum og ef það dugar ekki að reyna jafnvel geðlyf eins og haloperidol. Þegar um alvarlegra ástand er að ræða með hitahækkun eða krömpum verður að koma sjúklingi á hátæknisjúkrahús. Þar eru krampar meðhöndlaðir með diazepami, nýrnabilum með nýrnavél. Sjúklingur er kældur ef með þarf og honum bætt vökvatap. Til greina kemur að gefa sjúklingi lyfið dantrolene.

Fráhvarfsmeðferð við reglulegri neyslu er lík og fráhvarfsmeðferð í amfetamínfíkn. Einkennin eru aðallega langvarandi þreyta, vöðvaverkir, svefnleysi, höfuðverkir og svimi. Til greina getur komið að meðhöndla kvíða, þunglyndi og ofsóknarhugmyndirnar með lyfjum.

Heimildir

M.Carroll and S. Comer. The Pharmacology of Phencyclidine and the

hallucinogens, in Graham and Schultz´s Principles of Addiction Medicine (

bls 153-162) Second Edition, American Society of Addiction Medicine, Inc.

Chevy Chase, Maryland 1998


Wilkins, Conner and Gorelick. Management of Stimulant, Hallucinogen,

Marijuana and Phencyclidine Intoxication and Withdrawal, in Graham and

Schultz´s Principles of Addiction Medicine. Second Edition, American Society

of Addiction Medicine, Inc. Chevy Chase, Maryland 1998


John P. Morgan. Designer Drugs in Lowinson, Ruiz, Millman and Langrod´s

Substance Abuse a Comprehensive Textbook, (bls 266-269) third edition ,

Williams & Wilkins 1997.


Charles s. Grob and Russell E. Poland. MDMA in Lowinson, Ruiz, Millman and

Langrod´s Substance Abuse a Comprehensive Textbook, (bls 269-273) third

edition, Williams & Wilkins 1997.


Inaba, Cohen and Holstein. Uppers, Downers, All Arounders. Physical and

Mental Effects of Psychoactive Drugs ( bls 229-231) Third Edition, CNS

Publications, Inc. 1997.


Þorkell Jóhannesson, Lyfjafræði miðtaugakerfisins.

Mentamálaráðuneytið/Háskóli Íslands, Reykjavík 1984.


Þorkell Jóhannesson, Jakob Kristinsson og Ásgeir Theodórsson, Þrjár aðréttur

í lyfjafræði, Bóksala stúdenta 1995.

 

Þorkell Jóhannesson, Um MDMA ( 3,4-metýlendíoxímetamfetamín ) og skyld efni,

Vímuvarnarvefurinn http://www.ismennt.is/vefir/vimuvarnavefurinn.