Með opinn faðminn en lokuð augun

Geðheilbrigðismál hafa mikið verið til umræðu undanfarið og er það vel. Í kjöl­far stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra á Alþingi í gærkvöld steig heilbrigðisráðherra í pontu og sagðist setja geðheilbrigðismál á oddinn – hann vill samfélag með opinn faðm og sér í stöðunni “bullandi sóknarfæri”.

Umræða um heilbrigðisþjónustu á Íslandi er að mörgu leyti sérkennileg. Hún er drifin áfram af tilfinningahita fólks sem á um sárt að binda, fjölmiðlum sem virðast hættir að leita sannleikans og tækifærissinnuðum pólitíkusum. Lítið er gert með staðreyndir og erfitt að koma þeim að í þessu merry-go-round samfélagi.

Staðreyndin er sú að enginn sjúkdómur er jafn algengur og hættulegur íslenskum ungmennum og vímuefnafíkn. Tölulegar upplýsingar um hversu margir hafa leitað meðferðar á Vog fyrir 25 ára aldurinn og hversu stór hluti þeirra hefur látist ótímabært og langt um aldur fram segja sína sögu.

Á 38 árum (1977-2015) komu 8.039 ungmenni í meðferð á sjúkrahúsið Vog. Við árslok 2015 voru 428 af þessum tilteknu sjúklingum á Vogi látnir. 340 drengir og 88 stúlkur. Lætur nærri að hvern einasta mánuð síðustu 38 árin hafi einhver úr þessum hópi dáið. Þessar upplýsingar eru staðreyndir sem birtast við samlestur á gagnagrunninum á Vogi og horfinna manna skrá frá Þjóðskrá.

Vogur er eina sjúkrahúsið á Íslandi sem tekur ungmennum í vímuefnavanda opnum örmum. Þrátt fyrir lífshættulegar afleiðingar fíknsjúkdómsins virðast þessir veiku einstaklingar koma að lokuðum dyrum annars staðar.

Tölurnar eru sláandi og til mikils að vinna fyrir okkur öll að eiga samtal um fíknsjúkdóminn og framtíðarstefnu meðferðarstarfs á Íslandi. Framundan er ráðstefna SÁÁ um fíkn þar sem hæstvirtur heilbrigðisráðherra, borgarstjóri, sérfræðingar, stjórnmálamenn og fulltrúar ýmissa stofnana verða meðal gesta. Þar gefst raunverulegt tækifæri til að ræða saman og horfast í augu við þennan flókna heilbrigðis- og félagslega vanda.

Með tölulegum staðreyndum blasir við hver er alvarlegasti heilbrigðisvandi ungra einstaklinga á Íslandi. Þar eru einmitt hin bullandi sóknarfæri sem heilbrigðisráðherra gæti nýtt sér til að bjarga fjölda ungmenna frá langvarandi veikindum og ótímabærum dauða.


Vefur ráðstefnu SÁÁ um fíkn: 40ara.saa.is

Höfundur greinar