Fjölskyldumeðferð

Þjónusta SÁÁ við fjölskyldur er ætluð aðstandendum fólks með fíknsjúkdóm

shutterstock_337204073

Fjölskyldumeðferð

Áætlað er að næsta fjölskyldumeðferð hefjist 24. ágúst.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 530-7600. Halldóra Jónasdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi, tekur við skráningum,dora@saa.is

Aðstandendur

Þjónusta SÁÁ við fjölskyldur er ætluð aðstandendum fólks með fíknsjúkdóm hvort sem einstaklingurinn hefur farið i meðferð eða ekki. Markmiðið er að auka þekkingu þátttakenda á einkennum fíknsjúkdómsins og áhrifum hans á fjölskylduna og meðlimi hennar.
Yfirlitssíða með fræðslu um meðvirkni

Viðtalsþjónusta

Viðtalsþjónusta er í boði alla virka daga frá kl. 9.00 – 12.00 og 13.00 – 17.00. Hana geta allir aðstandendur nýtt sér, bæði þeir sem vita að einhver þeim nákominn á við áfengis- og vímuefnavanda að stríða og hinir sem eru í vafa og vilja fá upplýsingar og greiningu. Viðtölin taka oftast um 30 mínútur. Hægt er að panta tíma í síma 530-7600.  Aðstandendur fólks með spilafíkn geta einnig nýtt sér viðtalsþjónustu fjölskyldudeildar SÁÁ.

Kynningarfundur

Kynningarfundir eru haldnir alla miðvikudaga kl. 16.00 í Von, Efstaleiti 7. Á fundunum er fjallað um starfsemi SÁÁ, fíknsjúkdóma og meðvirkni.
Fyrirspurnum er svarað um tengd málefni. Allir eru velkomnir á kynningarfundina og aðgangur er ókeypis.

Kynningarfundir í Göngudeild Akureyri, Hofsbót 4, eru haldnir fyrsta mánudag hvers mánaðar kl. 17.30.

Fjölskyldumeðferð

Fjölskyldumeðferð tekur fjórar vikur og er haldin á mánudögum og fimmtudögum frá kl. 16.00 til 18.00. Að lokinni fjölskyldumeðferð geta þátttakendur nýtt sér stuðningshóp sem hittist vikulega í Von, Efstaleiti 7.

Í fjölskyldumeðferð er leitast við að auka þekkingu aðstandenda á fíknsjúkdómnum, einkennum hans og birtingarmyndum og áhrifum hans á alla þá sem búa í návígi við áfengis- og vímuefnasjúkling. Reynt er að aðstoða þátttakendur við að hrinda af stað breytingum til bóta innan fjölskyldunnar.

Eftirfarandi erindi eru hluti af fjölskyldumeðferð:

  • Áfengissýki og önnur vímuefnafíkn
  • Meðvirkni og hvernig hún breytir fjölskyldunni
  • Meðvirkni og hvernig hún breytir einstaklingnum
  • Stuðningur sem gerir ástandið verra
  • Sjálfsvirðing
  • Þróun batans – aðstandandi vs. fíkill – (gestir velkomnir)
  • Sameiginlegur bati allra í fjölskyldunni

Síðasta skipti fjölskyldumeðferðarinnar er haldin stutt kynning á starfi Al-Anon.

Helgarfjölskyldumeðferð

Helgarnámskeið í fjölskyldumeðferð er útdráttur úr fjögurra vikna meðferðinni. Helgarnámskeiðið er fyrst og fremst ætlað fólki sem býr utan Reykjavíkur og er sett á dagskrá göngudeildanna í Reykjavík eða á Akureyri eftir því sem þörf krefur.

Helgarmeðferðin er ætluð aðstandendum fólks með fíknsjúkdóm. Það skiptir engu hvort einstaklingurinn hefur farið í meðferð eða ekki. Markmiðið er að auka þekkingu þátttakenda á einkennum fíknsjúkdómsins og áhrifum hans á fjölskylduna og meðlimi hennar.