Valmynd
english

Aðstandendur

Þjónusta SÁÁ við fjölskyldur er ætluð aðstandendum alkohólista og annarra vímuefnasjúklinga hvort sem alkohólistinn hefur farið i meðferð eða ekki. Markmiðið er að auka þekkkingu þátttakenda á einkennum alkohólisma/vímuefnafíknar og áhrifum sjúkdómsins á fjölskylduna og meðlimi hennar.

Ráðgjafar Fjölskyldudeildar SÁÁ eru allir með löggilt starfsréttindi sem áfengis- og vímuefnaráðgjafar og hafa áralanga reynslu af starfi með alkhóhólistum, vímuefnafíklum og fjölskyldum þeirra.

Fjölskyldudeild SÁÁ býður aðstandendum:

 • Einstaklingsviðtöl
 • Fjölskyldumeðferð á kvöldnámskeiðum
 • Fjölskyldumeðferð á helgarnámskeiðum
 • Fræðslufundi fyrir foreldra
 • Stuðningshópa
 • Fræðslufundi um starfsemi SÁÁ

Viðtalsþjónusta er í boði alla virka daga frá kl. 09:00 til 12:00 og 13:00 – 17:00. Hana geta allir aðstandendur nýtt sér, bæði þeir sem vita að einhver þeim nákominn á við áfengis- og vímuefnavanda að stríða og hinir sem eru í vafa og vilja fá upplýsingar og greiningu. Viðtölin taka oftast um 30 mín. og kosta 3.000 kr. Hægt er að panta tíma í síma 530-7600 eða koma og hitta vakthafandi ráðgjafa á ofangreindum tímum.  Aðstandendur spilafíkla geta einnig nýtt sér viðtalsþjónustu Fjölskylduddeildar SÁÁ.

Fjölskyldumeðferð

Fjölskyldumeðferð er námskeið sem tekur fjórar vikur og er haldið á mánudögum og fimmtudögum frá kl. 17:30 til 19:30. Námskeiðisgjald er 8000 krónur.  Að lokinni Fjölskyldumeðferð geta þátttakendur nýtt sér stuðningshóp sem hittist vikulega í Von, Efstaleiti 7.

Í fjölskyldumeðferð er leitast við að auka þekkingu aðstandenda á fíknisjúkdómnum, einkennum hans og birtingarmyndum og áhrifum hans á alla þá sem búa í návígi við áfengis- og vímuefnasjúkling. Reynt er að aðstoða þátttakendur við að hrinda af stað breytingum til bóta innan fjölskyldunnar.

Eftirfarandi erindi eru hluti af Fjölskyldumeðferð:

 • Áfengissýki og önnur vímuefnafíkn
 • Meðvirkni og hvernig hún breytir fjölskyldunni
 • Meðvirkni og hvernig hún breytir einstaklingnum
 • Stuðningur sem gerir ástandið verra
 • Sjálfsvirðing
 • Þróun batans – aðstandandi vs fíkill – (gestir velkomnir)
 • Sameiginlegur bati allra í fjölskyldunni

Síðasta kvöld Fjölskyldumeðferðarinnar er haldin stutt kynning á starfi Al-Anon.

Helgarfjölskyldumeðferð

Helgarnámskeið í fjölskyldumeðferð er útdráttur úr fjögurra vikna meðferðinni. Helgarnámskeiðið er fyrst og fremst ætlað fólki sem býr utan Reykjavíkur og er sett á dagskrá göngudeildanna í Reykjavík eða á Akureyri eftir því sem þörf krefur.

Helgarmeðferðin er ætluð aðstandendum alkóhólista og annarra vímuefnasjúklinga. Það skiptir engu hvort alkohólistinn hefur farið i meðferð eða ekki. Markmiðiðer að auka þekkkingu þátttakenda á einkennum alkohólisma/vímuefnafíknar og áhrifum sjúkdómsins á fjölskylduna og meðlimi hennar.
Námskeiðsgjald er 8000 kr.

Fyrir foreldra

Fræðslufundir fyrir foreldra unglinga sem eru eða hafa verið í meðferð hjá SÁÁ eru haldnir alla þriðjudaga og hefjast þeir klukkan 18.15 á Sjúkrahúsinu Vogi, Stórhöfða 45 í Reykjavík. Að loknum framsögu- og kynningarerindum hittist stuðningshópur og lýkur fundi klukkan 20.00. Þessir fundir henta einnig vel fyrir foreldra sem eru að byrja að leita sér aðstoðar vegna neyslu unglings. Aðgangseyrir er 2000 krónur.

Framsöguerindin sem haldin eru á fræðslufundum fyrir foreldra fjalla um þessi málefni:

 • Vímuefni sem unglingar nota og áhrif þeirra
 • Bataþróun hjá unglingum og íhlutun
 • Vímuefnameðferð unglinga
 • Vandi foreldra og þjónusta SÁÁ. Göngudeild – Endurhæfing SÁÁ og meðferðarstöðvarnar.

Kynningarfundur

Kynningarfundir eru haldnir alla miðvikudaga kl. 18:00 í Von, Efstaleiti 7.  Aðgangur er ókeypis.

Á fundunum er fjallað um starfsemi SÁÁ, fíknsjúkdóma og meðvirkni. Fyrirspurnum er svarað um tengd málefni. Allir eru velkomnir á kynningarfundina.

Kynningarfundir í Göngudeild Akureyri, Hofsbót 4, eru haldnir fyrsta mánudag hvers mánaðar kl. 17:30.

Dagskrárstjóri Fjölskyldudeildar SÁÁ er Helga Óskarsdóttir, helga@saa.is.

Fjölskyldudeild SÁÁ
Efstaleiti 7
103 Reykjavík
sími: 530 7600