Valmynd
english

Hvað er meðvirkni?

Meðvirkni er flókinn sjúkdómur sem erfitt er að skilja. Upphaf hans má rekja til þess að eðlilegur einstaklingur lendir í sambýli við fíkil sem getur verið mislangt genginn í fíkn sinni. Af stað fer þróun án þess að nokkur geri sér grein fyrir hvað í vændum er. Fíkn fíkilsins versnar alla jafnan og álagið á aðstandandann fer vaxandi og oftast verður það til þess að aðstandandinn veikist. Veikindin meðvirka einstaklingsins verða mis mikil og nokkuð mismunandi.

Mikilvægt að skilja hugtakið

Fólkið sem stundaði áfengis og vímuefnalækningar í Bandaríkjunum áttaði sig smám saman á þessum sjúkdómi aðstandandans og bjó sér til hugmyndir um hann og fór að skilgreina ný hugtök og nota ný orð um hann og einkenni hans. Það bjó sér til tungumál til að lýsa meðvirkni sjúkdóminum og ræða um lausn á honum eða meðferð.

Grundvöllur faglegarar eða vitrænnar umræðu um meðvirkni er að nota hugtök sem eru vel skilgreind og kunn þeim sem um málið fjalla. Mikilvægast er þó að gera sér vel grein fyrir eðli meðvirkninnar og koma sér saman um hvað hugtakið meðvirkni þýðir eða á að merkja.

Gengisfall hugtaka

Meðvirkum einstaklingum sem náð hafa bata og öllum þeim sem vinna við áfengis- og vímuefnalækningar þykir mjög vænt um hugtakið meðvirkni. Þeir vilja líka að hugtakið sé varðveitt og ekki eyðilagt eins og oft gerist í hraða opins samfélags auglýsinga og slagorða. Dæmi um hugtök sem þannig hafa verið eyðilögð með því að þenja þau út og láta merkja nær allt eru hugtökin þunglyndi og áfall.

Það er því full ástæða til að gefa sér dálítinn tíma til að kynna sér sögu hugtaksins og merkingu þess áður en menn demba sér af fítonskrafti í að ná bata í gegnum meðferð eða 12 spora samtök. Þau sem síðan ætla í 12. spors vinnu, eða meðhöndla aðstandendur, þurfa líka að standa klár á hugtakinu áður en þau greina allt og alla með meðvirkni.

Framhald: 1 2 3 4 5 6