Valmynd
english

Meðferð – heilbrigðisþjónusta

Heilbrigðisþjónusta fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga er fjármögnuð af heilbrigðisráðuneytinu og undir eftirliti landlæknisembættisins. Henni má í grófum dráttum skipta í tvo hluta :

Í fyrsta lagi almenn heilbrigðisþjónusta fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga sem fæst við geðrænar og líkamlegar afleiðingar áfengis og vímuefnaneyslunnar. Þjónustan miðar fyrst og fremst að því að lagfæra afleiðingar eða fylgikvilla og hefur það ekki að markmiði að breyta vímuefnaneyslu sjúklinganna. Slík þjónusta er veitt í heilsugæslu og á bráðamóttökum og almennum deildum sjúkrahúsanna. Almenna heilbrigðisþjónustan er fyrst og fremst skaðaminnkandi og dregur úr skaðalegum afleiðingum neyslunnar. Hún er áfengis- og vímuefnaneytendum lífsnauðsynleg og aðgengi að slíkri þjónustu er hluti af félagslegum réttindum áfengis- og vímuefnaneytenda og áfengis- og vímuefnasjúklinga.

Í öðru lagi sérhæfð heilbrigðisþjónusta ætluð áfengis-og vímuefnasjúklingum sem miðar að tvennu:

a. Að afeitra og koma jafnvægi á líkamlega heilsu og geðrænt ástandi áfengis- og vímuefnasjúklinga ( Afeitrun).
b. Meðferð sem miðar að því að stoppa eða draga úr áfengis- og vímuefnaneyslu.

Á árunum 1963-1977 var Geðdeild Landspítalans eina sjúkrahúsið á Íslandi sem tók við áfengis- og vímuefnasjúklingum til sérstakrar meðferðar. Árið 1976 var þessi þjónusta endurskipulögð og vistheimilið að Vífilstöðum tekið í notkun.

Árið 1984 fékk SÁÁ rekstrarleyfi fyrir Sjúkrahúsið Vog. Áður hafði SÁÁ fengið rekstararleyfi fyrir sjúkraþjónustu í Reykjadal og seinna á Silungapolli auk leyfis til að starfrækja endurhæfingardeildir eða vistheimili á Sogni 1978 og Staðarfelli 1980.

Með þessu aðgerðum heilbrigðisyfirvalda var mörkuð ný stefna í áfengis- og vímuefnamálum á Íslandi og og mikil áhersla lögð á áfengis- og vímuefnameðferð. Til urðu tvær heilbrigðisstofnanir sem uppfylltu gæða- og öryggiskröfur heilbrigðisráðuneytisins og Landlæknisembættisins og gátu sinnt mismunagreiningum og fylgikvillum áfengis- og vímuefnasjúklinganna á ásættanlegan hátt að mati heilbrigðisyfirvalda.

Þar var dagleg viðvera og sólahringsvakt lækna og hjúkrunarfræðinga. Frá upphafi gerðu þessar stofnanir engin greinarmunur á áfengissjúklingum og þeim sem glímdu við ólöglegan vímuefnavanda. Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki veitt öðrum stofnunum rekstarleyfi til að sinna sérhæfðri meðferð fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga síðan 1984.

Með áðurnefndum ákvörðun heilbrigðisyfirvalda var mörkuð stefna hér á Íslandi í málefnum áfengis- og vímuefnasjúklinga sem er önnur en tíðkast á hinum Norðurlöndunum og í Vestur Evrópu. Með þessu fækkaði áfengis- og vímuefnasjúklingum á geðdeildum og almennum deildum sjúkrahúsanna. Í staðinn fengu þessir sjúklingar sérhæfða meðferð á þar til gerðum stofnunum. Áfengis- og vímuefnameðferðin varð markvissari og viðbúnaðurinn fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinganna meiri en gerðist í öðrum löndum.

Þó þessar aðgerðir hafi kostað fjármuni má leiða að því rök að á móti hafi sparast miklir fjármunir. Hin sérhæfða áfengis- og vímuefnameðferð kemur í veg fyrir að sjúklingar þurfi að leggjast inn á almenn sjúkrahús og geðdeildir þar sem kostnaður er miklu meiri. Með þessu fyrirkomulagi er álag minna á geðdeildir og almennar deildir vegna áfengis- og vímuefnasjúklinga og rúm skapaðist þar til að sinna öðrum sjúklingum betur.

Þessi stefna stjórnvalda og heilbrigðisyfirvalda hefur haft í för margvíslegar aðrar jákvæðar afleiðingar fyrir áfengis- og vímuefnasjúklingana og styrkja þau viðhorf almennings, heilbrigðisstarfsmanna og stjórnvalda að líta fremur á áfengis- og vímuefnasjúklinginn sem sjúkling en afbrotamann. Í kjölfarið hafa þessir sjúklingar átt auðveldara með að fá aukin félagsleg réttindi sem þeim ber.