Valmynd
english

Karlameðferð

Að lokinni dvöl á Vogi koma nokkrar leiðir til greina fyrir framhald skipulagðrar meðferðar fyrir karlmenn.

Þeir sem búsettir eru á Reykjavíkursvæðinu, eru eldri en 25 ára og búa við nógu góðar félagslegar aðstæður og líkamlega heilsu eiga kost á göngudeildarmeðferð í Reykjavík fjögur kvöld í viku fyrstu fjórar vikurnar en síðan einu sinni í viku næstu þrjá mánuðina.

Annar möguleiki er fjögurra vikna endurhæfing í nýrri og glæsilegri meðferðarstöð SÁÁ á Vík á Kjalarnesi. Þeir karlar sem koma í karlameðferð eru á öllum aldri. Þeir búa í einstaklingsherbergjum og sækja fyrirlestra og taka þátt í hópastarfi og fleira. Mikil áhersla er lögð á að vernda einkalíf allra sjúklinga á stofnunum SÁÁ og er óviðkomandi stranglega bannað að fara inn á herbergi sjúklinga. Að lokinni dvöl á Vík býðst stuðningur frá göngudeild í 2-3 mánuði.

Karlar sem eru endurkomumenn eiga kost á sérstakri Víkingameðferð á Vík og að henni lokinni er þeim veittur stuðningur á göngudeild í eitt ár.

Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins Vogs, og aðrir læknar SÁÁ koma að karlameðferðinni og vinna að henni í þverfaglegu teymi ásamt öðrum heilbrigðisstarfsmönnum samtakanna; hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og ráðgjöfum. Frá degi til dags er meðferðin í höndum áfengis- og vímuefnaráðgjafanna sem halda fyrirlestra og stýra meðferðarhópum.