Valmynd
english

Kvennameðferð

Kvennameðferð SÁÁ fer fram í nýrri og glæsilegri meðferðarstöð SÁÁ á Vík á Kjalarnesi. Kvennameðferð SÁÁ var hrundið af stað árið 1995 og hefur hún skilað góðum árangri. Meðferðin er algjörlega sniðin að þörfum kvenna sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða.

Af um 600 konum sem koma á Vog ár hvert fara um 250 í Kvennameðferð á Vík, en margar hinna fara í meðferð í göngudeildina Von í Efstaleiti í Reykjavík eða á göngudeildina á Akureyri. Þær konur sem koma í kvennameðferð eru á öllum aldri. Þær búa í einstaklingsherbergjum og sækja fyrirlestra og taka þátt í hópastarfi og fleira. Mikil áhersla er lögð á að vernda einkalíf allra sjúklinga á stofnunum SÁÁ og er óviðkomandi stranglega bannað að fara inn á herbergi sjúklinga.

„Bakgrunnur kvenna sem koma í kvennameðferð er afar mismunandi, neyslan er mismunandi, afleiðingar neyslunnar er mismunandi, undirliggjandi sjúkdómar eru mismunandi, félagsleg staða er mismunandi, aðsteðjandi vandamál eru mismunandi,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins Vogs um konurnar sem koma í kvennameðferð. „Hjá nær öllum er mikilvægt að fá góða áfengis- og vímuefnameðferð í upphafi, komast í gott jafnvægi og eflast andlega og líkamlega til að geta hafist handa við önnur verkefni. Mörgum vandamálum er óhjákvæmilega tekið á jafnharðan og meðferðin hefst, ýmist félagslegum, geðrænum eða líkamlegum vandamálum.“

Valgerður og aðrir læknar SÁÁ koma að kvennameðferðinni og vinna að henni í þverfaglegu teymi ásamt öðrum heilbrigðisstarfsmönnum samtakanna; hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og ráðgjöfum. Frá degi til dags er meðferðin í höndum áfengis- og vímuefnaráðgjafanna sem halda fyrirlestra og stýra meðferðarhópum.