Valmynd
english

Kvennameðferð

Sérstök kvennameðferð SÁÁ fer fram á Vík á Kjalarnesi. Kvennameðferð SÁÁ var hrundið af stað árið 1995 og hefur hún skilað góðum árangri. Meðferðin er algjörlega sniðin að þörfum kvenna sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða.

Af um 600 konum sem koma á Vog ár hvert fara um 250 í Kvennameðferð á Vík, en margar hinna fara í meðferð í göngudeildina Von í Efstaleiti í Reykjavík eða á göngudeildina á Akureyri. Þær konur sem koma í kvennameðferð eru á öllum aldri. Þær búa saman í tveggja manna herbergjum og sækja fyrirlestra og taka þátt í hópastarfi og fleira. Mikil áhersla er lögð á að vernda einkalíf allra sjúklinga á stofnunum SÁÁ og er óviðkomandi stranglega bannað að fara inn á herbergi sjúklinga.

„Bakgrunnur kvenna sem koma í kvennameðferð er afar mismunandi, neyslan er mismunandi, afleiðingar neyslunnar er mismunandi, undirliggjandi sjúkdómar eru mismunandi, félagsleg staða er mismunandi, aðsteðjandi vandamál eru mismunandi,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, sérfræðingur í fíknlækningum sem starfar hjá SÁÁ um konurnar sem koma í kvennameðferð. „Hjá nær öllum er mikilvægt að fá góða áfengis- og vímuefnameðferð í upphafi, komast í gott jafnvægi og eflast andlega og líkamlega til að geta hafist handa við önnur verkefni. Mörgum vandamálum er óhjákvæmilega tekið á jafnharðan og meðferðin hefst, ýmist félagslegum, geðrænum eða líkamlegum vandamálum.“

Valgerður og aðrir læknar SÁÁ koma að kvennameðferðinni og vinna að henni í þverfaglegu teymi ásamt öðrum heilbrigðisstarfsmönnum samtakanna; hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og ráðgjöfum. Frá degi til dags er meðferðin í höndum áfengis- og vímuefnaráðgjöfunum sem halda fyrirlestra og stýra meðferðarhópum.

Konum sem hafa áður verið í meðferð á Vík og náð þeim áfanga að vera edrú í eitt ár eða lengur gefst nú kostur á svokallaðri á vikudvöl á Vík. Vikudvölin er hugsuð sem n.k. „verðlaunavika“ sem konurnar geta veitt sér til að fagna góðum árangri og í leiðinni rifjað upp fræðin og aðferðirnar til að hafa í fersku minni. Frekari upplýsingar veitir dagskrárstjóri á Vík í síma 530-7600.