Valmynd
english

Sálfræðiþjónusta barna: Spurt og svarað

Er Sálfræðiþjónusta barna fyrir börn á öllum aldri?

Miðað er við börn frá 8 – 18 ára og að þau hafi ekki hafið neyslu vímuefna.

Hvernig bera foreldrar sig að sem vilja að börn þeirra fái þessa þjónustu?

Foreldrar, forráðamenn eða stofnanir í umboði þeirra geta haft samband við móttökuritara í Von, húsi SÁÁ Efstaleiti 7, Reykjavík, s. 530 7600 og pantað tíma fyrir börnin.

Hvað kostar þjónustan og hve lengi stendur hún yfir?

Hvert barn fær átta viðtöl; eitt viðtal í viku. Hvert viðtal kostar 3.000 krónur og greiða þarf fyrir þjónustuna í upphafi (kr. 24000). Systkinaafsláttur er 40%.

Hver eru helstu markmið Sálfræðiþjónustu barna?

Helstu markmiðin eru:

  • Að barnið fái opnun og viðurkenningu á stöðu sinni og aðstæðum í fjölskyldu þar sem áfengis- eða vímuefnavandi er til staðar.
  • Að hjálpa barninu til að skilja betur aðstæður sínar og foreldra sinna og afleiðingar þeirra.
  • Að stuðla að vellíðan og velferð barnsins í nútíð og framtíð.
  • Að rjúfa þann þagnarmúr og einangrun sem skapast iðulega hjá barni í þessum aðstæðum.
  • Að barnið skilji betur hvað fíknsjúkdómur er, hvernig hann þróast og hvaða afleiðingar hann getur haft.
  • Að barnið átti sig betur á stöðu foreldra sinna og þeim vanda sem þeir eiga við að stríða.
  • Að gera barnið hæfara til að takast á við og vinna úr tilfinningalegri vanlíðan, styrkja sjálfsmynd og félagsfærni.
  • Að aðstoða barnið við að greina á milli fíknsjúkdómsins og og manneskjunnar sem þjáist af honum. Foreldrið er alltaf best í heimi, jafnvel þó það sé með virkan fíknsjúkdóm.
  • Að barnið geri sér grein fyrir því að langflestir reyna að vera góðir foreldrar. Ýmsir erfiðleikar og áföll geta skyggt á þessa mynd.
  • Að fyrirbyggja neyslu áfengis- og annarra vímuefna hjá barninu með því að auka meðvitund þess um þá ákvörðun, ábyrgð og val sem felst í að byrja neyslu.

Það er sársaukafullt fyrir hvern þann sem ekki hefur náð að sinna barni sínu eins og hann hefði viljað, en í þeirri stöðu er flestir foreldrar sem eiga við áfengis- eða vímuefnavanda að stríða. Sálfræðingar SÁÁ leggja sig fram um að nálgast börn og foreldra af nærgætni og virðingu fyrir þeim vanda sem þau standa frammi fyrir.

Virðing og nærgætni


Hefur þessi þjónusta einhverja sérstöðu?

Sérstaða viðtalanna felst í sjónrænni vinnu með hjálp tölvu, en börnum hentar vel að vinna sjónrænt. Lögð er áhersla á samstarf við börnin og að ekki séu gerðar kröfur um ákveðna þekkingu, leikni eða færni eins og í skólanum. Tölvan býður upp á ótal kosti og möguleika. Hún er hluti af daglegu lífi barnanna og þau eru flest fær í að nota tölvur. Oftast er það mikill léttir fyrir börnin þegar þau sjá að tölva er notuð í viðtölunum, sem virðist gera þeim auðveldara að ræða erfiða reynslu og tilfinningar. Auk þess er hægt að kalla fram umræðuefni aftur, skoða það og breyta. Við sjónræna vinnu sitja börnin iðulega uppi með þá tilfinningu að þau séu dugleg og hafi verið að gera eitthvað. Tölvunotkunin virðist síður en svo hindra nálægð og góð tengsl við barnið. Þessi nálgun auðveldar börnum að meðtaka það sem fram fer, muna og skilja. Ef barninu er mikið niðri fyrir eða í tilfinningalegu ójafnvægi, er tölvan lögð til hliðar.

Börnin fá í hendur möppu sem er merkt „Mappan mín. Aðeins fyrir mig“. Mappan er hugsuð til að sýna umhyggju og virðingu fyrir því sem barnið gerir. Börnin geta auk þess fengið að prenta út viðfangsefni sín hverju sinni til að setja í möppuna. Foreldrar eða forráðamenn eru með börnum sínum a.m.k. í fyrstu tveimur viðtölunum og geta haldið áfram að vera með, ef börnin óska þess. Slík samvera býður oft upp á ánægjulega samvinnu. Foreldrar hafa þess utan möguleika á að hafa samband við sálfræðinga SÁÁ.

Hafa börn fólks með fíknsjúkdóm einhverja sérstöðu?

Börn fólks með fíknsjúkdóm eru auðvitað ósköp venjuleg börn sem hafa upplifað mikla óvissu og álag í tengslum við áfengis- eða vímuefnaneyslu á heimilinu sínu, sem til lengdar getur haft tilteknar tilfinningalegar og félagslegar afleiðingar fyrir þau.

Flest hafa aldrei tjáð sig um vandann

Börnin sem koma í viðtölin eiga oftast erfitt með að átta sig á tilgangi þeirra. Því er mikilvægt að mynda við þau góð tengsl frá upphafi og útskýra fyrir þeim hvers vegna þau eru að koma í viðtölin. Viðtölin þurfa að vera í senn skemmtileg, áhugahvetjandi og vettvangur til að takast á við erfiða og sársaukafulla reynslu, svo þau séu jákvæð fyrir að koma. Börnin eiga oft erfitt með að átta sig á hvernig líðan þeirra tengist því sem er að gerast heima hjá þeim. Oft leiðir fíknsjúkdómurinn til þess að ábyrgð og hlutverk fjölskyldumeðlima breytist, forðast er að tala um vandann, tilfinningum er haldið niðri og traust er ekki til staðar. Allt eru þetta grundvallaratriði í tengslum og samskiptum fólks, ekki síst fyrir börnin. Börnum er auk þess eðlilegt að standa með foreldrum sínum og verja þá, sama hvað á dynur. Því getur það verið þeim mjög erfitt að tala um áfengis- eða vímuefnavanda foreldra sinna í viðtölunum og upplifa oft að þau séu að fara á bak við þá. Flest barnanna hafa aldrei talað um vanda foreldra sinna áður.

Hvað með foreldrana?

Flestir vilja vera góðir foreldrar. Þegar aðstæður eru góðar og vel gengur, er auðveldara að standast eigin væntingar um foreldrahlutverkið og njóta þess. Annað er uppi á teningnum þegar foreldrar lenda í erfiðleikum eins og skilnaði, ástvinamissi, atvinnuleysi, slysum eða veikindum. Slíkir erfiðleikar hafa áhrif á alla fjölskylduna. Þetta á við um fíknsjúkdóminn. Hann er alvarlegur, ólæknanlegur, stigversnandi sjúkdómur ef ekkert er að gert. Eins og með aðra sjúkdóma þá spyr hann ekki um kyn, stétt eða stöðu þeirra sem hann herjar á. Það ætlar
sér enginn að fá fíknsjúkdóm. Sú staðreynd að enn gætir fordóma gagnvart fíknsjúkdómnum hefur bæði áhrif á þá sem glíma við sjúkdóminn og á börn þeirra. Alvarlega veikir foreldrar heyja oft hetjulega baráttu um leið og þeir reyna að sinna foreldrahlutverkinu sem best.

Það er sársaukafullt fyrir hvern þann sem ekki hefur náð að sinna barni sínu eins og hann hefði viljað, en í þeirri stöðu er flestir foreldrar sem eiga við áfengis- eða vímuefnavanda að stríða. Sálfræðingar SÁÁ leggja sig fram um að nálgast börn og foreldra af nærgætni og virðingu fyrir þeim vanda sem þau standa frammi fyrir.