Valmynd
english

Sjúkrahúsið Vogur

Á hverju ári eru um 2.000 innlagnir á Sjúkrahúsið Vog. Vogur er eitt fárra sjúkrahúsa í heiminum sem er sérhæft í afeitrun áfengis- og vímuefnasjúklinga. Á Vogi eru rúm fyrir 60 sjúklinga, þar af ellefu rúm á sérstakri sjúkradeild og ellefu rúm á unglingadeild sem ætluð er ungu fólki á aldrinum 16-20 ára. Á Vogi eru á hverjum tíma fjórir til fimm læknar í fullu starfi, átta hjúkrunarfræðingar, átta sjúkraliðar og um tuttugu áfengis- og vímuefnaráðgjafar.

Konur jafnt sem karlar leggjast inn á Vog og dveljast þar að meðaltali í um það bil tíu daga. Sjúklingar á Vogi eru í tveggja manna herbergjum. Sjúklingum er stranglega bannað að fara inn á herbergi annarra sjúklinga. Sérstakur meðferðargangur á sjúkrahúsinu er fyrir konur. Þar eru herbergi kvenna, öll baðaðstaða og snyrting og þar fer hópmeðferð kvenna fram í sérstökum herbergjum.

Auk afeitrunar og byrjunar á meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga er göngudeild starfrækt á Vogi fyrir þá sjúklinga sem eru í viðhaldsmeðferð með lyfjagjöf vegna ópíóðafíknar. Um 100 manns eru í þeirri meðferð á hverjum tíma og í mörgum tilfellum er þar um ævilanga meðferð að ræða.

Sjúkrahúsið Vogur er langumsvifamesta meðferðarstofnun landsins og hefur verið þungamiðjan í starfi SÁÁ frá árinu 1984.  Flestir vímuefnasjúklingar á Íslandi byrja meðferð sína á Vogi og nær allir vímuefnasjúklingar, karlar og konur, sem leita sér meðferðar á Íslandi koma þar fyrr eða síðar.

Um sjö af hverjum tíu sjúklingum á Vogi fara í áframhaldandi meðferð hjá SÁÁ, ýmist á göngudeild eða á meðferðarstöðvunum Staðarfelli (karlar) og Vík á Kjalarnesi (konur; einnig karlar 55 ára og eldri). Meðferðarúrræðin og aðstoðin eru breytileg en segja má að fimm meginleiðir standi sjúklingum til boða að lokinni dvöl á Vogi.

Fyrsti möguleikinn er að fólk fari til síns heima að lokinni stuttri dvöl á Vogi og fái eftir það óskipulagðan stuðning frá göngudeild eftir þörfum.

Annar valkostur er fyrir þá sem búsettir eru á Reykjavíkursvæðinu, eru eldri en 25 ára og búa við nógu góðar félagslegar aðstæður og líkamlega heilsu. Þessir einstaklingar fá göngudeildarmeðferð í Reykjavík fjóra daga í viku fyrstu fjórar vikurnar en síðan einu sinni í viku næstu þrjá mánuðina.

Þriðji möguleikinn er að fara á Staðarfell (karlar yngri en 55 ára) eða Vík (Kvennameðferð, sjá fimmti valkosturinn, og karlar eldri en 55 ára) til fjögurra vikna endurhæfingar og þiggja að þeirri dvöl lokinni stuðning frá göngudeild í tvo til þrjá mánuði.

Fjórði möguleikinn er fyrir endurkomukarla og felst hann í sérstakri meðferð í fjórar vikur á Staðarfelli (Víkingameðferð) og síðan stuðningi í göngudeild í eitt ár.

Fimmti valkosturinn er sérstaklega fyrir konur. Að lokinni dvöl á Vogi fara þær í sérstaka 30 daga kvennameðferð á Vík og þaðan í göngudeildarstuðning í eitt ár.

Frá fyrsta starfsári Vogs 1984 hefur þar verið stunduð nákvæm skráning og sjúkdómsgreining á vímuefnavanda þeirra einstaklinga sem þangað koma ár hvert. Notaðir hafa verið sömu staðlarnir við greininguna í þessi 30 ár sem gera tölulegu upplýsingarnar betur samanburðarhæfar frá ári til árs. Skráningin er einstaklingaskráning og á hverju ári er einstaklingur aldrei skráður nema einu sinni. Endurinnlagnir hafa því ekki áhrif á skráninguna.

Frá 1984 hafa um 25.000 einstaklingar lagst inn á Sjúkrahúsið Vog. Um helmingur þess hóps hefur aðeins þurfst að leggjast einu sinni inn á sjúkrahúsið og 80% þrisvar sinnum eða sjaldnar. Um 20% einstaklinganna eiga hins vegar fleiri en þrjár innlagnir að baki.

Kannanir sem gerðar hafa verið á hópi sjúklinga benda einnig til þess að meðferðin skili góðum árangri og að 50% sjúklinga séu enn án áfengis tveimur árum eftir meðferð og um 58% hafi verið frá áfengi í eitt ár eða lengur eftir að meðferð er lokið.