Valmynd
english

Unglingameðferð

Sértök unglingadeild með ellefu rúmum er við Sjúkrahúsið Vog. Unglingameðferð SÁÁ er byggð upp í kringum unglingadeildina sem tók til starfa árið 2000.

Á Vogi gefst gott tækifæri til að greina vanda unglinga og meta meðferðarþörf þeirra. Vogur er hins vegar sjúkrahús og ólíkt stofnunum barnaverndar að því leyti að þar eru sjúklingar ekki sviptir frelsi og starfsmenn hindra ekki þá sem vilja yfirgefa staðinn. Fjórir sérfræðilæknar starfa við sjúkrahúsið, átta hjúkrunarfræðingar, átta sjúkraliðar, auk löggiltra áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Læknar og hjúkrunarfólk sinnir öllum sjúklingum sjúkrahússins og hluti ráðgjafanna hefur sérþekkingu á starfi með unglinga.

SÁÁ setur það í forgang að fá unglinginn til að sporna við vímuefnaneyslu. Þegar það hefur tekist er lögð aðaláhersla á einstaklingsbundna geðræna og hugræna meðferð sem tekur stuttan tíma en félagsleg endurhæfing og menntun er lögð í hendur fjölskyldu og stuðningskerfa innan skólans eftir að meðferð líkur.

Á unglingadeildinni eru rúm fyrir ellefu unglinga í tveggja manna herbergjum. Sólarhringsvakt er á deildinni, sem er lokuð öðrum sjúklingum. Unglingarnir deila matsal með öðrum sjúklingum á Vogi og hafa aðgang að almennu rými utan deildarinnar. Það varðar sjúkling brottvísun að fara inn á herbergi annars sjúklings. Hluti af meðferðinni byggist á því að kenna unglingum og öðrum sjúklingum að virða mörk í samskiptum.

Raska sem minnst stöðu og högum

Þegar unglingur ratar í vímuefnavanda er full ástæða að reyna meðferðarúrræði sem raska sem minnst högum hans og miðar að því að koma honum eða henni sem fyrst í eðlilegt umhverfi að nýju. Meðferðin á Vogi bíður upp á slíkt. Algengt er að unglingar dveljist á Vogi í átta til tíu daga en þeim sem hafa meiri vanda býðst  framhaldsmeðferð á stofnun; piltum á Staðarfelli og stúlkum á Vík.

SÁÁ leggur áhersla á að uppfræða og virkja foreldra til að taka þátt í því starfi sem meðferð unglingsins getur krafist af foreldrum. Sumir unglinga sem á Vog koma eru ekki fíknir og þurfa því ekki sérhæfða vímuefnameðferð, þeir eru fremur í áhættu og þurfa gott aðhald heima fyrir þegar meðferð á Vogi líkur. Aðrir eru fíknir og þurfa sérstakt meðferðarinngrip á Vík eða Staðarfelli að Vogsdvöl lokinni. Í báðum tilfellum er megináhersla lögð á að tryggja samstarfsvilja unglinganna til að fara í tímabundið eða varanlegt bindindi á eitthvert eða öll vímuefni.

Greina og meðhöndla líkamlega og geðræna sjúkdóma

Á Vogi er lögð mikil áhersla á að greina líkamlega og geðræna sjúkdóma og meðhöndla þá eins og þörf krefur. Mat á geðheilsu unglinganna er unnið í samvinnu við Barna- og unglingageðdeild Landspítalans og á Vogi er oft gerð áætlun um meðferð geðsjúkdóma og slík meðferð hafin. Eftir að meðferð lýkur eru unglingarnir studdir til að halda við heilbrigðu líferni með göngudeildarstuðningi um leið og foreldrarnir eru studdir til að leita eftir þjónustu frá skólayfirvöldum og félagsþjónustunni til að koma unglingnum aftur í nám eða út á vinnumarkaðinn.

Nær öll ungmenni sem koma til SÁÁ í meðferð hafa orðið fyrir töfum í skóla vegna vímuefnaneyslunnar og margir hafa flosnað upp frá námi. Nokkur hluti hefur hætt í skóla án þess að ljúka skyldunámi. Auk menntunarskorts gerir verulegur skortur á þekkingu og jafnvel erfiðleikar við að lesa og skrifa þessum unglingum erfitt að fá atvinnu. Af þessu má ljóst vera að hluti endurhæfingar unga fólksins er fólginn í því að opna þeim leið til náms að nýju.

Eins og fyrr sagði tók unglingadeildin til starfa árið 2000 en hún var byggð með þjóðarátaki sem gert var vegna þess hve gríðarlegum vanda fíkniefnaneysla olli meðal fólks sem fætt var á árunum 1980-1984. Deildin var frá upphafi ætluð 18-19 ára, þ.e.a.s. fólki sem stofnanir barnaverndarkerfisins eru hættar að sinna og á ekki í önnur hús að venda. Þrátt fyrir það hefur þeirri stefnu ávallt verið fylgt að vísa engum frá sem vill komast í meðferð sjálfur, ef barnaverndarnefndir og foreldrar óska eftir því og raunin er sú að með tilkomu deildarinnar vor möguleikar á meðferð 14-19 ára stórauknir og bættir og fáum árum eftir opnun unglingadeildarinnar kom árangur hennar glögglega í ljós þegar endurinnlögnum unglinga í vímuefnavanda fór að fækka ár frá ári.

Á undanförnum árum hefur nokkuð verið deilt um hvaða meðferðarumhverfi hæfi unglingum og ungmennum í vímuefnavanda. Segja má að sú skoðun hafi verið ríkjandi meðal sálfræðinga og félagsráðgjafa að best væri að hafa unglingana út af fyrir sig á sérstökum stofnunum. Reynslan sýnir hins vegar að unglingum líkar mjög vel. Þar virðist minna bera á agavandamálum og brotthlaup fátíðari en á sérstökum unglingaheimilum. Samvinna tekst líka með ungmennunum og hinum fullorðnu í meðferðinni, samvinna sem allir hafa mikinn ávinning af.