Valmynd
english

Viðhaldsmeðferð við ópíóðafíkn

Fólk sem sprautar sig með heróíni, morfíni og öðrum ópíóðum eru gjarnan taldir veikustu vímuefnasjúklingarnir. Heróín hefur ekki fest rætur á fíkniefnamarkaði á Íslandi en ýmis sterk verkjalyf hafa verið misnotuð hér á landi í stað heróíns og er contalgín þekktast þeirra efna úr umræðunni.

Viðhaldsmeðferð með lyfjunum methadon eða buprenorphine ásamt félagslegri og geðrænni endurhæfingu hefur gjörbreytt meðferð og batahorfum þessara sjúklinga síðustu tuttugu árin eða svo.  SÁÁ hóf að veita viðhaldsmeðferð á göngudeildinni við Sjúkrahúsið Vog í september 1999. Sú þjónusta er hvergi annars staðar veitt á Íslandi.

Viðhaldsmeðferðin á Vogi hefur gefið mjög góða raun. Hún gefur einstaklingnum tækifæri til að endurhæfast í skóla eða vinnu og ná virkni í fjölskyldulífi.  Margir sjúklingurinn ná með henni í fyrsta sinni að ná góðum árangri í baráttunni við sinn fíknsjúkdóm. Fjöldi sjúklinganna hefur vaxið smátt og smátt. Í lok árs 2006 sóttu rúmlega um 50 manns þessa meðferð en nú eru þeir um 100.

Viðhaldsmeðferðin er lokalending þegar önnur meðferð bregst. Hún krefst sérhæfðrar þekkingar og umhverfis sem hefur tök á og faglega getu að halda utanum lyfjagjöfina. Hafa þarf gott eftirlit með sjúklingum og grípa inn í vandann með innlögn eða annarri sérhæfðri meðferð ef á þarf að halda. Sjúklingurinn þarf að gangast undir miklar skuldbindingar og samstarfsvilji hans þarf að vera mikill svo slík meðferð takist vel.

Meðferðin er einstaklingshæfð og tekur mið af því að hver sjúklingur hefur ólíka stöðu. Auk þess breytist nálgunin eftir því hvernig meðferðin gengur, frá tímabili aðlöðunar þar sem verið er að vinna að samstarfsvilja og að minnka skaðann, í að vera minniháttar eftirlit þegar vel hefur gengið í langan tíma. Viðhaldsmeðferð getur staðið í mjög langan tíma og oftar en ekki er um ævilanga meðferð að ræða.

Til að komast í viðhaldsmeðferð þurfa sjúklingar að innritast á Sjúkrahúsið Vog þar sem nákvæm greining er gerð á sjúkdómi þeirra og samstarfsvilja. Í framhaldi  af dvöl á Vogi þurfa sjúklingar að ljúka fjögurra vikna endurhæfingu á Staðarfelli eða Vík.  Eftir það halda þeir áfram að sækja sérhæfð lyf á Vog, flestir buprenorphine en einstaka methadone.  Sumir sækja lyfin daglega, aðrir einu til tvisvar sinnum í viku.

Hjúkrunarfræðingar á Vogi afhenda lyf eftir ákveðnum fyrirmælum og meta um leið sjúklinginn. Læknaviðtöl fara fram reglulega á göngudeildinni á Vogi. Auk þess eru teknar þvagprufur og blóðprufur hjá sjúklingum. Margs konar inngrip og þjónusta fylgir viðhaldmeðferðinni sem starfsfólk Vogs ber hitann og þungann af. Samkvæmt þjónustusamningi er gert ráð fyrir að komur til hjúkrunarfræðinga í lyfjaskömmtun séu alls um 5.000 á ári og að komur í viðtal til lækna séu um 600 á hverju 12 mánaða tímabili.

Frá síðustu áramótum er lyfjakostnaður við meðferðina greiddur samkvæmt sérstökum þjónustusamningi SÁÁ við Sjúkratryggingar Íslands en fram að því hafði lyfjakostnaðurinn verið greiddur af söfnunarfé SÁÁ allt frá því viðhaldsmeðferðin hófst hér á landi í september 1999.