Mest verslað með gras, amfetamín og kókaín

Allt frá ársbyrjun 2000 hefur SÁÁ gert mánaðarlegar kannanir á verðlagi á ólöglegum vímuefnum „á götunni.“ Allir innritaðir sjúklingar á Sjúkrahúsinu Vogi, sem hafa heilsu til, taka þátt í könnun þar sem spurt er hve margir þeirra hafa keypt slík efni síðastliðnar tvær vikur, og hvað greiddu þeir fyrir efnin. Meðaltalsverð er síðan reiknað.

Verðkannanir SÁÁ hafa frá upphafi verið gerðar með þessum sama hætti og ættu því að gefa glögga mynd af verðbreytingum á ólöglegum vímuefnum „á götunni” á þessu sautján ára tímabili. Niðurstöður kannananna frá upphafi er hægt að lesa í pdf-skjali hér og að neðan. Skjalið hefur verið uppfært miðað við nýjustu upplýsingar í ágústlok 2017.

Mest er verslað með gras, amfetamín og kókaín og eru verð á þessum efnum stöðug. Að þessu sinni er líka óvenju mikið höndlað með MDMA duft eða kristalla og verðið af því virðist hið sama og á kókaíni. Í verðkönnuninni nú voru einungis 2 sem höfðu notað spice en 8 kannabisefni í rafrettur. Verð á þessum efnum eru enn óljós.

Vímuefnamarkaðurinn verur flóknari og sífellt erfiðara að komast að verði vímuefnanna. Fleiri og fleiri mismunandi sérlyf, sem hafa að geyma ópíóíða eða morfínskyld efni, koma inn á vímuefnamarkaðinn og ganga þar kaupum og sölum. Sum þessara lyfja eru framleidd og ávísað með mismunandi sérlyfjaheitum á sama efninu og í 5-6 mismunandi styrkleikum.

Á markaðnum í Evrópu verður vart við nýjar gerðir af ólöglegum vímuefnum af ýmsum gerðum: örvandi efni, sterk verkjadeyfandi efni og benzodíazepíne. Ekki verður vart við nein slík efni hér.

Sjúklingar sem nota vímuefni í æð virðast nú sækja mest í oxycodonum sem er framleitt undir 4 mismunandi sérlyfjaheitum sem eru með markaðsleyfi á Íslandi: Oxykodon, Oxycodone, OxyContin og OxyNorm. Þessi sérlyf eru farmleidd fimm mismunandi styrkleikum. 7 sjúklingar á Vogi höfðu notað morfínskyld efni þar af 5 oxycodonum.

https://saa.is/wp-content/uploads/2017/09/verdkonnun_saa_september_2017.pdf