Mestu framkvæmdir SÁÁ frá upphafi

Miklar byggingaframkvæmdir eru fyrirhugaðar á landi SÁÁ í Vík á Kjalarnesi og er kostnaður áætlaður um 800 milljónir króna. Ætlunin er að bæta þjónustu við alla hópa áfengis- og vímuefnasjúklinga.Tryggja á aðskilnað karla og kvenna í eftirmeðferð – koma upp búsetuúrræði fyrir endurkomusjúklinga sem þurfa mikla þjónustu með samþættri heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð – og bæta stuðning við unga fíkla sem eru að stíga sín fyrstu skref út í samfélagið á ný.

Staðarfell leggst af

Sameina á Vík og Staðarfelli í nýja meðferðarstöð sem uppfyllir nútímakröfur um allan aðbúnað. Starfsemi á Staðarfelli mun í kjölfarið leggjast af. Eins og annað sem SÁÁ hefur byggt (Vogur, Vík og Von) verða framkvæmdirnar kostaðar af sjálfsaflafé. Stefnt er að því að taka nýju aðstöðuna í notkun á 40 ára afmælisári SÁÁ árið 2017.
„Þetta eru, ásamt byggingu Vogs á sínum tíma, mestu framkvæmdir sem SÁÁ hefur farið í,“ segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, en alls verður hin nýja sameinaða meðferðarstofnun um 3.100 fermetrar. Í raun verður um tvö hús að ræða, annað eingöngu ætlað fyrir um 20 konur og hitt fyrir 40 karla.

„Þörfin er mikil. 200 innlagnir eru á sjúkrahúsið Vog í hverjum mánuði eða nálægt 2.200 á ári. Þetta eru 1.600 einstaklingar á hverju ári. 30% þeirra sem koma í meðferð hjá SÁÁ eru konur. Það hlutfall hefur haldist lengi,“ segir Arnþór en í Vík hefur verið sérstök kvennameðferð síðan 1995. Þar hafa einnig verið eldri karlar sem eiga erfitt með hreyfingu og komast ekki á Staðarfell en meðferð þeirra hefur þó alveg verið aðskilin frá kvennameðferðinni.

THG arkitektar hafa skilað af sér frumteikningum en þær eiga væntanlega eftir að taka einhverjum breytingum.

„Við endurbætum einnig gamla húsið og færum það inn í nútímann. Þetta er gríðarlega stórt mál og mikilvægt – eins og uppfærsla úr Windows 1.0 í Windows 10.0,“ segir Arnþór.

25 þúsund komið í meðferð

Á 38 árum hafa tæplega 25 þúsund einstaklingar komið í meðferð til SÁÁ. „Þetta eru auðvitað ekki tölur úr skoðanakönnunum heldur staðreyndir. Tæplega 25 þúsund einstaklingar í rúmlega 70 þúsund innlögnum á 38 árum. SÁÁ hefur auðvitað með sinni þjónustu snert marga Íslendinga og nýtur þess vegna mikillar velvildar hjá einstaklingum, fyrirtækjum og hinu opinbera,“ segir hann. Án þessa mikla stuðnings og velvildar væri þjónusta fyrir fíkla í skötulíki. „Stundum hefur verið sagt að alltaf sé sama fólkið á Vogi. Þetta er goðsögn sem er langt frá sannleikanum. Helmingur þeirra sem hafa komið í meðferð hefur bara komið einu sinni, bara þurft þetta eina inngrip. Einskiptishópurinn er stærsti hópurinn og í raun hinn týpíski alki.“

Safnað fyrir framkvæmdunum

SÁÁ ætlar að safna fyrir framkvæmdunum og söfnun er þegar farin af stað en lausleg kostnaðaráætlun hljóðar upp á 800 milljónir króna.

„Við erum ekki einvörðungu að byggja yfir sjúklingana, en þarna verður sama þjónustumagn og er í dag sé miðað við báða staðina. Við ætlum að halda áfram að þróa það þekkingarsamfélag sem hefur orðið til innan SÁÁ síðustu 38 ár. Hjá samtökunum starfa fjórir læknar sem hafa áratugalanga reynslu af fíknlækningum og öll okkar meðferð er á ábyrgð þeirra og unnin í samstarfi heilbrigðisstarfsfólks með löggilt réttindi og undir eftirliti landlæknis. Okkar fólk er virkir þátttakendur í hinu alþjóðlega þekkingarsamfélagi á sviði fíknlækninga og liður í okkar áformum með þessum framkvæmdum er að skapa aðstæður þar sem við getum haldið áfram að þróa okkar þekkingu.“

Birt í Morgunblaðinu 22. september s.l.

Hér er hægt að skoða teikningar af fyrirhuguðum framkvæmdum á Vík:
Grunnmynd 1. hæð
Grunnmynd 2. hæð

 

SÁÁ 0303 01

 

SÁÁ 0303 02