Nám ráðgjafa í Skóla SÁÁ fyrir heilbrigðisstarfsfólk

Um fjörutíu áfengis- og vímuefnaráðgjafar starfa hjá SÁÁ. Segja má að þeir beri hitann og þungann af meðferðinni á stofnunum SÁÁ nema á Sjúkrahúsinu Vogi þótt þeir gegni einnig mikilvægu hlutverki þar. Ráðgjafar vinna í þverfaglegum teymum heilbrigðisstarfsfólks undir handleiðslu lækna sem hafa sérþekkingu í áfengis- og vímuefnameðferð. Ráðgjafar halda fyrirlestra í meðferðinni, þeir sjá að miklu leyti um hópmeðferð og einstaklingsráðgjöf.

Ráðgjafahópur SÁÁ hefur  ákaflega fjölbreyttan bakgrunn hvað varðar menntun og starfsreynslu. Margir hafa lokið háskólaprófi eða iðn- eða starfsnámi.  Æskilegt er að þeir sem ráðnir eru til starfa hafi lokið stúdentsprófi en það er þó ekki ófrávíkjanleg krafa.

Ráðningarferlið gengur þannig fyrir sig að eftir atvinnuviðtal er umsækjendum sem þykja koma til greina boðið í svokallaða starfskynningu á sjúkrahúsið Vog. Kynningin stendur yfir í viku og að henni lokinni tekur hópur starfsmanna SÁÁ ákvörðun um hvort bjóða eigi viðkomandi ráðningu til reynslu í þrjá mánuði.

Fyrstu þrjú árin stendur yfir starfsnám þar sem fólki er veitt mikil kennsla og handleiðsla. SÁÁ hefur um langt skeið séð um starfsmenntun áfengisráðgjafa og rekur í því skyni sérstakan skóla; Skóla SÁÁ fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Sérstök námskrá er í gildi fyrir nám ráðgjafa við skólann og er hægt að lesa hana hér.

Á námstímanum eru haldin tvö próf sem nemar þurfa að standast til þess að halda áfram í starfi. Nokkuð er um að ráðgjafanemar falli út á námstímanum þar sem þeir standast ekki próf. Með reglugerð frá árinu 2006 var viðurkennd staða og nám þeirra áfengis- og vímuefnaráðgjafa innan heilbrigðiþjónustunnar sem unnið höfðu hjá SÁÁ árum saman og fengið þar kennslu og handleiðslu. Með reglugerðinni varð til ný heilbrigðisstétt með heitinu áfengis- og vímuefnaráðgjafi.

Nám ráðgjafa í Skóla SÁÁ fyrir heilbrigðisstarfsfólk á sér fyrirmynd frá Bandaríkjunum en á upphafsárum SÁÁ sóttu ráðgjafar og kennarar þeirra hjá SÁÁ þekkinguna á ráðstefnur og í heimsóknum til mismunandi meðferðarstofnana þar. Ráðgjafaskipti fóru einnig fram milli ýmissa bandarískra meðferðarstofnana og SÁÁ.

Á árinu 2003 hófst formleg samvinna við NAADAC (Samtök Áfengis- og vímuefnaráðgjafa í Bandaríkjunum) og þá skoðuðu fulltrúr NAADAC aðstæður á sjúkrahúsinu Vogi og viðurkenndu sjúkrahúsið sem fullgilda menntastofnun til endurmenntunar fyrir áfengis- og vímuefnaráðgjafa í þeirra samtökum þann 12. maí 2003. Um leið var viðurkennt að áfengis- og vímuefnaráðgjafar, sem lokið höfðu námi hjá SÁÁ, gætu tekið próf NAADAC hér á landi og fengið með því leyfi til áfengis- og vímuefnaráðgjafar í USA. Fyrstu áfengis- og vímuefnaráðgjafarnir þreyttu og stóðust slík próf 25. nóvember 2003. Síðan hafa margir gengist undir próf NAADAC og staðist það.

Þótt ekki sé verið að auglýsa störf ráðgjafa laus til umsóknar nú geta þeir sem hafa áhuga á verða áfengis- og vímuefnaráðgjafar hjá SÁÁ sent eiginhandarumsóknir með ferilskrá á netfangið saa@saa.is. Fyrirliggjandi umsóknir eru teknar til skoðunar þegar störf losna.