Nítján dauðsföll 2015 vegna ópíóðaneyslu

Umfjöllunin að neðan birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. ágúst 2016.

Ópíóíðalyfjanotkun hefur aukist mikið í þjóðfélaginu síðustu ár, ekki bara hjá fíklum heldur líka hjá fólki almennt sem er t.d. með sjúkdóma. Þetta segir Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir á Vogi. Undir flokk ópíóíðalyfja falla m.a. contalgin, oxycodone og fentanýl sem eru vinsæl til vímuefnaneyslu. Hægt er að rekja nítján dauðsföll á Íslandi á árinu 2015 til neyslu á ópíóíða-lyfjum eins og fentanýls en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú hvort andlát ungs manns um síðustu helgi megi tengja neyslu lyfsins.

Læknalyf virðast vera það sem fíklar sækja í umfram ólögleg fíkniefni en rannsóknir hafa sýnt að fíklar velja lyf eins og rítalín uno fram yfir önnur efni. Eftirsóttasta lyfið meðal fíkla á Íslandi í dag er contalgin, oxycodone er einnig mikið notað og þá fentanýl. Öll hafa þau sömu verkun. Götumarkaðsvirðið er hátt á þessum lyfjum, sterkasta pakkningin af oxycodone er 80 mg, í pakkningunni eru 98 stykki og er götuverðið núna 5.000 til 8.000 kr. fyrir eitt stykki. Því væri hægt að auðgast um hálfa milljón til átta hundruð þúsund á því að selja oxycodone í stykkjatali á götunni ef ein pakkning fæst ávísuð frá lækni. Þórarinn segir að verðbreytingar á lyfjum séu mjög hraðar, verðið sé mismunandi eftir vikudögum og tíma sólarhringsins. „Contalgin og oxycodone ganga mikið kaupum og sölum en ekki fentanýl. Það kemur stundum inn og er þá kannski bundið við einstakling sem er í sérstökum tengslum,“ segir Þórarinn.

Í samstarf við lögregluna

Picture 037Ólafur B. Einarsson, verkefnisstjóri lyfjamála hjá Embætti landlæknis, segir að þar hafi verið fylgst með neyslu á lyfseðilsskyldum lyfjum eins og fentanýli í nokkurn tíma. Embættið hyggur bráðlega á fund með lögreglunni til að ræða þau mál. »Við erum að reyna að átta okkur á því hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis í lyfjaávísunum til þessara einstaklinga. Í mörgum tilvikum sjáum við það ekki, þeir sem eru í þessu ástandi fá lyfin oftast með öðrum hætti heldur en ávísuð beint sjálfir,« segir Ólafur. Erfitt er að koma í veg fyrir að lyf gangi kaupum á sölum á almennum markaði en vonir standa til, að sögn Ólafs, að ávinningur gæti náðst ef samstarf Embættis landlæknis við lögregluna verður að veruleika.

Gera sér upp veikindi

Allir ávísaðir lyfseðlar, hvort sem þeir eru handskrifaðir eða rafrænir, eiga að fara inn í lyfjagagnagrunn embættisins en um 900 læknar hafa aðgang að honum. Læknar mættu þó vera virkari í notkun gagnagrunnsins að sögn Ólafs en þar inni geta þeir m.a. séð hvort tilteknir einstaklingar eru að ganga á milli lækna eða að fá óeðlilega mikið magn af verkjalyfjum ávísað á sig. „Þessi grunnur er að sanna sig varðandi ýmis lyf en það eru vandræði þegar fólk er að gera sér upp veikindi til að fá lyf til þess að selja,“ segir Ólafur.
Þórarinn segir að á Vogi hafi þau orðið vör við notkun fentanýls í mörg herrans ár. „Áður fyrr voru þessi sterku verkjalyf aðeins notuð innan sjúkrahúsa, en það hefur gjörbreyst á kannski tveimur áratugum, nú fær fólk lyfin heim og þannig komast þau í umferð.“


Fréttaskýringin að ofan birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. ágúst 2016. Höfundur er Ingveldur Geirsdóttir, blaðamaður Morgunblaðsins, og er efnið birt hér með hennar leyfi.