Ný meðferðarstöð

Ný meðferðarstöð SÁÁ rís nú í Vík á Kjalarnesi og er stefnt að því að taka hana í notkun á næsta ári. Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, segir í samtali við Morgunblaðið í gær að hið nýja hús verði borgað með eigin fjáröflun eins og framkvæmdir samtakanna hingað til. „Það er alltaf verið að herða kröfurnar og við erum að verða við þeim og uppfæra allan aðbúnað sjúklinga okkar þannig að hann mæti nútímakröfum,“ sagði Arnþór.

Á næsta ári verða liðin 30* ár frá stofnun Samtaka áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann. SÁÁ gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi.

Áfengi og önnur vímuefni valda gríðarlegu tjóni í íslensku samfélagi. Alkóhólismi hefur rústað ófáum fjölskyldum. Hann veldur ekki bara fíklinum skaða, heldur öllum hans nánustu aðstandendum.

Mörgum hættir við að tala um áfengi eins og það sé hver önnur neysluvara. Staðreyndin er hins vegar sú að engin önnur neysluvara, sem seld er löglega á Íslandi, hefur jafn afdrifarík áhrif á hegðun fólks og hugsun og áfengi.

Þá er ótalið tjónið sem neysla áfengis og vímuefna veldur þjóðfélaginu öllu í töpuðum vinnustundum og kostnaði við heilbrigðisþjónustu og félagslega aðstoð, svo eitthvað sé nefnt. Víst er að það hleypur á milljörðum króna á hverju ári.

SÁÁ hefur hjálpað mörgum að komast út úr öngstræti fíknarinnar og ná stjórn á lífi sínu á nýjan leik. Það framlag er ómetanlegt og framkvæmdirnar í Vík sýna að innan samtakanna er metnaður til að styrkja þau enn í sessi.

Greinin hér að ofan er forystugrein Morgunblaðsins frá 1. október 2016, sem er aðgengileg áskrifendum á vef blaðsins hér.

*40 ár verða liðin frá stofnun SÁÁ í október 2017. Samtökin voru stofnuð 1. október 1977.