Ný Vík: Samið við arkitekta og verkfræðinga

SÁÁ hefur gert samninga við arkitekta og ráðgjafasamninga við verkfræðinga um vinnu við hönnun nýrrar meðferðarstöðvar á landi samtakanna á Vík á Kjalarnesi. THG arkitektar undir forystu Halldórs Guðmundssonar arkitekts verða arkitektar framkvæmdanna. Við sama tækifæri voru gerðir samningar við Hnit ehf verkfræðistofu um burðarvirkishönnun og lagna- og loftræstihönnun og við VSB verkfræðistofu um rafhönnun.

„Næstu vikur og mánuði er hönnunarferli í gangi og við gerum ráð fyrir að fullnaðarhönnun ljúki í mars og apríl,“ segir Theódór S. Halldórsson, formaður bygginganefndar framkvæmdastjórnar SÁÁ. „Þá taka við útboð og samkvæmt áætlun verður byrjað að grafa 2. maí. Jarðvinnu á að ljúka 13. maí og þá verður farið að reisa húsið. Við ætlum að klára þetta verk í maí 2017.“ Hönnun innandyra og vinna við innréttingar verður boðin út sérstaklega á næstu mánuðum.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við undirritun samninga við arkitekta- og verkfræðinga á dögunum. Á myndinni að ofan eru frá vinstri: Sigrún Halldórsdóttir frá THG arkitektum ehf., Ragnar Auðunn Birgisson frá THG arkitektum ehf., Kjartan Ó Kjartansson frá Hnit ehf verkfræðistofu, Bogi Þórðarson frá Hnit ehf verkfræðistofu, Haukur J Eiríksson frá Hnit ehf verkfræðistofu, Halldór Guðmundsson frá THG arkitektum ehf., við borðsendann vinstra megin, og Theódór S Halldórsson, formaður bgginganefndar SÁÁ, við borðsendann hægra megin. Þá Stefán B Veturliðason frá VSB verkfræðistofu ehf., Þorgeir Jóhann Kjartansson frá VSB verkfræðistofu ehf, Oddur Kr. Finnbjörnsson frá THG arkitektum ehf., Halla Hrund Pétursdóttir frá Landark ehf. og loks Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ.