Nýja álman á Vogi komin í fulla notkun

Ný álma við sjúkrahúsið Vog hefur nú verið tekin í fulla notkun. Þar eru sex sjúkrastofur með nýjum og fullkomnum sjúkrarúmum fyrir ellefu sjúklinga. Byggingin er að öllu leyti fjármögnuð með fé sem velunnarar SÁÁ hafa látið af hendi rakna og án nokkurra útgjalda af hálfu opinberra aðila.

Þessi nýja álma er ætluð veikustu sjúklingunum á Vogi. Ný aðstaða fyrir vakt og lyfjavörslu sjúkrahússins er einnig í nýju álmunni í samræmi við nútímakröfur um,öryggi starfsfólks og sjúklinga.

Rúm 30 ár eru frá því sjúkrahúsið Vogur var byggt og frá þeim tíma hafa meira en 24.000 sjúklingar lagst þar inn. Þótt upphaflega byggingin  sé mjög vel heppnuð og hentug er hún barn síns tíma. Sjúklingahópurinn á Vogi hefur breyst mikið á þessum 30 árum.

Mun meira er nú en í upphafi um mjög veika sjúklinga, eldra fólk sem glímir við hreyfihömlun og á erfitt með að sinna sjálfu sér og þarfnast því meiri umönnunar, aðhlynningar og þjónustu sem ekki var gert var ráð fyrir þegar spítalinn var byggður.

Þá var aðstaða undir lyfjageymslu og öryggi sem tengist lyfjagjöfum ekki lengur í samræmi við fyllstu kröfur sem gerðar eru í dag.

Úr þessu hefur nú verið bætt með nýju álmunni sem fékk endanlegan gæðastimpil á síðastliðinn föstudag að lokinni úttekt á vegum hins opinbera.Fyrsta skóflustunga að viðbyggingunni við Vog var tekin föstudaginn 13. september á síðasta ári eftir að stjórn SÁÁ ákvað að byggja álmu við sjúkrahúsið til að bæta úr vanköntum á húsnæðinu.

Theódór S. Halldórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri SÁÁ, sem nú situr í framkvæmdastjórn samtakanna, var formaður byggingarnefndar sem hafði umsjón með framkvæmdunum.

Styrktarsjóður SÁÁ lagði fram fé til þess að kaupa fullkomin sjúkrarúm og húsgögn fyrir nýju álmuna.

Frá stofnun samtakanna hefur SÁÁ byggt og keypt húsnæði undir starfsemi sína að mestu án aðkomu frá hinu opinbera.  Þetta hefur tekist með sjálfboðaliðavinnu og sjálfsaflafé á löngum tíma.