Nýr vefur SÁÁ í loftið

Nýr vefur SÁÁ var tekinn í notkun á léninu saa.is í gær og leysir af hólmi vefinn á myndinni að ofan en sá var árgerð 2003.

Líkt og áður verður saa.is uppfærður reglulega með fréttum, pistlum og viðtölum sem tengjast starfsemi og viðfangsefnum SÁÁ og hagsmunamálum áfengis- og vímuefnasjúklinga.

Nýi vefurinn er svokallaður snjallvefur, en það þýðir að hann er skalanlegur (e. responsive), lagar sig að því hvort verið er að skoða hann úr tölvuskjá, spjaldtölvu eða snjallsíma og birtist á ólíkan hátt í mismunandi tækjum.

Ýmsar nýjungar í viðmóti og framsetningu efnis hafa það markmið að einfalda leit notenda að upplýsingum um samtökin og starfsemi þeirra.

Þessi nýi vefur er knúinn af opnum hugbúnaði frá WordPress en hönnun er byggð á sniðmátinu Lucid frá Elegant Themes. Vefsmíði, aðlögun og hönnun viðbóta annaðist Birgir Erlendsson. Enn er unnið að fínstillingu útlits og virkni einstakra þátta. Ábendingar og athugasemdir sendist Pétri Gunnarssyni vefstjóra á netfangið [netfang]petur@saa.is[/netfang].