Nýtt SÁÁ blað borið í hús í dag

SÁÁ blaðið, 1. tbl. 2016, er komið út og er blaðið borið í öll hús á höfuðborgarsvæðinu í dag, þriðjudaginn 22. mars.

Meðal efnis í blaðinu er viðtal við Hjalta Björnsson, dagskrárstjóra á Vík, sem hefur um þrjátíu ára reynslu af starfi áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Hjalti segir frá baráttu fyrir viðurkenningu ráðgjafastarfsins en ráðgjararnir hafa verið löggilt heilbrigðisstétt frá árinu 2006.

Þá er rætt við dr. Ingunni Hansdóttur, sem tók við nýju starfi yfirsálfræðings SÁÁ um áramótin. Ingunn ræðir um sálfræði og meðferð SÁÁ, kvennameðferð, áföll og fíknmeðferð og sitthvað fleira.

Einnig er rætt við Spessa ljósmyndara sem segir sögu sína en hann hefur nú lifað edrúlífi í um 30 ár.

Þá er fjallað um byggingu nýrrar meðferðarstöðvar á Vík á Kjalarnesi, en jarðvinna á lóðinni hefst á næstu dögum. Einnig um þátttöku SÁÁ í átaki íslenskra heilbrigðisyfirvalda í samstarfi við lyfjafyrirtækið Gilead um að útrýma lifrarbólgu C úr íslensku samfélagi.

Ritstjóri blaðsins og umsjónarmaður er Pétur Gunnarsson. Spessi tók flestar ljósmyndir í blaðinu.

Hægt er að lesa blaðið í heild í pdf-skjali hér á vef SÁÁ.