Ofskynjunarefni

Ofskynjunarefni hafa nokkra sérstöðu meðal vímuefna að því leyti að sjaldnast verða menn fíknir í þessi efni einvörðungu. Auðvelt er að finna fólk sem er fíkið og notar eingöngu, áfengi, róandi ávanalyf, ópíumefni, kókaín, amfetamín eða kannabisefni. Sama verður ekki sagt um ofskynjunarefni því varla finnst sá einstaklingur sem er fíkinn í ofskynjunarefni og hefur notað þau eingöngu um langan tíma. Þannig geta þessi efni engan vegin keppt við amfetamín kókaín, ópíumefni eða róandi ávanalyf þegar vímuefnafíklar eru annars vegar. Neysla ofskynjunarefna er yfirleitt tímabundin tilraunastarfsemi og eftir að neytandinn hefur kynnst efninu náið verður hann því afhuga og snýr sér að annarri neyslu. Sölumenn og þeir sem fást við vímuefnameðferð líta því oftast á neyslu efnanna sem tímabundið tískufyrirbrigði sem muni ganga yfir meðan önnur vímuefnaneysla er stöðugri.

Ofskynjunarefni hafa þó verið hluti af ólöglega vímuefnamarkaðinum á Vesturlöndum í rúm fjörutíu ár og valdið miklum vanda. Meðan LSD var alsráðandi á markaðinum var aðal vandinn geðveikieinkenni eða hættulegar og óvæntar geðslagsbreytingar hjá neytandanum. Lífshætta skapaðist ekki vegna líkamlegrar LSD eitrunar því að dauðaskammtar eru ekki þekktir heldur fóru sturlaðir LSD neytendur sér að voða. Heilbrigðisstofnanir tóku því á móti LSD neytendum sem voru sturlaðir, ofsahræddir eða alvarlega þunglyndir. Efnið jók líka verulega álag á geðdeildum því varanleg geðveikieinkenni komu fram hjá þeim sem höfðu geðrænan veikleika eða geðsjúkdóm fyrir. Þegar helsælan er notuð í stað LSD má segja að sömu vandamálin séu á ferðinni en við bætist lífshætta vegna of stórra skammta eða óvæntra líkamlegra lyfjaviðbragða við helsælunni.

Á ólöglega vímuefnamarkaðinum er mikið um svik og oft er erfitt að átta sig á því hvaða efni er verið að nota og selja. Þeir sem eru vanir neytendur og eru að kaupa efni sem þeir hafa notað oft verða sjaldan fyrir svikum. Þó er þetta ekki algilt því hægt er að gabba vanan kókaínneytanda með því að selja honum koffein sem blandað er staðdeyfiefnum. Þeir sem eru að leita fyrir sér í fyrstu skipti á vímuefnamarkaðinum eða eru að kaupa efni sem þeir hafa litla reynslu af verða helst fyrir barðinu á svikahröppum. Kaupendur ofskynjunarefna eru flestir tilraunaneytendur eða hafa sjaldan notað þessi efni. Þeir eru því tilvalin fórnarlömb svika. Ólöglegt er að nota þessi efni til lækninga eða rannsókna og öll framleiðsla þeirra og dreifing er ólögleg og eftirlitslaus. Svik eru því aldrei oftar í tafli en þegar verið er að selja ofskynjunarefni. Dæmi um slík svik er að algengt var á áttunda áratugnum í Bandaríkjunum að selja PCP eða englaryk sem LSD. Þetta skapaði mikinn vanda því að verkunin kom neytandanum í opna skjöldu og eitranir voru mjög algengar.

Þessi svik og óvissa veldur talsverðum erfiðleikum í faraldsfræðilegum rannsóknum á neyslu ofskynjunarefna. Á sama hátt veldur þetta erfiðleikum við lækningar. Þegar sjúklingar koma inn á sjúkrahús vegna neyslu ofskynjunarefna er þó sjaldnast ástæða til að gera annað en að byggja meðferðina á sögu einstaklingsins og einkennum sem hann hefur. Þannig er oftast hægt að leysa vandan. Þegar um alvarlegri eitranir er að ræða þarf oft að vita nákvæmlega hvaða efni eru á ferðinni og slíkt verður ekki gert nema með flóknum og dýrum rannsóknum. Með tilkomu helsælunnar til Íslands hefur hættan á alvarlegum eitrunum vaxið.

Skilgreining og flokkun

Ofskynjunarefni eða hallucinogens er hér notað sem samheiti yfir fjölmörg efni sem geta verið óskyld efnafræðilega en eiga það sameiginlegt að breyta skynjun manna. Aðal einkenni þessara efna er að breyta skynjuninni kröftuglega án þess að fram komi eitranir eða aðrar hjáverkanir. Um leið trufla þau lítið minni og gáfnafarslega úrvinnslu heilans. Efnin valda ofskynjunum (Hallucinations ), skynvillum ( Illusion ) eða trufla hugsun þannig að fram koma ranghugmyndir. Þau hafa víðtæka og flókna verkun á heilastarfsemina og sálarlífið. Erfiðlega hefur gengið að finna samheiti sem er lýsandi fyrir flóknu verkun þeirra og allir eru á eitt sáttir um. Samheitið hugvíkkandi efni ( Psychedelic drugs ) er oft notað en mörgum finnst það orð lýsa illa neikvæðum áhrifum efnanna og notkun þess bera í sér of jákvætt viðhorf til þeirra.

Ofskynjunarefni ( Hallucinogens ) er það orð sem oftast er notað þó að það geti verið dálítið misvísandi. Þannig valda þessi efni sjaldan raunverulegum ofskynjunum í þeim skömmtum sem algengast er að nota þau. Þau geti þó öll valdið ofskynjunum ef skammtarnir eru nógu stórir. Fólk finnur því miklu oftar til breyttrar skynjunar og skynvillna þegar þessi efni eru notuð og sumir hafa því stungið upp á nafninu Illusinogens. Þeir sem gerðu tilraunir með þessi efni til að skilja betur geðsjúkdóma notuðu orðið psychotomimetic þar sem áhrifin líktust mjög ákveðnum geðveikieinkennum.

Pages: 1 2 3 4 5 6 7 8