Ógnvekjandi og skyndileg aukning á dauðsföllum meðal ungra fíkla

Þórarinn Tyrfingsson

Í erindi Þórarins á Læknadögum kom fram að árið 2017 er versta árið með 14 dauðsföll hjá þeim sem eru 29 ára og yngri.

32 áfengis- og vímuefnasjúklingar sem voru undir fertugu létust á árinu 2017, þar af voru 14 yngri en 30 ára. Á árinu 2016 voru sömu tölur 27 og 9. Þetta eru hræðilegar tölur og miklu hærri en við höfum séð áður. Þetta má að miklu leyti rekja til aukningar á fjölda ungra sjúklinga sem eru að nota sterka ópíóíða í æð (contalgin og oxycodone). Þetta kom fram í erindi Þórarins Tyrfingssonar um ópíóíðafíkn á Læknadögum.

Hvað dauðsföllin varðar hafa þau verið miklu færri allt frá árinu 2000 meðal þeirra sem eru yngri en 40 ára. Í aldurshópnum undir 30 ára skera fjögur ár sig úr; árin 2000, 2001, 2014 og nú 2017 sem er versta árið með 14 dauðsföll hjá þeim sem eru 29 ára og yngri.

Fíkn í sterkari ópíóíða (morfin og oxycontine) byrjar að vaxa aftur árið 2013 og nær áður óþekktri stærð með 166 einstaklingum árið 2016. Yfir 80% þessara sjúklinga nota þessi vímuefni í æð. Tölur liggja ekki fyrir um árið 2017.

Í gagnagrunninum á Vogi eru skráðir 24.277 einstaklingar. Aukning á ótímabærum dauðsföllum úr grunninum meðal þeirra ungu nú er vísbending um að bráðaþjónustu þeim til handa þarf að auka.  Þjónustan er í höndum Vogs, Bráðamóttöku LSH, sjúkraflutninga og lögreglu. Allir þessir aðilar eru í fjársvelti og biðlistinn á Vogi hefur aldrei verið lengri.

Nú um sinn eru 30% ótímabærra dauðsfalla á Íslandi á aldrinum 20-60 ára úr gagnagrunninum á Vogi. Sjúkrahúsið Vogur þarf að fá að sinna þessum sjúklingum betur.

Sjá nánar meðfylgjandi glærur >