Ómalbikað í 30 ár

Sjúkrahúsið Vogur var tekið í notkun 28. desember 1983. Á þeim tíma voru ekki önnur hús í því hverfi við Stórhöfða þar sem spítalinn stendur. Og þarna hefur sjúkrahúsið staðið í 30 ár og tekið á móti þúsundum sjúklinga, aðstandendum þeirra, sjúkrabílum daglega og lögreglubílum og vöruflutningabílum. Tvívegis hefur verið byggt við Vog. Unglingadeild og læknaálma var byggð árið 1999 og á þessu ári var tekin í notkun ný álma undir vaktina og fyrir veikustu sjúklingana. Allar þessar framkvæmdir voru fjármagnaðar af samtökunum sjálfum og vinum þeirra og velunnurum.

Á 30 árum hefur byggst upp stórt hverfi með gangstígum og malbikuðum götum þar sem sjúkrahúsið Vogur stóð eitt sinn eitt og sér. En vegurinn sem er brekka og liggur í átt að sjúkrahúsinu hefur hvorki verið malbikaður né gengið frá gangstígum. SÁÁ hefur í 30 ár þurft að halda þessum malarvegi opnum í öllum veðrum, ryðja hann í ófærð, bera í holurnar og salta á hálku.​

Reykjavíkurborg hefur auðvitað í gegnum tíðina lítið vilja vita af starfsemi SÁÁ og aldrei getað unnið með samtökunum á uppbyggjandi hátt í þágu borgarbúa. En þessi ómalbikaði vegarspotti er náttúrulega fyrir löngu orðinn niðurlægjandi og skammarlegur fyrir Reykvíkinga og þá sérstaklega borgarfulltrúa þeirra síðustu 30 ár.

Það er sjálfsagt hægt að finna upp einhverjar afsakanir eða eftiráskýringar á þessu 30 ára gamla sleifarlagi, en þaðan sem við hjá SÁÁ horfum blasir við að Reykjavíkurborg telur það ekki ómaksins vert að ganga sómasamlega frá götu og gangstígum sem liggja í átt að spítala þar sem eru alkóhólistar og fíklar.

Maður spyr sig hvort borgarfulltrúar í Reykjavík sjái alkóhólista og fíkla einvörðungu fyrir sér í gámum í öskutunnuporti úti á Granda. En þar er náttúrulega búið að malbika.

Höfundur greinar