Opið bréf til fréttastjóra RÚV

Heil og sæl Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV

Fyrir hönd SÁÁ vil ég gera alvarlegar athugasemdir við fréttaflutning RÚV, sjá hér.  Ég hirði ekki um að endurrita fréttina.

Þó Guðrún Ebba Ólafsdóttir tjái sig undir nafni þá kemur hún með svo alvarlegar fullyrðingar um unglingameðferðina á sjúkrahúsinu Vogi, að hér er mjög líklega brot á reglum RUV um fréttir og dagskrárefni þeim tengdum.

Þannig er brotin 2.gr. um að flytja skuli efni af sanngirni og óhlutdrægni og að leita skuli upplýsinga frá báðum aðilum og leitast við að kynna sjónarmið sem jafnast. Þá er 6.gr. einnig brotin og jafnvel sú sjöunda.

Á öðrum fjölmiðlum hefur Guðrún Ebba komið fram og fullyrt að vændi sé stundað á sjúkrahúsinu Vogi. Sá sem dreifir dylgjum og atvinnurógi er jafn lélegur pappír og hinn sem býr til óskapnaðinn. Það vita allir sem hafa snefil af sjálfsvirðingu.

Telur þú Rakel Þorbergsdóttir, að umræddur fréttaflutningur sé í samræmi við tilvísaðar reglur RÚV um fréttir og dagskrárefni?

Til samanburðar má lesa frétt mbl.is af sama máli en þar er dylgjum og atvinnurógi Guðrúnar Ebbu sleppt, eins og skiljanlegt er, enda í samræmi við fagleg vinnubrögð, sjá hér.

Höfundur greinar