Opinn fundur SÁÁ í Fjallabyggð

SÁÁ stendur fyrir opnum borgarafundi um áfengis- og vímuefnavandann í menningarhúsinu Tjarnarborg, Ólafsfirði, mánudaginn 2. febrúar kl. 20. Á fundinum, sem verður í tónum og tali skv. auglýsingu, tala Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir á Vogi, Arnþór Jónsson formaður SÁÁ, Krisín Sigurjónsdóttir frá Siglufirði og Einar Már Guðmundsson rithöfundur. Fundarstjóri er leikarinn Rúnar Freyr Gíslason, en hann starfar sem verkefnastjóri hjá SÁÁ.

Að loknum erindunum verður gestum boðið að tjá sig og spyrja spurninga og í boði eru skemmtiatriði og veitingar. Allir eru velkomnir og frítt er inn. Tilgangurinn er m.a. að efla tengsl SÁÁ við landsbyggðina og kynna þær leiðir sem samtökin bjóða alkóhólistum og aðstandendum þeirra. Fundurinn í Fjallabyggð er liður í fundarherferð SÁÁ um landið og hefur hún gengið vel að sögn Rúnars Freys, sem segir starfsemi SÁÁ umfangsmikla.

„Auk þess að reka sjúkrahúsið Vog í Reykjavík eru samtökin með meðferðarstöð fyrir karla á Staðarfelli og í Vík fyrir konurnar. Við rekum einnig göngudeild í Reykjavík og á Akureyri, sálfræðiþjónustu fyrir börn alkóhólista og fjölskyldudeild SÁÁ, “ segir Rúnar Freyr. „Við gerum líka mikið af því að virkja fólk eftir að meðferð lýkur með allskonar félagstarfi og eftirfylgni.”

Ekki bara alkar í Reykjavík

Síðastliðið ár SÁÁ haldið fundi á Ísafirði, Egilsstöðum, Eskifirði, Vestmannaeyjum og Akureyri. „Með þessu erum við að efla tengslin við landsbyggðina og viljum vekja athygli á að þetta er ekki lokaður klúbbur í Reykjavík. Alkóhólismann er ekki bara að finna í höfuðborginni. Þetta eru opnir fundir þar sem allir, ekki bara alkóhólistar, eru boðnir velkomnir. Við viljum líka sjá fólk sem kemur að þessum sjúkdómi í sínu starfi, heilbrigðisstéttir, kennara og lögreglu, “ segir Rúnar Freyr og lofar skemmtilegum og athyglisverðum fyrirlestrum. „Við fræðumst um alkóhólisma, hlustum á reynslusögur fólks sem hefur háð sína baráttu við sjúkdóminn og kynnumst starfssemi SÁÁ. Svo er aldrei að vita nema einhver bresti í söng eða spili á selló og píanó. Ég get allavega upplýst það að Ave Kara Tonisson píanóleikari verður okkur þarna til halds og trausts. Það hefur myndast virkilega góð stemmning á þessum fundum okkar og fólk hefur verið mjög ánægt með þetta framtak okkar.”

Málefnið varðar okkur öll

Rúnar Freyr undirstrikar að þetta sé ekki Bara fundur fyrir alkóhólista eða aðstandendur þeirra. „Það skiptir ekki máli hvort fundargestir hafa sjálfir farið í meðferð eða tekið þátt í starfi SÁÁ eða annarra samtaka áður. Það eru allir velkomnir,” segir Rúnar Freyr. „Við munum einnig hitta sveitarstjórn Fjallabyggðar og kynna það sem við gerum. SÁÁ er alltaf til staðar þegar með þarf, út um allt land.”

Rúnar Freyr bendir á að allir hafi kynnst alkóhólisma í einhverri mynd, annað hvort sem sjúklingar eða aðstandendur. „Alkóhólisminn er því miður mjög algengur sjúkdómur. Til dæmis hafa rúmlega 10% íslenskra karla eldri en 15 ára lagst inn á sjúkrahúsið Vog, hugsið ykkur það. Það þekkja þess vegna allir einhvern sem hefur orðið sjúkdómnum að bráð og alkóhólistinn hefur áhrif á allt sitt umhverfi, á maka, börn, vini og ættingja og á vinnustað. Aðstandendur hafa t.d. sagt okkur eftir fundina að þeir skilji betur hvað við er að eiga. Það er einmitt tilgangurinn, með örlítilli skemmtun í bland. Reynslan sýnir að þó útlitið sé ekki alltaf gott í augnablikinu er alltaf von. Því má aldrei gleyma.