Örvandi efni

Örvandi vímuefnaneysla (E-pilla, kókaín og amfetamín og þar með talið rítalin) er alvarlegasta vímuefnafíknin á Íslandi. Hún herjar mest á fólk milli 20 og 30 ára. Meira en helmingur fíklanna fer að sprauta efnunum í æð með öllum þeim kvillum sem því fylgir. Þessi fíkn vex stöðugt, bæði kókaín og amfetamínfíkn. Á fyrsta kreppuári 2009 verður nokkur breyting á neyslunni því fíklarnir virðast nota kókaín og e-pillu miklu sjaldnar en fíklarnir bæta sér það upp með því að sækja með vaxandi þunga í rítalín. Þegar á heildina er litið heldur örvandi vímuefnaneysla sínum hlut þó að nýgreindum örvandi vímuefnafíklum fækki eitthvað 2009. Sprautufíklum sem sprauta sig reglulega með örvandi efnum í æð heldur enn áfram að fjölga á sjúkrahúsinu Vogi. Meira og meira af örvandi ávanalyfjum (ritalín og amfetamín ) virðist komast inn á ólöglega vímuefnamarkaðinn og gengur þar kaupum og sölum.

Nýju tilfellin af örvandi vímuefnaneyslu eru tæplega 300 á ári síðustu árin en urðu flest 320 árið 2006. Þó að fíklunum fækki ekki marktækt í heild fækkar nýjum örvandi vímuefnafíklum marktækt í fyrsta sinn í 8 ár árið 2009. Í heild voru tilfellin 701 eða 41% af sjúklingahópnum árið 2009. Þessi vandi herjar mest á þá ungu og 67,9% sjúklinga á aldrinum 20 til 29 greindust með hann, 73,0% kvenna og 66,3% karla.

Amfetamín

Á sjöunda áratugnum var notkun amfetamíns og skyldra efna sem ávísað var af læknum og misnotkun þessara sömu lyfja vel þekkt vandamál á Íslandi. Einnig var algengt að sjómenn sem sigldu á Þýskalandsmarkað kæmust yfir amfetamíntöflur og flyttu þær til landsins. Þessir misnotendur amfetamíns sprautuðu efninu aldrei í æð. Þessi amfetamínnotkun var nánast horfin í kringum 1980 og fáir sjúklinga sem í meðferð komu höfðu notað amfetamín eða skyld efni síðustu 6 mánuði.

Árið 1983 urðu menn varir við að ólöglegt amfetamínduft var að koma inn á vímuefnamarkaðinn á Íslandi og að æ fleiri kannabisneytendur fóru að nota þetta efni með eða í staðinn fyrir kannabisefnin. Þeir tóku efnið í nefið eða sprautuðu því í æð og urðu mjög fíknir á skömmum tíma.

Frá árinu 1984 hafa allir amfetamínfíklarnir sem koma á Sjúkrahúsið Vog verið greindir. Samkvæmt þeirri greiningu hefur neyslan verið í ákveðnu hámarki, líkt og kannabisneyslan, á árunum 1985 til 1987. Síðan dregur úr þessum vanda fram til ársins 1990. Þá fór hann aftur að aukast vegna þess að sprautufíklum fjölgaði, þó að eitthvað hafi dregið úr heildarneyslu amfetamíns árin 1993 og 1994.

Síðan varð stóraukning á vandanum 1995 með tilkomu E-pillunnar og mikilli neyslu ungs fólks á aldrinum 18-25 ára á henni og amfetamíni. Segja má að amfetamínfaraldur hafi geysað á Íslandi undanfarin ár og þó að lítillega hafi dregið úr vandanum á árunum 2001 og 2002, hlaupa þau upp fyrir 600 á ári og hafa tilfelli amfetamínfíknar aldrei verið fleiri en undanfarin 4 ár. Árið 2009 voru stórneytendur amfetamíns sem greindust á Vogi 622 amfetamínfíklar eða 38,6% sjúklinganna.

E-pillan/MDMA

E-pillan barst til Íslands árið 1995 og það er engin tilviljun að síðan þá hefur vímuefnavandi ungra Íslendinga vaxið skarpt, því E-pillan er hluti af vandanum og á sinn sess í þeirri unglingamenningu sem drífur fíkniefnaneysluna áfram.

E-pillan („Ecstasy“ eða MDMA) er efnafræðilega náskyld amfetamíni og hefur mjög áþekka verkun og amfetamín en auk þess breytir hún skynjun manna og víman af henni er því öðruvísi en amfetamínvíman. Nokkuð er síðan farið var að framleiða þetta efni fyrir ólöglega vímuefnamarkaðinn erlendis. Markhópurinn nær til fleiri en þeirra sem eru reiðubúnir að nota amfetamín. Nær allir sem leiðast út í að nota þetta efni tíu sinnum eða oftar verða í kjölfarið stórneytendur amfetamíns. Með tilkomu ecstasy á Íslandi versnaði ástandið í vímuefnamálum um allan helming því að ungt fólk virðist tilbúið að nota þetta efni þó það hafi ekki notað ólögleg vímuefni áður.

Á árinu 1994 lagði lögreglan hald á örfáar E-töflur og segja má að ekki hafi orðið vart við þessa neyslu á meðferðarstofnunum á því ári. Efnið kom hins vegar skyndilega í miklum mæli til landsins árið 1995 og á markaðinn hér, líklega mest um sumarið. Árið 1996 var ljóst að efnið var komið til að vera og 69 reglulegir neytendur helsælu greindust í sjúklingahópnum á Vogi. Á árunum 1997 og 1998, dró úr þessari neyslu og fjöldi reglulegra neytenda var lítill þó að margir hefðu notað efnið í örfá skipti. Árið 1998 höfðu 175 notað efnið, 20 greindust þá reglulegir neytendur. Síðan þá hefur E-pillufíklum á Vogi fjölgað verulega og flestir voru þeir á árinu 2003. Síðan hefur dregið úr þessari neyslu og fíklarnir voru óvenjufáir árið 2009 eða 89.

Með Ecstacy- eða E-pilluæðinu hefur ólögleg vímuefnaneysla ungs fólks og unglinga á Vesturlöndum aukist svo mjög að tala má um nýjan faraldur. Ólögleg vímuefnaneysla var þó ærin fyrir. Þó að Ecstasy sé alls ekki nýtt efni má segja að ungmenni hafi í fyrsta skipti uppgötvað efnið og það komist í tísku eftir 1990 í Vestur- Evrópu einkum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Nýjabrum er enn á efninu og það er mjög í tísku og viðhorf almennings og fræðimanna markast af því. Neytendurnir trúa ýmsum goðsögnum um efnið eins og að það sé hættulítið og saklaust vímuefni. Aðrir mála skrattann á vegginn. Það mun þó ekki líða á löngu þar til fólk sér þetta vímuefni eins og það er, einfalt efni sem hefur ákveðin eituráhrif um leið og það hefur vímuáhrif. Hætturnar eru því tvíþættar: Annars vegar er eitrunin sem orðið getur af efninu bæði bráð og langvinn og hins vegar er hætta á að efnið valdi fíkn eða verði hluti af blandaðri fíkniefnaneyslu. Vímuefnaneytendur munu eflaust skipa efninu í flokk með LSD, en aðrir munu telja efnið heldur varasamara en svo. Hvað sem þessu líður er efnið komið til að vera á vímuefnamarkaði hins vestræna heims.

Þúsundir ungra Íslendinga hafa prófað E-pillu og einungis lítill hluti þeirra eru þekktir vímuefnaneytendur eða fíklar. Efnið hefur verið notað í sambandi við skemmtanir ungs fólks og flestir unglingar byrja að nota efnið um áramót, verslunarmannahelgi eða á sérstökum tónleikum. Flestir hinna fullorðnu gera sér enga grein fyrir þeirri miklu breytingu sem orðin er og felst í því hversu unglingarnir nota oft E-pillu og önnur ólögleg vímuefni í stað áfengis þegar þeir eru að skemmta sér.

Með tilkomu E-pillu á vímuefnamarkaðinn hér hefur heilsufar vímuefnafíkla versnað og aukið hættuástand skapast hjá tilraunaneytendum ólöglegra vímuefna.

Í fyrsta lagi hefur hætta á skyndidauða og alvarlegum eitrunum af völdum vímuefna aukist. Efnið sem í E-pillu er, getur valdið eitrun eða óeðlilegum lyfjaviðbrögðum hjá næmum einstaklingum. Þekktur er dauðaskammtur efnisins líkt og hjá amfetamíni en auk þess hefur verið frá því greint í virtum læknatímaritum erlendis, að við vissar aðstæður geti helsæla valdið dauða í tiltölulega litlum skömmtum. Slíkt verður oftast við svipaðar aðstæður eða þegar neytandinn er að dansa á skemmtistað. Hann fellur þá í ómegin, stundum með krampa, og er með mjög háan líkamshita. Í kjölfarið getur einstaklingurinn ofhitnað og hjartað gefist upp eða nýrun eða hvort tveggja. Dauðsföll af völdum E-pillu eru fátíð miðað við þann mikla fjölda sem neytir efnisins, en eru samt sem áður óútreiknanleg og hörmuleg. Nú þykir sannað að yfir 100 einstaklingar hafi látist af völdum efnisins á síðustu fimm árum þó að ekkert dauðsfall hafi orðið hér á landi vegna þessa svo að vitað sé. Rétt er að geta þess hér að í Danmörku urðu fjögur slík dauðsföll sumarið 2000.

Í öðru lagi getur efnið valdið sturlun hjá heilbrigðum einstaklingum og auk þess hrint af stað alvarlegum geðsjúkdómi hjá einstaklingum sem hafa geðveilu fyrir.

Í þriðja lagi getur efnið valdið skyndilegu og svæsnu þunglyndi í neyslunni og rétt eftir hana og svipar að þessu leyti bæði til LSD og amfetamíns. Þetta getur verið mjög hættulegt þegar ungir og hömlulitlir neytendur eiga í hlut og hefur stuðlað að sjálfsvígum. Ekki er óalgengt hér að ungmenni í ólöglegri vímuefnaneyslu svipti sig lífi.

Í fjórða lagi þykir sannað að efnið getur valdið heilaskemmdum, bæði við tiltölulega litla notkun og reglulega neyslu. Skemmdirnar koma þá fram sem persónuleikabreytingar sem einkennast af varanlegu óöryggi, þunglyndi eða kvíða. Menn hafa einnig sýnt fram á vitsmunaskerðingu sem kemur fram sem truflun á minni og einbeitingu. Vísindamenn hafa líka haft af því vaxandi áhyggjur að nýjar rannsóknir á amfetamíni og skyldum efni og þá um leið Ecstasy, virðast benda til þess að slík efni geti valdið meiri heilaskemmdum við langvarandi notkun en talið var áður. Vaxandi fjöldi reglulegra e-pillu neytenda er því sérstakt áhyggjuefni og tala um 150 stórneytenda Epillu sem allir eru undir 30 ára aldri, sker í augun.

Kókaín

Allt frá því að kókaínfaraldurinn mikli braust út í Bandaríkjunum um 1980 hefur starfsfólk SÁÁ átt von á því að stórneytendur efnisins færu að leita sér meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi. Stutt er héðan til New York, kókaínborgarinnar miklu. Biðin var löng en nú er hún á enda. Sem betur fer bíðum við þó ennþá eftir heróíninu sem grasserar í Kaupmannahöfn.

Kókaínneysla hefur aldrei náð sér á strik í Evrópu eins og í Bandaríkjunum. Þó að tollverðir í Evrópu hafi orðið varir við efnin og lagt hald á það hafa tölur frá meðferðarstofnununum í Evrópu aldrei líkst þeim bandarísku. Nú kann þetta að vera að breytast.

Kókaínvandinn kemur til okkar með öðrum hætti en þegar hann birtist í Bandaríkjunum. Þar byrjaði vandinn meðal þeirra sem voru efnameiri og dreifðist til allra, líka þeirra allra fátækustu og þá sem krakkvandamál. Hér á landi birtist vandinn eins og annars staðar í Evrópu, sem vandi hinna ungu og þeirra sem þegar eru ánetjaðir öðrum ólöglegum vímuefnum eins og kannabis og amfetamíni. Í lok ársins 2000 hefur þó borið á nær „hreinum“ kókaínfíklum þ.e.a.s. ungu fólki sem hefur ekki ánetjast öðrum vímuefnum þó að það hafi haft kynni af þeim, en fellur svo kylliflatt fyrir kókaíninu.

Kókaínfíklar voru 10-20 á ári á sjúkrahúsinu Vogi frá 1984 fram til ársins 1998. Árið 1998 urðu tilfellin 40 og 1999 voru þau 75 og þá er ljóst að amfetamínneytendurnir nota kókaín í vaxandi mæli og sífellt fleiri hafa sprautað kókaín í æð. Síðan hefur vandinn stöðugt vaxið og árið 2008 nær ákveðnu hámarki og tilfellin urðu 338. Það dregur verulega úr kókaínvandanum á fyrsta ári kreppunnar 2009 og þá eru tilfellin 281, 129 þeirra voru daglegir neytendur kókaíns og 101 hafði sprautað efninu í æð. Nýju kókaíntilfellin voru 144. Meðalaldur allra kókaínfíklana sem komu á Vog 2009, var rúm 27 ár.

Kókaín er hættulegt vímuefni sem örvar heilann. Það hrindir burt hungri, þreytu og syfju. Setur menn í vímu, hressir þá upp og gerir þá hugrakka og sjálfsörugga. Efnið hefur verið unnið úr blöðum kókarunnans í Suður-Ameríku frá 1880. Vinnslan á kókaíni er talsvert flókin en það kemur venjulega sem hvítt kristallað duft, kókaínhydróklóríð, á vímuefnamarkaðinn á Vesturlöndum. Áður en það er sett á göturnar til sölu er það blandað með mjólkursykri eða þrúgusykri til að auka þyngdina. Auk þessa er stundum blandað í kókaínið örvandi efnum eins og staðdeyfilyfinu lidokaíni, koffeini, amfetamíni eða skyldum efnum til að drýgja það. Krakk er ákveðin gerð af kókaíni sem hægt er að reykja.

Í kókaínfíkn skeður allt hratt. Fíknin þróast á vikum eða mánuðum meðan ár eru notuð til að mæla tímann sem það tekur að þróa aðra fíknir. Kókaínfíkn leiðir af sér mjög mörg líkamleg og geðræn vandamál fyrir neytandann og þjóðfélagið líður vegna fylgifiska neyslunnar sem eru ofbeldi, afbrot og önnur félagsleg vandamál.