Ráðherra stígi fram

Eins og frægt er að endemum hefur forstjóri Sjúkratrygginga Íslands staðið í langvarandi deilum við Landspítala háskólasjúkrahús, um efndir á samningi sem hann samdi sjálfur um rekstur sjúkrahótels í Reykjavík.

Eftir 5 ára þras og þrætur forstjórans við Landspítalann, tók Ríkisendurskoðun það upp hjá sjálfri sér að gefa út skýrslu um framkvæmd samninga Sjúkratrygginga við ríkið. Skýrslan er áfellisdómur um vinnubrögð forstjórans auk þess sem heilbrigðisráðuneytið fær skammir fyrir að hafa ekki stigið inn í þessi erfiðu samskipti. Höggva hefði þurft á þennan hnút fyrir löngu síðan.

Á sama hátt hefur forstjóri Sjúkratrygginga Íslands staðið í langvarandi þrasi og þrætum við SÁÁ, um efndir á samningi sem hann samdi sjálfur um þjónustu göngudeildar SÁÁ. SÁÁ hefur nú stefnt ríkinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur vegna vanefnda Sjúkratrygginga Íslands á þessum samningi sem gerður var í desember 2012. Það er heilbrigðisráðherra sem er stefnt og ríkislögmaður er til varna fyrir ráðherrann.

Nú þegar þessar deilur hafa ratað í fjölmiðla, er það er hins vegar Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, sem svarar fyrir ráðherra og segir það dómstóla að skera úr um ólíka túlkun SÁÁ og SÍ á þjónustusamningi ríkisins og samtakanna. Af framgöngu forstjóra Sjúkratrygginga Íslands mætti ætla að hann væri starfandi yfirmaður heilbrigðisráðherra og með vald til að taka fram fyrir hendur fjárveitingavaldsins og Alþingis.

Hann hefur sagt upp samningi sem hann samdi sjálfur og í framhaldinu látið ráðherra staðfesta reglugerð sem er alveg eins og hinn ógildi samningur og segir að með þessu bragði hafi hann tryggt þjónustuna áfram.

Svona refsháttur og klækjabrögð forstjóra Sjúkratrygginga Íslands eru ósæmandi og ég hlýt sem formaður stórra almannaheillasamtaka að óska eftir því að heilbrigðisráðherra stigi inn í þessi erfiðu samskipti með því valdi sem hann hefur.

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, skrifar