Ráðstefna SÁÁ um fíkn vel sótt

Afmælisráðstefna SÁÁ um fíkn, sem haldin var á Hilton Reykjavík Nordica dagana 2.-4. október síðastliðinn, tókst afar vel. Ráðstefnan stóð yfir í þrjá daga og voru gestir rúmlega 350 frá tíu löndum, flestir frá Íslandi og Bandaríkjunum. Alls voru fluttir 40 fyrirlestrar, haldin voru fjögur málþing og boðið upp á fjórar málstofur.

Mikil ánægja var með málþingin fjögur um fíkn sem tileinkuð voru íslenskum veruleika og sköpuðust fjörugar umræður milli ráðstefnugesta og þeirra stjórnmálamanna og fulltrúa stofnana sem sátu þingin. Á vísindalegum hluta ráðstefnunnar var einnig farið um víðan völl þar sem margir af áhrifamestu læknum og sérfræðingum á sviði fíknlækninga og erfðafræði í heiminum í dag gerðu grein fyrir rannsóknum og þekkingu á þessu sviði. Sérstakur gestur SÁÁ og aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var dr. Nora Volkow, forstjóri NIDA. Dr. Volkow fjallaði ítarlega um fíkn sem heilasjúkdóm og flutti áhugavert erindi um kannabis þar sem hún spurði hvort vísindin gætu leiðbeint stjórnmálamönnum við opinbera stefnumótun. Kári Stefánsson fór yfir tengsl fíknar og erfða, Valgerður Rúnarsdóttir fjallaði um ópíóðafíkna á Íslandi, Jeffrey Goldsmith fjallaði um meðferð áfengis- og vímuefnasjúklingsins og áfram mætti lengi telja.

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, segir afar mikilvægt að leikir og lærðir komi saman til að ræða ráðgátuna um fíkn. „Neysla löglegra og ólöglegra vímuefna hefur gríðarleg áhrif á heilbrigðiskerfið og snertir flestar fjölskyldur og stofnanir samfélagsins. Þá er ótalin hin þjóðhagslega byrði sem verður vegna tapaðra vinnustunda, minni framleiðni og lakari afkomu fyrirtækja. Það er því mikils virði að leikir og lærðir eigi samtal um þennan vanda. Nú þegar ráðstefnunni er lokið er það einmitt samtalið sjálft, áhuginn og samvinnan sem situr eftir – og það gefur okkur hjá SÁÁ svo sannarlega gott veganesti inn í framtíðina.“

Ráðstefnan var öll tekin upp og verða upptökur og viðtöl við fyrirlesara birt á vef SÁÁ á næstu dögum.

Vefur ráðstefnunnar >

Myndir sem ljósmyndarinn Spessi tók á ráðstefnunni: