Ráðstefna um fíkn sem á erindi til allra – fyrirlestrar, málþing, samtal

Almenningur og fagfólk hefur kallað eftir samtali við SÁÁ um fíknsjúkdóminn og framtíðarstefnu meðferðarstarfs á Íslandi. Slíkt tækifæri gefst dagana 2.-4. október á afmælisráðstefnu SÁÁ á Hilton Reykjavik Nordica. Heilbrigðisráðherra, borgarstjóri, heimskunnir sérfræðingar, forystufólk úr stjórnmálum og fulltrúar ýmissa stofnana verða þar á meðal gesta. Sérstakur gestur SÁÁ verður dr. Nora Volkow, forstjóri bandarísku stofnunarinnar National Institute on Drug Abuse (NIDA).

Skráning er hafin á vef ráðstefnunnar og þar er einnig að finna nánari dagskrá og upplýsingar um fyrirlesara: https://40ara.saa.is

2. okt.: Fjögur málþing um fíkn og afbrot – stofnanir – konur – pólitík
Mánudagurinn 2. október verður tileinkaður íslenskum veruleika og fjallar um fíkn og áhrif hennar á samfélagið. Þá verða á dagskrá fjölbreytt málþing sem gefa ráðstefnugestum tækifæri á að eiga samtal við landskunna sérfræðinga, stjórnmálamenn og fulltrúa ýmissa stofnana um þennan flókna heilbrigðis- og félagslega vanda. Meðal þátttakenda eru Katrín Jakobsdóttir, alþingismaður, Helgi Gunnlaugsson, prófessor HÍ, Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

3.-4. okt.: Vísindaleg umfjöllun og málstofur
Vísindalegur hluti ráðstefnunnar verður dagana 3. og 4. október. Þá koma hingað margir af áhrifamestu læknum og sérfræðingum á sviði fíknlækninga og erfðafræði í heiminum í dag og gera grein fyrir rannsóknum og þekkingu á þessu sviði. Auk fyrirlestra verður boðið upp á málstofur sem fjalla m.a. um kannabis, fíkn og erfðir, menntun fagfólks og tengsl fíknar við sjúkdóma á borð við HIV og lifrarbólgu C.