Róandi ávanalyf

Inngangur

Þó að hér verði einungis fjallað um róandi ávanalyf lyf er rétt að byrja á því að rifja upp að venja er að flokka lyf sem verka á miðtaugakerfi eða heila í tvo megin flokka það er að segja : Örvandi lyf og Slævandi lyf (róandi lyf). Síðan er venja að skipta róandi eða slævandi lyfjum í fjóra undirflokka:

  • Róandi ávanalyf: Dæmi um slík lyf eru fenemal og diazepam. Þessi lyf hafa róandi og kvíðastillandi verkun í litlum skömmtum en krampastillandi verkun og valda svefni séu þau notuð í stærri skömmtum.
  • Svæfingalyf: Svæfingarlæknar einir nota þessi lyf á sjúklinga sína oftast á skurðstofum.
  • Ópíumefni eða sterk verkjadeyfandi lyf: Dæmi um slík lyf eru morfín og heróín.
  • Sefandi geðlyf: Dæmi um slík lyf eru klórprómazín ( largactil ) og trílafon.

Róandi ávanalyf eru mikið notuð í okkar heimshluta til lækninga. Þau hafa fyrst og fremst verið notuð til að lækna kvíða og svefnleysi. Ávanahætta er talsverð þegar þessi lyf eru notuð og allt of margir verða fíknir í þessi lyf. Því eru þau nefnd róandi ávanalyf hér til að aðgreina þau frá öðrum róandi lyfjum sem ekki virka á sama hátt og hafa ekki sömu ávanahættu. Dæmi um slík lyf eru sefandi geðlyf sem stundum eru notuð við kvíða og svefnleysi.

Í daglegu tali ganga róandi ávanalyfin undir ýmsum nöfnum sem vísa til þess að þau eru notuð við svefnleysi og kvíða og kölluð róandi lyf, svefnlyf eða kvíðastillandi lyf. Læknar hafa skipst dálítið í tvo hópa í viðhorfum sínum til þessara lyfja. Sumir læknar sem annast vímuefnafíkla telja lyfin hafa lítinn lækningamátt og séu að mestu til bölvunar. Þeir sjá líka slæmu afleiðingarnar af notkun þessara lyfja í sjúklingum sínum. Aðrir læknar telja þetta hin bestu lyf og hafa þá fyrir sér sjúklinga sem bera lyfjunum góða sögu og líkar þau vel. Sama má reyndar segja um afstöðu lækna til áfengis.

Þrjár meginleiðir eru til þess að verða háður róandi ávanalyfjum. Ein þeirra er að gæta ekki að ávanahættu þessara lyfja þegar þau eru notuð við kvíða eða svefnleysi. Önnur leið er að nota lyfin endurtekið til að komast í vímu af þeim með eða án annarra vímuefna. Þriðja leiðin er að nota þessi lyf til að slá á fráhvörf vegna annarra vímuefna.

Langvarandi notkun róandi lyfja við svefnleysi eða kvíða veldur oft vandræðum því að svefnleysi og kvíði eru alltaf einkenni um sjúkdóm eða þörf fyrir breytt líferni. Lyfin lækna hvorugt en geta skapað nýjan vanda þegar fram í sækir. Einstaklingurinn myndar þol gegn lyfinu eftir nokkrar vikur og kvíðinn eða svefnleysið lætur á sér kræla að nýju þrátt fyrir að lyfin séu notuð daglega. Hætti sjúklingurinn að taka lyfin við þessar aðstæður magnast kvíðinn og svefnleysið og verður verra en þegar hann byrjaði að taka lyfin. Hann hefur þá keypt lækninguna dýru verði og er ver staddur og meira hamlaður en þegar hann byrjaði að taka lyfið í góðri trú. Hætta er á að sjúklingurinn sé orðin háður lyfjunum og auki við skammtana. Á þessu stigi er erfitt að tala um að fólk misnoti lyfin þó að það sé orðið háð þeim. Það notar ekki þessi lyf með þeim ásetningi að fara í vímu og hefur ekki af neyslunni sjáanlegan félagslegan vanda. Réttara er því að segja að lyfið sé notað rangt og margir sem það gera þurfa meðferð. Langvarandi notkun með þessum hætti býður heim frekari hættu og leiðir oft af sér vaxandi þunglyndi og kvíða þrátt fyrir töku lyfjanna. Þegar svo er komið er stórhætta á að sjúklingar auki lyfjaskammtinn enn frekar í örvæntingu og fari að nota lyfin til að komast í vímu og félagslegur vandi fylgi þá í kjölfarið. Frá þessu ástandi er stutt í að sjúklingar fara að ganga á milli lækna og róandi ávanalyfjafíkn verði þeirra aðalvandi.

Önnur dæmigerð notkun þessara lyfja er þegar ungmenni eða áfengissjúklingar taka þau beinlínis til að komast í vímu með eða án annarra vímuefna. Þriðja dæmið um misnotkun er síðan þegar lyfin eru notuð við fráhvarfseinkennum eftir áfengisneyslu eða til að hamla gegn óæskilegum einkennum örvandi vímuefna. Þannig eru þessi lyf oft tekin með amfetamíni eða til að laga áfengisfráhvörf.

Lyfin sem nú eru notuð við kvíða eða svefnleysi eru nær öll úr benzodiazepin lyfjaflokknum eða náskyld þeim. Þau lyf komu á markaðinn á sjötta ártugi þessarar aldar. Fyrir þann tíma eða á fyrri helmingi aldarinnar voru barbítúrsýrulyf alsráðandi og lyf sem höfðu áþekka verkun. Fjallað verður fyrst um þau lyf sem notuð voru við kvíða og svefnleysi fyrir 1960. Þetta gerum við fyrst og fremst til að halda sögulegu samhengi því flest þessara lyfja eru nú ekki lengur á lyfjaskrá á Íslandi og því ófáanleg. En þau róandi ávanalyf sem skipta okkur mestu máli í dag eru benzodiazepin og skyld lyf.

Pages: 1 2