Róandi ávanalyf

Barbitúrsýrulyf og lyf með svipaða verkun

Lyf sem notuð voru við svefnleysi og kvíða fyrir daga barbítúrsýrulyfjana voru helst þessi: Etanól, brómsölt, chloral hydrate og paraldehyd ásamt ópíumefnum.

Áfengi eða etanól er dæmigert róandi ávanalyf en vegna þess hvernig við notum það og hversu samofið það er menningu okkar gleymum við oftast að líta á það sem lyf. Í raun er alkóhól ekkert annað en öflugt og hættulegt róandi ávanalyf sem við höfum gefið okkur leyfi til að nota frjálslega og án læknisfræðilegra forsenda. Flestir líta svo á að sjálfsagt sé að nota etanól til skemmtunar og gleði og það bæti oft og liðki fyrir mannlegum samskiptum. Ef etanól væri í dag nýuppfundið lyf mundi lyfjanefnd eflaust ekki leyfa notkun þess þar sem aukaverkanir og hættur þættu of miklar.

Um þúsundir ára var áfengi eina lyfið sem menn þekktu og gat slegið á kvíða og hjálpað mönnum að sofna. Flestir vita þó að sem slíkt er áfengi ekki gott lyf það var því eðlilegt að menn leituðu að lyfi til að leysa það af hólmi.

Árið 1870 kom chloral hydrate á markaðinn og var kynnt sem svefnlyf. Rannsókn höfðu sýnt að efnið frásogaðist fljótt frá meltingarveginum og að 1-2 gramma skammtur varð til þess að hinn venjulegi maður sofnaði eftir minna en eina klukkustund. Verkunin hélst í 8 til 11 klukkustundir og þar sem að flestir sofa 8 klukkustundir í einu var það kjörið svefnlyf. Gallar voru þó á gjöf Njarðar því að snemma gerðu aukaverkanir vart við sig. Það var ertandi fyrir magann og skemmdi slímhúð hans ef lyfið var notað stöðugt og lengi. Hætta á ávanamyndun kom snemma fram því að fráhvörf þegar hætt var að nota lyfið eftir langvarandi notkun gátu verið lífshættuleg vegna krampa.

Chloral hydrate umbreytist í líkamanum í trichloretanól og það er þetta niðurbrotsefni sem ber ábyrgð á róandi verkun lyfsins. Þrátt fyrir aukaverkanirnar sem áður er lýst hélt lyfið lengi velli og var notað fram á síðasta áratug sem svefnlyf. Stutt er því síðan alkóhólistar og aðrir vímuefnafíklar misnotuðu chloral hydrad hér á Íslandi. Nú er þetta lyf sem bæði var til í mixtúru og töflum( Mechloral) komið af lyfjaskrá hér.

Árið 1882 var Paraldehyde fyrst notaða sem svefnlyf þó að það hafi verið til sem hreint efni allar götur frá 1829. Helstu kostir þess eru að það hefur lítil áhrif á hjarta og æðakerfi og á öndunina. Ókostirnir voru vont bragð og lykt og hversu það var ertandi fyrir slímhúðina í munni og koki. Blanda þurfti það vel með vatni fyrir inntöku. Hluti af efninu skildist óbreytt út með öndunarloftinu og skapaði hvimleiða andremmu sem fólki líkaði illa við. Með tilkomu barbítúrsýrulyfjanna datt notkun paraldehyds að mestu upp fyrir.

Farið var að nota brómsölt við svefnleysi upp úr miðri nítjándu öld. Þau fengust án lyfseðla langt fram á tuttugust öld. Þó að bróm gæti fengið menn til að sofna komust læknar fljótt að því að efnið hafði tilhneigingu til að safnast upp í líkamanum við stöðuga notkun. Talsverð ávanahætta var af brómi og það olli þunglyndi við stöðuga notkun. Þunglyndið gat jafnvel komið fram eftir nokkra daga notkun.

Benzodiazepinlyf og barbitursýrulyf eru á bannlista vímuefnafíkla

Róandi ávanalyf geta komið fíkn af stað hjá alkóhólistum og öðrum vímuefnafíklum. Skiptir þá engu þó að viðkomandi hafi aldrei notað slík lyf áður. Eftir meðferð þurfa vímuefnafíklar að gæta þess að nota ekki róandi ávanalyf nema brýna nauðsyn beri til. Meginreglan er að nota alls ekki þessi lyf við svefnleysi eða kvíða. Þær aðstæður geta komið upp að vímuefanafíklar þurfi að nota þessi lyf vegna svæfinga og aðgerða. Þeir eru þá í meiri hættu en áður um tíma að hefja neyslu að nýju. Þetta ber öllum að hafa í huga.

Pages: 1 2