Róttækni ráðherrans

SÁÁ er einkarekin heilbrigðisþjónusta með þjónustusamninga við hið opinbera. Engin arður er greiddur út til eigenda félagsins heldur er fjármunum safnað stöðugt til að bæta og efla þjónustuna. Þannig hefur það verið í bráðum 40 ár.
Frá árinu 1996 hefur SÁÁ lagt til þessarar heilbrigðisþjónustu um þrjú þúsund milljónir króna af sjálfsaflafé sínu. Allt húsnæði undir starfsemina er eign SÁÁ, byggt eða keypt fyrir söfnunarfé án aðkomu hins opinbera. Aldrei hefur þurft að bæta upp taprekstur með fjárveitingum af aukafjárlögum enda gengst SÁÁ í ábyrgð fyrir rekstrinum í heild sinni.
Í Von, húsi SÁÁ við Efstaleiti 7 í Reykjavík, rekur SÁÁ heilsugæslu fyrir áfengis- og vímuefnasjúka og fjölskyldur þeirra, börn þeirra og aðstandendur. SÁÁ hefur rekið slíka heilsugæslu í áratugi, fyrst í samstarfi við Reykjavíkurborg og síðan sem sjálfstæður aðili. SÁÁ rekur einnig svipaða heilusgæslu á Akureyri sem er þó mun smærri í sniðum og hefur gert það í meira en 20 ár.

Það er sérkennileg tilfinning fyrir SÁÁ fólk að fylgjast með heilbrigðisráðherra í fjölmiðlum í dag, tilkynna um róttækar breytingar á heilsugæslunni, breytingar sem eru eins og snýttar út úr annarri nösinni á SÁÁ, svo líkar eru þær rekstrarfyrirkomulagi heilsugæslu SÁÁ. Tilfinningin er ekki síður sérstök vegna þess að formaður SÁÁ hefur neyðst til að stefna heilbrigðisráðherra vegna vanefnda hans á þjónustusamningi um nákvæmlega þetta sama rekstrarfyrirkomuleg.

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort verðandi rekstraðilar í nýju róttæku heilusgæslunni sem ráðherra kynnir nú stoltur, þurfi sjálfir að byggja yfir starfsemina og stefna síðan ráðherra til greiðslu á umsömdum þjónustusamningum.