SÁÁ er tilbúið með úrræði við Vík

SÁÁ hefur lengi reynt að fá stjórnvöld til samstarfs um langtímameðferðarúrræði fyrir þá endurkomusjúklinga sem þurfa meiri þjónustu að lokinni afeitrun en hægt er að veita með núverandi meðferð.

Til er samþykkt deiliskipulag fyrir sérhannað búsetuúrræði með einstaklingsíbúðum fyrir fólk úr þessum hópi sem SÁÁ vill byggja á landi sínu við Vík á Kjalarnesi, takist samstarf við ríki og sveitarfélög um rekstur. SÁÁ lauk við skipulagsvinnu og fjármögnun fyrir sitt leyti á árinu 2008 og var málið þá komið á það stig að hægt hefði verið að hefja framkvæmdir með skömmum fyrirvara. Af því varð ekki vegna áhugaleysis ráðuneytis og sveitarfélaga á því að taka þátt í rekstri slíks úrræðis.

Um 200 þurfa sérstakt úrræði

Nokkur umræða hefur verið í þjóðfélaginu um þennan hóp áfengissjúklinga síðustu daga eftir grein sem Grímur Atlason skrifaði um aðstæður og sjúkrasögu föður síns. Hann er langt genginn alkóhólisti um sjötugt og er tíður gestur á bráða- og legudeildum sjúkrahúsa vegna afleiðinga stöðugrar drykkju.

Eftir skammtímadvöl á sjúkrahúsum er hann jafnan útskrifaður án þess að nokkurt úrræði sé til staðar í kerfinu sem getur veitt honum og öðrum í sömu stöðu þá þjónustu sem nauðsynleg er til að hann geti lifað við boðlegar aðstæður.

Líklega er það um 200 manna hópur, sem svona er ástatt um. Þetta er oft roskið fólk, sem á fjölmargar meðferðir að baki. Það býr við lélega líkamlega og andlega heilsu, erfiða félagslega stöðu og litla félagslega færni.

Þótt núverandi meðferð á Vogi henti flestum sem þangað koma er hún of krefjandi fyrir þennan hóp. Hann þarf sérstök úrræði sem ekki eru í boði en sem eðlilegt er að SÁÁ veiti. Samtökin hafa lagt í mikið starf til þess að undirbúa sérstakt úrræði fyrir fólk í þessari stöðu en undirtektir hafa hingað til verið engar.

SÁÁ hóf undirbúning árið 2003

Á árinu 2003 skrifaði SÁÁ heilbrigðisráðuneytinu fyrst bréf þar sem vakin var athygli á óviðunandi stöðu í þessum málum og óskað var eftir stuðningi ráðuneytisins við sérstaka langtímameðferð fyrir konur og karla úr hópi endurkomusjúklinga. Ráðuneytið svaraði ekki erindinu en samtökin héldu áfram að vinna í málinu.

SÁÁ lét ASK arkitekta gera deiliskipulag og hanna íbúðir fyrir einstaklinga við meðferðarstofnunina Vík á Kjalarnesi sem stendur á eignarlandi SÁÁ með samþykktum byggingarrétti. Hugmyndin er að reka þar heimili með langtímastuðningi þar sem í boði yrði nauðsynleg heilbrigðisþjónusta og félagsleg þjónusta þannig að þessi sjúklingahópur gæti búið við þær mannsæmandi aðstæður sem eru forsenda fyrir því að langt gengnir alkóhólistar geti náð langtímaedrúmennsku.

Skipulag til frá árinu 2008

Deiliskipulagsuppdráttur lá fyrir í ágúst 2007 og frumteikningar arkitekts að alls 36 íbúðum ásamt byggignum með sameiginlegu rými lágu fyrir í september 2008. Gert var ráð fyrir að framkvæmdir yrðu í tveimur áföngum og að 18 íbúðir yrðu byggðar í hvorum áfanga. Hver íbúð er rúmir 30 fermetrar, auk sameignar.

Fjármögnun tryggð en ríki og borg þurfa að koma að rekstrinum

Unnið var að fjármögnun verkefnisins og lá fyrir vilyrði frá Íbúðalánasjóði um lánveitingar á sömu kjörum og veitt eru til byggingar á félagslegu leiguhúsnæði. SÁÁ hafði gert áætlanir um hvernig staðið yrði að nauðsynlegri eiginfjármögnun við framkvæmdina og var ekkert að vanbúnaði að halda áfram með verkefnið.

Eðli málsins samkvæmt var nauðsynlegt að ná samkomulagi við heilbrigðisráðuneytið og Reykjavík um þá heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu sem veita þyrfti íbúum.

Hugmyndin var sú að um félagslegt búsetuúrræði yrði að ræða og að borgin styddi íbúa vegna húsnæðiskostnaðar með sambærilegum hætti og í öðru slíku húsnæði. Einnig var gert ráð fyrir öðrum félagslegum stuðningi sem sveitarfélögum ber að veita.

Þá þurfti að semja um þá þjónustu sem heilbrigðisstarfsfólk SÁÁ, þ.e.a.s. læknar sem starfa hjá samtökunum, hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsólk mundi veita íbúum með reglulegum hætti. Ekki reyndist áhugi hjá hinu opinbera á að ræða þessi mál við SÁÁ. Umleitanir samtakanna varðandi þetta mál hafa engar unditektir hlotið, hvorki hjá ríkisvaldinu né Reykjavíkurborg.

Eins og fyrr sagði hefur SÁÁ hins vegar lagt í vinnu við að greina þarfir þessa hóps og hvernig þeim verði best sinnt. SÁá teljur sig öðrum fremur til þess fallin að annast þjónustu við þennan hóp og eru samtökin sem fyrr tilbúin til viðræðna við stjórnvöld um það mál.

Boltinn er hjá heilbrigðisráðuneytinu og Reykjavíkurborg

Það liggur nú þegar fyrir góð reynsla af sérstökum meðferðarúrræðum fyrir ákveðna hópa áfengis- og vímuefnasjúklinga. Þar er um að ræða þá viðhaldsmeðferð sprautufíkla sem veitt hefur verið á Vogi undanfarin ár. Hluti þeirra um 100 sjúklinga sem eru í viðhaldsmeðferð eru til heimilis í Vin, sérstöku búsetuúrræði sem SÁÁ rekur fyrir þennan hópi í samstarfi við Reykjavíkurborg.

Viðhaldsmeðferðin er fólgin í reglulegri lyfjagjöf. Ríkið greiðir SÁÁ fyrir sérhæfða heilbrigðisþjónustu en Reykjavíkurborg greiðir kostnað vegna félagslegs húsnæðis og velferðarþjónustu fyrir íbúa. Ríkið hefur hins vegar ekki fallist á að greiða lyfjakostnað vegna viðhaldsmeðferðarinnar. SÁÁ hefur tekið að sér að greiða lyfjakostnaðinn með sínu sjálfsaflafé og nemur sá kostnaður samtakanna vegna þess um 30 milljónum króna á ári.

Það er enginn vafi á því að líkt og gert var með viðhaldsmeðferð sprautufíkla á sínum tíma er löngu tímabært að þróa sérstakt meðferðarúrræði til þess að halda utan um þann hluta langtgenginna alkóhólista úr hópi endurkomusjúklinga á Vogi sem býr við versta heilsu og erfiðustu félagslegu aðstæðurnar.

Slíku úrræði þarf að koma á fót til þess að koma í veg fyrir að aftur og aftur þurfi að útskrifa þessa einstaklinga úr meðferð eða af öðrum sjúkrastofnunum inn í vonlitlar félagslegar aðstæður þar sem þeir njóta ekki nauðsynlegs stuðnings og þjónustu og eiga þess vegna litla eða enga möguleika á að framlengja sinn edrútíma sem neinu nemur að lokinni afeitrun og/eða venjulegri meðferð.

SÁÁ er tilbúið í þetta verkefni og er ekkert að vanbúnaði að hefjast handa því nauðsynleg undirbúningsvinna liggur fyrir.

Hægt verður að hrinda verkefninu í framkvæmd á skömmum tíma ef heilbrigðisráðuneytið og Reykjavíkurborg hafa vilja til að sinna þörfum þessa hóps sjúklinga og veita honum nauðsynlega heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Hér að neðan eru pdf-skjöl með uppdráttum af 1. herbergi í nýju búsetuúrræði, 2. grunnmynd af búsetuúrræðu, 3. skipulagsuppdrætti. Þessi gögn hafa legið fyrir árum saman á skrifstofum skipulagsyfirvalda.

Herbergi Vik

Grunnmynd Vik

https://saa.is/wp-content/uploads/2015/04/uppdrattur-vik.pdf

Höfundur greinar