SÁÁ heimsótti Mannréttindaráð Reykjavíkur

Fulltrúar SÁÁ heimsóttu Mannréttindaráð Reykjavíkur í ráðhúsinu í dag, kynntu starfsemi og rekstur samtakanna og svöruðu spurningum kjörinna fulltrúa borgarbúa sem eiga sæti í ráðinu.

Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, kynnti alla þætti starfsemi SÁÁ og þá læknisfræðilegu nálgun sem SÁÁ beitir á sjúkdóm áfengis- og vímuefnafíknar. Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs SÁÁ, og Ása Margrét Sigurjónsdóttir, sálfræðingur sem sér um Sálfræðiþjónustu barna hjá SÁÁ, sátu einnig fundinn og svöruðu fyrirspurnum.

„Þetta var jákvæður og góður fundur og kærkomið tækifæri til að hitta kjörna fulltrúa og kynnast starfsemi stofnana borgarinnar. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að segja frá starfsemi okkar enda erum við mjög stolt af því sem við erum að gera og ánægð með þann árangur sem við höfum náð,“ sagði Ásgerður Th. Björnsdóttir, að fundinum loknum.