Valmynd
english

SÁÁ í hnotskurn

 • SÁÁ var stofnað á fjölmennum borgarafundi í Háskólabíói 1. október 1977. Fyrstu meðferðarstöðvarnar voru í  gömlum og illa förnum byggingum í jaðri höfuðborgarsvæðisins sem samtökin fengu til afnota.
 • ­SÁÁ hefur jafnt og þétt byggt upp sérhannaðar fasteignir fyrir starfsemi sína með stuðningi einstaklinga og  fyrirtækja. Sú uppbygging er öll ríki og sveitarfélögum að kostnaðarlausu.
 • Árangur í starfi og ábyrg meðferð fjármuna hefur einkennt starf og rekstur SÁÁ í 40 ár.
 • Við heilbrigðisþjónustu meðferðarsviðs SÁÁ  eru fastráðnir fjórir til fimm læknar, níu hjúkrunarfræðingar, níu sjúkraliðar, fjórir sálfræðingar og um fjörutíu ráðgjafar.
 • Sjúkrahúsið Vogur var byggt og tekið í notkun 1983. Á hverju ári leggjast um 1.600 einstaklingar inn á sjúkrahúsið til afeitrunar og meðferðar.
 • Vík á Kjalarnesi var byggð árið 1991 með framlögum einstaklinga og fyrirtækja. Þar hefur verið sérstök kvennameðferð frá 1995.
 • Staðarfell er gamall húsmæðraskóli í eigu ríkisins þar sem SÁÁ hefur rekið meðferðarstöð frá 1980. Samtökin hafa kostað endurbætur og viðhald hússins með stuðningi velunnara.
 • Bygging unglingadeildar við Sjúkrahúsið Vog var liður í þjóðarátaki til að bregðast við vaxandi vímuefnaneyslu unglinga. Hún var tekin í notkun árið 2000.
 • Skrifstofur og göngudeild SÁÁ í Reykjavík eru í Efstaleiti 7. Húsið er 1500 fermetrar og var byggt árið 2006 fyrir söfnunarfé, ríki og sveitarfélögum að kostnaðarlausu.
 • 2008 fluttist göngudeild SÁÁ á Akureyri í húsnæði sem samtökin festu kaup á fyrir söfnunarfé í Hofsbót í miðbæ Akureyrar.
 • Sérstök álma fyrir bráðadeild var byggð við Sjúkrahúsið Vog fyrir söfnunarfé og tekin í notkun sumarið 2014. Vogur er núna um 3800 fermetrar að stærð.
 • Í tilefni af 40 ára afmæli samtakanna eru velunnarar SÁÁ að safna fé til að byggja nýja og fullkomna meðferðarstöð á landi samtakanna á Vík á Kjalarnesi. Eldra húsnæði verður endurnýjað og að framkvæmdum loknum verða þar 3600 fermetra byggingar.
 • 7,6% allra núlifandi Íslendinga, 15 ára og eldri, höfðu farið í meðferð til SÁÁ í lok ársins 2015, 10,6% karla en 4,5% kvenna.
 • 24.500 einstaklingar hafa komið í meðferð til SÁÁ. Sagan um að alltaf sé sama fólkið á Vogi á því augljóslega ekki við rök að styðjast.
 • Frá upphafi hafa verið langir biðlistar eftir þjónustu SÁÁ. Í dag eru að jafnaði um 350 einstaklingar á biðlista eftir innlögn á Vog.