SÁÁ – íslenska leiðin

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, skrifar:

Sú leið sem farin hefur verið í heilbrigðisþjónustu við áfengis- og vímuefnasjúklinga hér á landi er nokkuð frábrugðin því sem tíðkast í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Þetta hefur verið farsæl leið og árangur okkar Íslendinga er mælanlega betri en hinna. Nú er hægt að fullyrða að líkur á því að verða áfengis – og vímuefnasjúkur á Íslandi eru talsvert minni í dag en var undir lok síðustu aldar.

Íslenska leiðin byggist fyrst og fremst á auðveldu aðgengi sjúklinga að afkastamikilli og ódýrri meðferð sem er rekin á ábyrgð lækna, er grundvölluð á vísindalegri þekkingu í læknisfræði, sálarfræði og félagsvísindum og bindur sig því ekki við neina eina meðferðarhugmynd. Hjá SÁÁ byggir hún auk þessa á faglegu og nákvæmu fjárhagsbókhaldi, skipulagðri áætlanagerð og heiðarleika í öllum rekstri.

Óslitin 39 ára saga

Árangur meðferðarinnar er hægt að mæla á ýmsan hátt. Hjá SÁÁ er til dæmis í dag hægt að líta 39 ár aftur til baka um farinn veg. Þegar það er gert sést auðvitað ekki einhver óslitin sigurganga samtakanna en gangan er samt óslitin. Það sést einnig þrautsegja og útsjónarsemi í rekstri. Þá sést raunhæf og skynsamleg ráðstöfun fjármuna. Þá sjást gríðarleg afköst meðferðinnar sem 24 þúsund einstaklingar hafa sótt. Þá sést uppbygging á þekkingarsamfélagi og gagnagrunni sem allar þjóðir öfunda okkur af – ekki í hillingum heldur sem lifandi staðreynd. Ríkið, sem er stærsti kaupandi þjónustu SÁÁ, fær mikið fyrir peninginn. Greiðir einungis hluta af því sem meðferðin kostar í heild sinni en skapar með því fjárhagslegan grundvöll undir starfsemi sem stendur að öðru leyti á eigin fótum og hefur fjárhagslegt bolmagn til að leggja í púkkið. Samlegðaráhrifin eru þjóðhagslega hagkvæm en samspilið er mjög viðkvæmt. Með þessu lagi hefur SÁÁ, í umboði almennings og í samvinnu með stjórnvöldum, lagt þrjú þúsund milljónir inn í íslenskt heilbrigðiskerfi á síðustu 20 árum. Geri aðrir betur!

Takk fyrir stuðninginn

SÁÁ er viðkvæmt blóm í flóru íslensks heilbrigðiskerfis. Samfélagið sem hefur byggt upp þjónustu og eignir SÁÁ, þarf sjálft að líta eftir þessu blómi. Aðrir munu ekki gera það í dag. Aðrir munu ekki tryggja afkomendum okkar áfengis- og vímuefnameðferð í framtíðinni. Fíknsjúkdómurinn fer nefnilega ekki í manngreiningarálit, spyr ekki um aldur, kyn eða fyrri störf og getur því lagt hvern sem er að velli. Hugum að því og byggjum til framtíðar með SÁÁ. Takk fyrir stuðninginn!


Pistillinn birtist í SÁÁ blaðinu, 1. tbl. 2016, en því var dreift í hús á höfuðborgarsvæðinu 22. mars og er einnig einnig aðgengilegt í pdf-skjali hér á saa.is.