SÁÁ léttir álagi af annarri þjónustu

Birgir Jakobsson, sem tók við embætti landlæknis í upphafi ársins, heimsótti Vog í síðustu viku ásamt nokkrum samstarfsmönnum sínum, ræddi þar við Þórarin Tyrfingsson, framkvæmdastjóra meðferðarsviðs, Valgerði Rúnarsdóttur, yfirlækni á Vogi, og fleiri starfsmenn SÁÁ og kynnti sér rekstur þeirrar heilbrigðisþjónustu sem samtökin veita. Lögum samkvæmt hefur landlæknisembættið eftirlit með starfseminni eins og annarri heilbrigðisþjónustu sem veitt er í landinu.

Landlæknir gaf kost á stuttu spjalli við saa.is að lokinni heimsókn:

„Þessi ferð á Vog var farin í þeim tilgangi að kynnast hvað er að gerast. Ég hef alltaf heyrt að sú starfsemi, sem er á Vogi sé kjarninn í þessari meðferð hér á landi og ég hef heyrt gott eitt um þessa stofnun og hvað þar er verið að gera og ég er að kynna mér það núna. Þetta er mikilvægur málaflokkur og eitt af þeim atriðum sem þarf að líta á og mér sýndist þetta vera í mjög góðu horfi á Vogi.“

Birgir Jakobsson starfaði um áratugi í Svíþjóð og sagðist ekki tilbúinn til að úttala sig um stöðu áfengis- og vímuefnamála á Íslandi og stefnu stjórnvalda í þeim efnum eftir að hafa gegnt landlæknisembættinu einungis í rúmar sex vikur.

„Ég held að stefnan varðandi heilbrigðismál almennt geti verið skýrari en hún er en það er margt gott að gerast í heilbrigðiskerfinu hér og það er vilji til að halda áfram umbótum og vinna að málum í rétta átt. Eins og í öllum nágrannalöndunum, og annars staðar þar sem ég þekki til, er aðalverkefnið að bæta gæði þjónustunnar – öryggi og aðgengileik. Á sama tíma þarf að ráða við þá kostnaðsaukningu sem er í heilbrigðismálunum. Það er ákveðin áskorun að gera þetta allt samtímis og mér sýnist að allir séu að berjast við það, það er ekki einstakt á Íslandi. Ísland hefur að vísu haft svolitla sérstöðu vegna tímabundinna erfiðleika vegna fjárhagskreppunnar sem Íslendingar lentu í fyrir sex árum eða sjö en núna er verið að vinna úr þeim málum. Mér sýnist að margt horfi til batnaðar. Það er verið að setja markmið um ýmsar umbætur.“

Hver er þýðing þess fyrir heilbrigðiskerfið að SÁÁ létti álagi af heilbrigðiskerfinu með því að sinna þeim sem eru veikir vegna fíknsjúkdóma og fækka með því innlögnum og álagi á aðrar stofnanir?

„Enn og aftur hef ég ekki neinar tölur um það hér og nú en ég veit að SÁÁ gerir þetta. Þetta eru einstaklingar sem koma mikið inn til bráðaþjónustu, geysilega mikið, og valda þar álagi og eru með allskonar fylgikvilla sem valda álagi á heilbrigðisþjónustuna þannig að það er augljóst að þessi málaflokkur er mjög margþættur og kemur á margan ólíkan hátt að heilbrigðiskerfinu.

Birgir segist hafa heyrt í samtölum við fólk í heimsókninni á Vog að líta beri á Vog sem hluta af vistunarkeðju sem er í senn hluti af þeirri bráðaþjónustu, meðferðarþjónustu og eftirmeðferð sem íslenska heilbrigðiskerfið veitir.. „Ég held að það sé mjög gott mál og það er mikilvægt að það sé gott samtarf milli stofnana – við Landspítala, geðdeildar og svo framvegis. Mér sýndist og heyrðist að þannig væri það,“ segir Birgir Jakobsson, landlæknir.

Birgir Jakobsson landlæknir og Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri SÁÁ.

Birgir Jakobsson landlæknir og Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri SÁÁ.