SÁÁ og Landspítali undirrita samstarfssamning vegna átaks til að útrýma lifrarbólgu C

Þórarinn Tyrfingsson, forstjóri Sjúkrahússins Vogs, og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, undirrituðu í gær samstarfssamning sem gerður hefur verið milli Landspítalans og SÁÁ vegna þátttöku samtakanna í átaksverkefni sem kennt er við lyfjafyrirtækið Gilead og miðar að því að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi.

Eins og kunnugt er hefur alþjóðlega lyfjafyrirtækið Gilead boðist til að gefa lyfið HARVONI í nægilegu magni til að hægt sé að meðhöndla alla smitaða einstaklinga í landinu í tengslum við sérstaka faraldsfræðilega rannsókn sem gerð verður meðfram meðferðarátakinu þar sem árangur átaksins til lengri og skemmri tíma verður kannaður, þar á meðal sjúkdómsbyrði og áhrif átaksins á langtímakostnað við heilbrigðisþjónustu.

Meginhlutverk SÁÁ í verkefninu, samkvæmt samstarfssamningnum, verður annars vegar að setja upp sérstaka aðstöðu á sjúkrahúsinu Vogi til að meðhöndla þá sjúklinga sem greinast hjá SÁÁ á meðan á verkefninu stendur í samvinnu við Landspítalann. Hins vegar mun SÁÁ, samkvæmt nánara samkomulagi, afhenda Landspítalanum persónugreinanlegar upplýsingar um alla þá sjúklinga sem kunnugt er um í skrám SÁÁ og greinst hafa með lifrarbólgu C. Upplýsingarnar verða notaðar til að hafa samband við og bjóða þeim smituðu einstaklingum meðferð, sem ekki koma í meðferð á vegum SÁÁ svo og í tengslum við þá faraldsfræðilegu rannsókn sem framkvæmd er samhliða verkefninu.

Sjúkdómur sprautufíkla

Í samningnum kemur fram að áætlað er að allt að 1.200 einstaklingar á landinu séu smitaðir af lifrarbólgu C og eigi rétt á meðferð lögum samkvæmt. Lifrarbólga C er fyrst og fremst sjúkdómur þeirra sem sprauta sig með vímuefnum í æð. SÁÁ telur að fjöldi þeirra sem smitast hafa af sjúkdómnum við vímuefnaneyslu sé vel þekktur og kortlagður, vegna sérstaks átaks sem SÁÁ hefur staðið fyrir í því skyni í meira en 20 ár að frumkvæði Þórarins Tyrfingssonar, forstjóra sjúkrahússins Vogs. Fyrir meira en 20 árum hóf SÁÁ skimun fyrir veirunni sem veldur lifrarbólgu C meðal allra þeirra sem koma til meðferðar á Sjúkrahúsinu Vogi og hafa sprautað sig með vímuefnum í æð. Á því tímabili hafa rúmlega 900 tilfelli af lifrarbólgu C greinst á sjúkrahúsinu Vogi. Frá árinu 2006 hafa greinst þar 24-44 ný tilfelli af sjúkdóminum ár hvert. Á sama tímabili hafa ár hvert 120-158 sjúklingar sem leggjast inn á Vog greinst með virka lifrarbólgu C. Vegna stöðu Sjúkrahússins Vogs, sem er heilbrigðisstofnun sem er sérhæfð í að sinna heilbrigðisþjónustu við vímuefnaneytendur, hafa áfengis- og vímuefnasjúklingar þar aðgang að stórum inngangi inn í íslenska heilbrigðiskerfið þar sem vanda þeirra er sinnt sérstaklega og reynt að stöðva vímuefnaneysluna.

Öll umsjón með framkvæmd meðferðarátaksins og ábyrgð á að það fari fram í samræmi við sérstaka rannsóknaráætlun, leyfi Vísindasiðanefndar eða kröfur Persónuverndar ef við á, er á höndum Landspítalans og er Sigurður Ólafsson læknir, sérfræðingur í meltingarsjúkdómum, ábyrgðarmaður alls verkefnisins en verkefnastjóri er Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir, hjúkrunarfræðingur. Af hálfu SÁÁ er verkefnið í höndum Þórarins Tyrfingssonar, forstjóra sjúkrahússins Vogs, Valgerðar Rúnarsdóttur, yfirlæknis á sjúkrahúsinu Vogi, og Þóru Björnsdóttur, hjúkrunarforstjóra á sjúkrahúsinu Vogi.

Þriggja ára meðferðarátak

Áætlað er að meðferðarátakið standi í allt að þrjú ár, þar sem fyrstu tvö árin fara í að meðhöndla alla einstaklingaina sem greindir hafa verið með lifrarbólgu C og að þriðja og síðasta árið fari í að ná til þeirra einstaklinga sem ekki hefur náðst til á fyrri hluta verkefnisins. Samningurinn miðast við að allt að 200 sjúklingar verði meðhöndlaðir ár hvert á sjúkrahúsinu Vogi. Þátttaka í verkefninu kallar á talsverðan viðbúnað af hálfu SÁÁ og að því verði meðal annars sinnt af hjúkrunarfræðingi sem ráðinn verður sérstaklega í fullt starfi til að sinna verkefninu, auk sérfræðilæknis og læknaritara í hálfu starfi.

Í glærum hér að neðan er að finna upplýsingar um fjölda tilfella af lifrarbólgu C í gagnagrunni Vogs miðað við árslok 2014. Ef smellt er á glærurnar sjást upplýsingarnar í læsilegri stærð.