SÁÁ ræðir orsakir fíknar á Fundi fólksins

Í tengslum við Fund fólksins, sem haldinn verður í Norræna húsinu á morgun föstudag og á laugardag, býður SÁÁ upp á kynningu og samtal um orsakir og afleiðingar hins líffræðilega, sálræna og félagslega vanda sem einkennir fíknsjúkdóminn í umræðutjaldi 1 klukkan 13 til 14 á föstudag.

Valgerður Rúnarsdóttir, sérfræðingur í fíknlækningum og lyflækningum og yfirlæknir á Sjúkrahúsinu Vogi, Dr Ingunn Hansdóttur, lektor og yfirsálfræðingur SÁÁ, og Erla Björg Sigurðardóttir, cand. mag. í þjóðfélagsfræði og félagsráðgjafi MA, ræða við gesti fundarins um SÁÁ og fíknsjúkdóma og meðferð þeirra. Fundarstjóri er Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ.

Frummælendurnir halda stuttar kynningar og sitja síðan í pallborði í umræðum við fundargesti.

Daglega dynur á okkur flóð upplýsinga, svo mikið að heilinn hefur ekki undan að fylgjast með. Það bókstaflega rignir vondum tölulegum upplýsingum, hálfsannleika og jafnvel hreinræktaðri lygi.

Hvernig þekkjum við afvegaleiðandi tilkynningar, falskar tölur og línurit eða blaðagreinar og skýrslur fullar af rangfærslum – eða bara saklausan misskilning? Hvernig greinum við hafrana frá sauðunum? Hvenær eru upplýsingar áreiðanlegar og á hverju þekkjast þær?

Vísindin eru besta aðferðin sem við höfum til að greina upplýsingar – kjölfestan í hinni eilífu leit okkar að meiri þekkingu. Með akademískri þjálfun lærum við að lesa úr upplýsingum og skilja hvernig gæði þeirra eru misgóð og hvort þær eru hlutdrægar eða jafnvel afbakaðar á ferð sinni um fjölmiðla og samfélagsmiðla.

Hagnýting á þekkingu vísindasamfélagins er forsenda framþróunar og framfara á sviði forvarna og meðferðar fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga en meðferð SÁÁ er einmitt byggð á traustri þekkingu á sviði heilbrigðisvísinda.

Nánari upplýsingar um Fund fólksins er að finna hér.