SÁÁ stefnir SÍ fyrir dóm vegna vanefnda

SÁÁ hefur stefnt ríkinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur vegna vanefnda Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) á samningi sem gerður var í desember 2012 um þjónustu göngudeildar SÁÁ. Samningurinn var staðfestur af velferðarráðherra en allt frá upphafi samningstímans hefur verið ágreiningur um greiðslur fyrir þjónustuna og SÁÁ hefur hafnað túlkun Sjúkratrygginga á samningstextanum.

Áður en þessi samningur var gerður hafði SÁÁ rekið áfengis- og vímuefnameðferð fyrir sjúkratryggða einstaklinga á göngudeild í áratugi án árekstra við stjórnsýsluna og fjárveitingavaldið.

Fjárveitingar frá Alþingi til SÁÁ taka mið af þessum samningi sem ráðherra hefur staðfest en með honum var gert ráð fyrir 43 milljóna króna árlegri greiðslu til þeirrar þjónustu SÁÁ sem þar er kveðið á um. Frá því samningurinn tók gildi hefur hlutur SÍ í rekstrarkostnaði hins vegar minnkað úr 43 milljónum króna árið fyrir gildistöku samningsins, í 27 milljónir króna árið 2013, í 17 milljónir króna árið 2014 og í núll krónur árið 2015. Þannig hafa fjárveitingar Alþingis, að mati SÁÁ, ekki skilað sér í rekstur samtakanna þrátt fyrir að full þjónusta hafi verið veitt í samræmi við gerðan samning, staðfestan af ráðherra.

Framtíð göngudeilda SÁÁ ræðst af framgangi málsins

Á síðasta ári var rekstrarkostnaður göngudeildarinnar alls 76 milljónir króna, sem er í samræmi við það umfang sem gert var ráð fyrir í samningnum frá 2012. Vegna deilunnar við Sjúkratryggingar Íslands greiðir SÁÁ niður með sjálfsaflafé sínu þann hluta af kostnaðinum sem greiða ætti með framlagi Sjúkratrygginga. SÁÁ axlar þær byrðar að svo stöddu en hins vegar er ljóst að samtökin munu ekki til lengdar geta staðið undir óbreyttum göngudeildarrekstri á eigin kostnað. Framtíð göngudeildarþjónustu SÁÁ mun því ráðast af framgangi þessa dómsmáls en það var höfðað eftir árangurslausar innheimtutilraunir og eftir að samtöl við heilbrigðisráðherra um að þrýsta á Sjúkratryggingar Íslands um að virða gerðan samning höfðu ekki borið árangur.

Konráð Jónsson, héraðsdómslögmaður, flytur málið fyrir hönd SÁÁ, ríkislögmaður er til varna fyrir SÍ en Skúli Magnússon, héraðsdómari, hefur fengið málið til meðferðar og verður aðalmeðferð í héraðsdómi væntanlega haldin á næstu vikum.

Ólögmæt mismunun Sjúkratrygginga

SÁÁ harmar það sérstaklega að þessi deila bitnar á sjúklingum göngudeildar samtakanna vegna þess að Sjúkratryggingar Íslands neita þeim nú um að byggja rétt til endurgreiðslu kostnaðar vegna heilbrigðisþjónustu á reikningum frá göngudeildinni.  SÁÁ telur augljóst að með því mismuni SÍ áfengis- og vímuefnasjúklingum og neiti þeim um rétt sem þeir eiga að njóta í sama mæli og þegar greitt er fyrir aðra heilbrigðisþjónustu. SÁÁ hefur vakið athygli Umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar á þessari stjórnsýslu Sjúkratrygginga Íslands sem samtökin telja að brjóti gegn íslenskum lögum.