Sálfræðiþjónusta barna í boði SÁÁ

Undanfarin 10 ár hefur verið mikil og vaxandi umræða um gagn og nauðsyn sálfræðiþjónustu fyrir börn og ungmenni. Ljóst er að kostnaður vegna þjónustunnar er þröskuldur sem foreldrar og aðrir aðstandendur komast ekki yfir nema í tilfellum vel stæðra. Vitað er að kvíði og þunglyndi eru algengir kvillar hjá þessum unga hópi. Umræðan snýst því öðrum þræði um hvort greiðsluþáttaka hins opinbera í sálfræðiþjónustu barna og ungmenna sé sjálfsögð og nauðsynleg til að bæta lífsgæði í samfélaginu.

Á sama tíma og þessi umræða hófst fyrir um 10 árum opnaði SÁÁ fyrir sérstaka sálfræðiþjónustu barna og ungmenna sem samtökin hafa fjármagnað með sjálfsaflafé að mestu leyti. Markmiðið SÁÁ með sálfræðiþjónustu barna er að veita börnum opnun og viðurkenningu á stöðu sinni og aðstæðum í fjölskyldu þar sem áfengis- eða vímuefnavandi er til staðar og að hjálpa þeim að skilja betur eigin aðstæður og aðstæður foreldranna og aðstoða þau við að greina á milli sjúkdómsins alkóhólisma og manneskjunnar sem þjáist af honum.

Á þeim tíma sem liðin er frá opnun þessarar sálfræðiþjónustu hafa fleiri en 1000 börn fengið þjónustuna í meira en 8 þúsund viðtölum. Þetta eru virkar og mjög vel heppnaðar forvarnir hjá þeim hópi sem er í mestri áhættu. Sótt hefur verið um fjárveitingu frá Velferðarráðuneytinu en henni hefur jafnan verið hafnað, nú síðast árið 2015.

Yfir 24 þúsund einstaklingar hafa farið í meðferð hjá SÁÁ. Þessi hópur er lítið hlutfall allra Íslendinga á aldrinum 15-67 ára en á samt sem áður 30% allra ótímabærra dauðsfalla á Íslandi. Það blasir við að nauðsynlegt er að hafa gott aðgengi að alhliða heilbrigðisþjónstu fyrir þennan sjúklingahóp.

Sálfræðiþjónusta barna hjá SÁÁ, er viðleitni til að stoppa þekkta hringrás og fjölskyldulægni fíknsjúkdómsins. Sértæk forvörn sem hefur bein áhrif inn í þann hóp sem er líklegastur til að þróa með sér fíknsjúkdóminn. Heilbrigðisþjónusta sem byggir á vitsmunum og akademískri þekkingu. Öll rök mæla með því að hið opinbera taki þátt í að greiða þann kostnað sem hlýst af þjónustunni.

Sálfræðiþjónustu barna
Spurt og svarað um Sálfræðiþjónustu barna.

Höfundur greinar