Samið um jarðvegsskipti við Vík

Framkvæmdir eru komnar í gang í Vík við væntanlega nýja og glæsilega meðferðarstöð. Starfsmenn Ístaks eru búnir að setja gröfur og vörubíla í gang og farnir að vinna við jarðvegsskipti. Um helgina var formlega gengið frá samningum SÁÁ og Ístaks um jarðvegsskiptin.

Um er að ræða gröft og fyllingar fyrir byggingar og uppmokstur fyrir nýja heimreið að Vík, bílastæði og fleira sem til þarf.

Verkinu er skipt í tvo áfanga. Jarðvegsskiptum í veg og bílaplan ásamt jarðvegsskiptum fyrir tengibyggingu á að vera lokið 13. maí en jarðvegsskiptum fyrir austur og vesturálmur sé lokið 26. maí.

Nú á miðvikudag, 4. maí, verða svo opnuð tilboð í uppsteypu húsa og utanhússfrágang. Gert er ráð fyrir að vinna við þær framkvæmdir geti hafist um miðjan maí.

Myndin var tekin við undirritun samningsins við Ístaks. Frá vinstri: Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs SÁÁ, Maríus Óskarsson, í byggingarnefnd SÁÁ, Sigurður Friðriksson í byggingarnefnd SÁÁ, Theódór S. Halldórsson, formaður bygginganefndar SÁÁ, Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks hf, Samúel Guðmundsson, frá THG arkitektum, og Þröstur Sívertssen, byggingartæknifræðingur frá Ístaki hf.