Samningar við Ístak um nýbygginguna á Vík undirritaðir

Samningur milli SÁÁ og Ístaks hf. um byggingu nýrrar meðferðarstöðvar við Vík á Kjalarnesi var undirritaður á Vík í gær.

Tilboð Ístaks var metið hagstæðast í útboði þar sem sex tilboð bárust.  Verkáætlun gerir ráð fyrir að karlaálma á Vík og þjónustubygging verði uppsteyptar og tilbúnar fyrir múrverk og lagnavinnu þann 15. desember næstkomandi en að viðbygging við kvennaálmu verði tilbúin undir múrverk og lagnavinnu 12. janúar 2017. Verklok við uppsteypu eru áætluð 15. febrúar 2017.

Vinna við hönnun innréttinga stendur yfir og á að ljúka um 20. ágúst. Verður innanhússfrágangur og innréttingasmíði boðin út í framhaldi af því.

Ekkert bendir til annars á þessu stigi en að allar áætlanir standist, að sögn Theodórs Skúla Halldórssonar, formanns bygginganefndar framkvæmdastjórnar SÁÁ, og nýbyggingar verði tilbúnar endanlega í maí 2017 en þá taki við um sumarið endurnýjun þeirra bygginga sem fyrir eru. Stefnt er að því að taka fullbúna nýja meðferðarstöð í notkun í kringum 40 ára afmæli samtakanna sem verður 1. október 2017.

Myndirnar að ofan voru teknar við undirritunina í gær. Á myndinni lengst til hægri handsala Theódór S. Halldórsson og Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, samninginn. Á myndinni til vinstri eru frá vinstri: Sigurður Friðriksson, í byggingarnefnd SÁÁ, Theódór S. Halldórsson, formaður byggingarnefndar SÁÁ, Maríus Óskarsson, í byggingarnefnd SÁÁ,  Samúel Guðmundsson, frá THG arkitektum, og Karl Andreassen,  framkvæmdastjóri Ístaks. Á myndinni efst eru: Kristján Ingi Arnarsson, staðarstjóri frá Ístaki,  Samúel Guðmundsson, frá THG arkitektum,  Árni Eðvaldsson, yfirverkstjóri frá Ístaki,  Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks,  Sverrir Gunnarsson, byggingafræðingur frá THG arkitektum,  Theódór S. Halldórsson, formaður byggingarnefndar SÁÁ,  Sigurður Friðriksson,  byggingarnefnd SÁÁ,  Sigurður Gunnsteinsson,  fyrrum dagskrárstjóri á Vík,  Þórarinn Tyrfingsson,  forstjóri sjúkrahússins Vogs, Maríus Óskarsson byggingarnefnd SÁÁ og Hjalti Björnsson dagskrárstjóri á Vík. Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ tók myndirnar.