medvirkni-margir-300-300

Að greina meðvirkni

Það getur verið erfitt að greina meðvirkni og SÁÁ skilgreinir meðvirkni á mjög ákveðinn hátt. Okkar hlutverk er að vinna með fjölskyldum fíkla, aðstandendum alkóhólista.

Í dag fer mikið af fólki beint til 12 spora samtaka vegna ýmiskonar álags og slæmrar líðan og fær góða bót. Ekki er ætlunin að trufla þetta fólk eða mæla gegn slíku með þessari umfjöllun. Þeir sem ætla að setja upp sérstaka þjónustu eða meðferð fyrir meðvirkt fólk verða þó að vinna markvisst og skipulega, annars fer allt úr böndunum. Fyrsta skrefið í því er að skilgreina vel sjúkdóminn sem er verið að meðhöndla og skilja eðli hans.

Til að verða meðvirkur verður einstaklingur að hafa búið náið með virkum fíkli í langan tíma. Nábýli við aðra sjúklinga og fólk með hegðunarvanda ýmis konar getur líka haft mikil og slæm áhrif á það fólk og valdið þeim veikindum. Það fólk er þó ekki meðvirkt í skilningi SÁÁ og ekki viðfang samtakanna. Með því er á engan hátt gert lítið úr vanda þess eða því haldið fram að það megi ekki fara í 12 sporasamtök eða þurfi ekki meðferð. Það er bara ekki meðvirkt samkvæmt hugmyndum SÁÁ.

Eðli veikindanna

Ekki verða allir veikir sem búa með fíklum en sumum fer að líða illa eða fá hegðunarvanda og njóta sín engan veginn. Þeir smám saman veikjast og þó að þeir komist frá fíklinum halda þeir áfram að vera veikir og njóta sín ekki. Sjúkdómurinn hefur eignast sitt eigið líf og býr í hinum meðvirka einstaklingi.

Hvert er eðli veikindanna og hvað er þessum einstaklingum sameiginlegt? Vegna álagsins í fjölskyldunni og samskiptareglna sem þar gilda hafa þeir fengið fastmótuð viðhorf, hugsunarhátt og hegðun sem er eðli veikindanna og viðheldur þeim. Viðhorfin sem einstaklingarnir fá gagnvart sjálfum sér, þeim áfengissjúka, öðru fólki og veröldinni eru áþekk en ekki alltaf eins eða þau sömu. Hugsunarhátturinn og hegðunin mótast líka með svipuðum hætti en hugsunarvillurnar og viðhorfsbrenglunin er mismunandi eftir einstaklingum.

Það sem sameinar fólk

Dæmigerð viðhorf sem fólk fær eru þau að enginn megi verða reiður eða að það megi sjálft alls ekki gera mistök. Ef slíkt hendir er það agalegt, skelfilegt eða óásættanlegt. Önnur fastmótuð viðhorf eru viðhorf til sjálfs sín og alkóhólistans. Dæmigerður hugsunarháttur sem fólk fær er að allt er málað sterkum litum og alhæfingarnar eru alsráðandi. Hugsunin um sjálfan sig verður óvirðuleg og neikvæð. Sjálfsásökun vegna hegðunar fíkilsins og ábyrgð á henni og fíkn hans verður yfirþyrmandi. Hegðunin verður fastmótuð og fas hins reiða manns, uppburðarlitla manns eða hins óörugga manns einkennir þann meðvirka. Í kjölfar alls þessa kemur stöðug streita og ýmis konar vanlíðan og lágt sjálfsmat.

Það sem þessu fólki er sameiginlegt er svipuð lífsreynsla sem hefur myndað vaxandi álag og veikindi. Þegar fólkið fer að tala saman þekkir það tilfinningar, viðhorf og hugsunarhátt hvers annars. Hið innra er sjúkdómurinn eins en hið ytra meikar hann ekki sens og einstaklingarnir eru eins ólíkir og þeir eru margir. Einstaklingarnir eiga eitthvað sameiginlegt sem aðrir eiga erfitt með að skilja.

Sjúkleg ábyrgð

Aðaleinkenni þessa fólks er að því finnst það bera sjúklega ábyrgð á hegðun hugsunarhætti og tilfinningum fullorðinnar manneskju. Það er óumflýjanlegt að illa fari. Í kjölfar þess koma fullt af einkennum þar sem fólk er að reyna að stjórna tilfinningum, hegðun og hugsunarætti fullorðins einstaklings sem auðvitað er ekki hægt. Afleiðingin er vanræksla á sjálfum sér, vaxandi tilfinningaþröng, reiði, kvíði, sektarkennd og örvænting. Nauðsynlegt er að greina hvort um er að ræða meðvirkni sem byrjar á barnsaldri eða seinna á ævinni. Eðlismunur er á þessu tvennu og meðferð nokkuð mismunandi.


Þessi pistill Þórarins birtist fyrst á saa.is 13. maí 2011.