Valmynd
english

Göngudeild SÁÁ í Reykjavík

Fjölbreytt starfsemi í þágu áfengis- og vímuefnasjúklinga og fjölskyldna þeirra fer fram á göngudeild SÁÁ í Reykjavík en hún er til húsa í Von, Efstaleiti 7.  Skráðar komur sjúklinga á deildina eru um 25.000 ár hvert. Það jafngildir því að meira en 100 manns sæki þjónustu á göngudeildina hvern virkan dag ársins.

Hluti áfengis- og vímuefnasjúklinga kemur á göngudeildina til að leita ráðlegginga og greiningar á vanda sínum. Ef niðurstaða greiningarviðtals gefur tilefni til er viðkomandi lagður inn á sjúkrahúsið Vog við fyrsta tækifæri og þá hefst hefðbundin áfengis- og vímuefnameðferð. Oft er hins vegar hægt að leysa vanda fólk án þess að til innritunar á Vog þurfi að koma.

Hér að neðan er stutt yfirlit yfir þjónustu göngudeildarinnar. Hægt er að nálgast margvíslegt fræðsluefni  um hinar ýmsu þjónustuleiðir á göngudeild eru aðgengilegar annars staðar á saa.is.

Einnig skal bent á kynningarfundi sem haldnir eru alla miðvikudaga kl. 18:00 í Von Efstaleiti. Þar er fjallað um starfsemi SÁÁ, fíknsjúkdóma og meðvirkni og fyrirspurnum svarað eftir bestu getu.

Nokkrar meginleiðir

Meðferð á göngudeildinni er ein þeirra meðferðarleiða sem sjúklingar eiga kost á að lokinni dvöl á sjúkrahúsinu Vogi.

Markviss göngudeildarmeðferð yfir fjögurra mánaða tímabil er valkostur sem þeir sjúklingar eiga kost á sem búa á höfuðborgarsvæðinu og búa við góðar félagslegar aðstæður og líkamlega heilsu. Að lokinni dvöl á Vogi fær þessi hópur göngudeildarmeðferð fjóra daga í viku fyrstu fjórar vikurnar en að því loknu einu sinni í viku þrjá mánuði.

Konur sem lokið hafa fjögurra vikna kvennameðferð á Vík fá stuðning á göngudeild í eitt ár.

Karlmenn sem lokið hafa meðferð á Staðarfelli eða Vík fá formlegan stuðning á göngudeildum SÁÁ einu sinni  í viku í þrjá mánuði.

Endurkomukarlar sem fá fjögurra vikna meðferð á Staðarfelli fá síðan stuðning á göngudeild í eitt ár.

Unglingar. Lögð hefur verið áhersla á þjónustu við unglinga á göngudeild og felst hún til dæmis í því að undirbúa unglinga fyrir meðferð á unglingadeildinni á Vogi, með einstaklingsviðtölum. Unglingar geta mætt í sérstakan stuðningshóp í göngudeild einu sinni í viku.

Hluti sjúklinga fer heim eftir stutta dvöl á Vogi og þiggur ekki þátttöku í skipulögðum meðferðarúrræðum en sækir stuðning í einhverjum mæli á göngudeildinni.

Viðtal við ráðgjafa á göngudeild kostar 3.200 kr. en örorkulífeyrisþegar greiða 1.700 krónur. Verð með afsláttarkorti er 1.900 krónur en örorkulífeyrisþegar með afsláttarkort greiða 910 krónur fyrir hvert viðtal.

Aðstandendur og fjölskyldur

Foreldrum, mökum og öðrum úr fjölskyldu áfengis- og vímuefnasjúklinga býðst margvísleg þjónusta á göngudeild. Þar ber fyrst að nefna sérstaka Fjölskyldumeðferð, sem tekur fjórar vikur og kostar 8.000 krónur. Í kjölfar slíkrar meðferðar geta aðstandendur nýtt sér vikulegan stuðningshóp í kjölfar meðferðarinnar. Stök viðtöl  við ráðgjafa í Fjölskyldudeild  kosta 3.000 krónur.

 

Sérstök fræðsludagskrá fyrir fyrir foreldra unglinga sem eru eða hafa verið í meðferð hjá SÁÁ er alla þriðjudaga kl. 18:15 á Sjúkrahúsinu Vogi. Hún hentar einnig vel fyrir foreldra sem eru að byrja að leita sér aðstoðar.

Sálfræðiþjónusta barna

Sálfræðiþjónusta SÁÁ við börn alkóhólista miðast við 8 – 18 ára börn. Sálfræðingar SÁÁ leggja sig fram um að nálgast börn og foreldra af nærgætni og virðingu fyrir þeim vanda sem þau standa frammi fyrir. Fleiri en 800 börn hafa nýtt sér sálfræðiþjónustuna frá árinu 2008. Markmiðið er að veita börnum opnun og viðurkenningu á stöðu sinni og aðstæðum í fjölskyldu þar sem áfengis- eða vímuefnavandi er til staðar og hjálpa þeim að skilja betur aðstæður og aðstoða þau við að greina á milli sjúkdómsins alkóhólisma og manneskjunnar sem þjáist af honum.

Meðferðin sem hvert barn fær felst í átta viðtölum. Yfirleitt innrita foreldrar börnin en nokkuð er um að frumkvæði komi frá öðrum aðstandendum eða fagfólki þegar um er að ræða börn sem eiga foreldra í neyslu. Hvert sálfræðiviðtal í sálfræðiþjónustu barna kostar 3.000 krónur en aðeins er greitt eitt gjald fyrir börn úr sama systkinahópi.

Nánari upplýsingar

Göngudeild SÁÁ
Von, húsi SÁÁ,
Efstaleiti 7, 103 Reykjavík
Sími: 530-7600, fax: 530-7601
Opið: Mán.- fös. kl. 9:00-16:00
Lokað í hádeginu frá kl.12:00-12:45

Dagskrárstjóri göngudeildar er Karl S. Gunnarsson, karl@saa.is
Dagskrárstjóri fjölskyldudeildar er Helga G. Óskarsdóttir, helga@saa.is.
Ása Margrét Sigurjónsdóttir hefur umsjón með Sálfræðiþjónustu barna, asa@saa.is.

Gjaldskrá göngudeildar

Viðtal við ráðgjafa á göngudeild kostar 3.200 kr. en örorkulífeyrisþegar greiða 1.700 krónur. Verð með afsláttarkorti er 1.900 krónur en örorkulífeyrisþegar með afsláttarkort greiða 910 krónur fyrir hvert viðtal.

Viðtal við ráðgjafa í Fjölskyldudeild  kostar 3.000 krónur.

Hvert sálfræðiviðtal í sálfræðiþjónustu barna kostar 3.000 krónur en aðeins er greitt eitt gjald fyrir börn úr sama systkinahópi.