Valmynd
english

Sjúkrahúsið Vogur

Sjúkrahúsið Vogur er umsvifamesta meðferðarstofnun landsins og þungamiðjan í starfi SÁÁ og í meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu. Á Vogi eru rúm fyrir um 60 sjúklinga.

Á Vogi byrja flestir áfengis- og vímuefnasjúklingar meðferð, sem síðan er haldið áfram á meðferðarstöðvum SÁÁ og/eða göngudeild.

Á hverjum tíma eru um 130 sjúklingar, karlar og konur, á Vogi, Vík og Staðarfelli auk þess sem tugir manna sækja meðferð og stuðning á göngudeildir SÁÁ í Reykjavík og á Akureyri hvern virkan dag.

Á Sjúkrahúsinu Vogi starfa fjögur til fimm stöðugildi lækna í fullu starfi. Þrír af starfandi læknum SÁÁ hafa sérfræðimenntun og sérþekkingu í lækningum áfengis- og vímuefnasjúklinga.

Hjúkrunarforstjóri ber faglega ábyrgð á hjúkrun og stýrir vinnu hjúkrunarfræðinga, sem eru í átta stöðugildum, og sjúkraliða, sem einnig eru í átta stöðugildum.  Hjúkrunarfræðingur er á vakt á Vogi allan sólarhringinn. Einnig eru átta sjúkraliðar sem ganga vaktir í starfsliðinu á Vogi.

Sameiginleg vaktþjónusta er á öllum sjúkrastofnunum SÁÁ. Á Sjúkrahúsinu Vogi er hjúkrunarfræðingur á vakt allan sólarhringinn.  Læknir er einnig á vakt á sjúkrahúsinu alla virka daga og á bakvakt utan dagvinnutíma.

Um tuttugu áfengis- og vímuefnaráðgjafar starfa á Vogi og vinna undir handleiðslu lækna sjúkrahússins. Ráðgjafar taka þátt í fyrirlestrahaldi, annast hópmeðferð að mestu leyti og veita einstaklingsráðgjöf til sjúklinga varðandi vímuefnafíkn og spilafíkn.

Sérstök unglingadeild er á Vogi með ellefu sjúkrarúmum.

Á sérstökum sjúkragangi á Vogi eru ellefu sjúkrarúm fyrir veikustu sjúklingana.

Á Vogi er einnig rekin göngudeild þar sem um 100 manns sækja sér viðhaldsmeðferð vegna ópíóðafíknar.

Forstjóri Sjúkrahússins Vogs er Valgerður Á. Rúnarsdóttir, sérfræðingur í lyflækningum og fíknlækningum.

Hjúkrunarforstjóri er Þóra Björnsdóttir.
Yfirsálfræðingur SÁÁ er Ingunn Hansdóttir.
Dagskrárstjóri á Vogi er Páll Bjarnason.

Sjúkrahúsið Vogur
Stórhöfða 45
110 Reykjavík
Sími: 530 7600
Netfang: vogur@saa.is