Valmynd
english

Um upplýsingagjöf vegna barnaverndar

Leiðbeiningar fyrir heilbrigðisstarfsfólk SÁÁ um upplýsingagjöf úr sjúkraskýrslum SÁÁ og tilkynningarskyldu sem kveðið er á um í barnaverndarlögum.

Í 16 -19. grein barnaverndarlaga er kveðið á um tilkynningaskyldu við barnaverndaryfirvalda.

SÁÁ leggur áherslu á að hverjum heilbrigðisstarfsmanni er skylt að tilkynna til viðkomandi barnaverndaryfirvalda ef hann verður þess áskynja að barni eða börnum er hætta búin vegna skjólstæðinga SÁÁ. Þetta er honum skylt að gera hvað sem líður viðhorfum yfirmanna hans eða almennum vinnureglum SÁÁ. Þetta er áréttað í kennslu og endurmenntun allra heilbrigðisstarfsmanna SÁÁ. Sama á við ef starfsmaðurinn telur að barn sé að stofna lífi sínu í voða með vímuefnaneyslu.

Þegar áfengis- og vímuefnasjúklingar sem hafa forræði barna koma til meðferðar hjá SÁÁ er almennt litið svo á að slíkt sé upphaf að bata og betri virkni hvað barnauppeldi og umsjá barna varðar. Því er ekki talið nauðsynlegt að tilkynna barnaverndaryfirvöldum ef foreldri sem hefur forræði yfir barni eða börnum innritast á Sjúkrahúsið Vog.

Unnið er með öllum barnshafandi konum sem koma á Vog eins og um áhættumeðgöngu sé að ræða og starfsfólk SÁÁ sér um hafa beint samband við áhættumeðgöngudeild LSH og koma þeim konum sem ekki eru þar í eftirlit til ljósmæðra þar.

Starfsfólk Sjúkrahússins Vogs telur sig ekki hafa lagalegan rétt eða aðstæður til að hefta för barna eða frelsisvifta þau. Foreldrum og forráðamönnum barna er tilkynnt tafarlaust ef barn yfirgefur Sjúkrahúsið Vog án samráðs við foreldra sína, forráðamenn eða starfsfólk Vogs. Sama gildir um viðeigandi barnaverndaryfirvöld ef þau hafa forræði eða hafa átt aðild að innritun barnsins.

Tilvik þar sem starfsfólki og stjórnendum meðferðar er skylt að senda formlega tilkynningu til barnaverndarnefndar :

  • Barnshafandi kona sem kemur á Sjúkrahúsið Vog og yfirgefur meðferð án þess að ljúka afeitrun.
  • Barn sem dvelur á Sjúkrahúsinu Vogi og ástæða er að ætla að uppeldisaðstæður séu ótryggar.
  • Barn sem yfirgefur sjúkrahúsið Vog án samráðs við starfsfólk  og ekki næst í foreldra eða forráðamenn og ástæða er til að ætla að umsjá forráðamanna sé ábótavant.
  • Foreldri eða forráðamaður barns eða barna yfirgefur Sjúkrahúsið Vog án samráðs við starfsfólk og ástæða er að ætla að hann haldi áfram neyslu áfengis eða vímuefna og vanræki með því uppeldisskyldur sínar og stefni öryggi barna í hættu.

Í 20. grein barnaverndarlaga er kveðið á um skyldur SÁÁ um samvinnu við barnaverndaryfirvöld. Megin regla er að verða eins fljótt og auðið er við óskum barnaverndaryfirvalda um að veita einstaklingum sem þau óska eftir að komist til meðferðar, meðferðarþjónustu. Einnig verður greitt fyrir samskiptum barnaverndaryfirvalda við skjólstæðinga SÁÁ sem eru í meðferð, enda hafi þeir heilsu til þess og réttinda þeirra gætt í hvívetna. Upplýsingar um framgang meðferðar og meðferðarlok  til barnaverndaryfirvalda skulu gefnar skriflega eftir að beiðni um slíkt hefur borist og forðast skal að veita slíkar upplýsingar munnlega eða í gegnum síma. Heilbrigðisstarfsmenn SÁÁ skulu benda barnaverndaryfirvöldum á að skjólstæðingar SÁÁ geta auðveldlega  fengið vottorð um meðferð sína og meðferðarlok barnaverndaryfirvöldum til afhendingar.
Í 44. Grein barnaverndarlaga er kveðið á um skyldur heilbrigðisstofnanna og heilbrigðisstarfsmanna að veita barnaverndarnefndum og starfsmönnum þeirra upplýsingar úr sjúkraskýrslum eftir að barnaverndarnefnd hefur tekið ákvörðun um að kanna mál. Í þeim tilvikum berst bréf frá barnaverndarnefndum sem uppfyllir ákveðin formsatriði. Yfirlæknir SÁÁ sem er ábyrgur fyrir varðveislu sjúkraskýrsla sér einn um að slíkum erindum sé svarað skriflega. Í þessum tilviku á það aldrei við að gefa upplýsingar munnlega eða í gegnum síma.