Valmynd
english

Siðareglur SÁÁ

1. Meðan ég er starfsmaður SÁÁ eða í stjórn þess mun ég láta málefni samtakanna ganga fyrir öðru og setja velferð sjúklinganna og fjölskyldna þeirra ofar öðru þegar ég þarf að gera upp á milli þeirra og annarra málefna.

2. Ég mun leitast við að hafa meðferðarhugmyndir SÁÁ í hávegum og fara eftir þeim í starfi mínu. Falli þessar hugmyndir ekki að mínum persónulegum skoðunum held ég skoðunum mínum aðgreindum fyrir mig þegar ég kem fram fyrir hönd SÁÁ.

3. Af minni hálfu mun ég í starfi mínu sýna sérhverjum skjólstæðingi mínum virðingu, umburðarlyndi hlýju án tilltits til hver hann er.

4. Ég mun ekki viljandi valda sjúklingum líkamlegum eða andlegum skaða. Ég mun ekki móðga sjúklinga, sýna þeim lítilsvirðingu eða gera þá að athlægi með orðum eða athöfnum.  Ég mun heldur ekki leyfa neinum sjúklingi eða starfsmanni að gera slíkt.

5. Ég mun hvetja til þeirra breytinga í lífi sjúklinga minna sem stuðlað geta að bata. Að öðru leyti mun ég ekki hvetja þá til að tileinka sér viðhorf eða hegðun sem fremur er sprottin af lífsviðhorfum og verðmætamati mínu en þeirra.

6. Ég mun í starfi mínu leitast við að vega og meta styrk minn svo og veikleika og fordóma, og gera mér ljóst  að skjólstæðingar geta ofmetið færni mína og sérfræðiþekkingu. Þess vegna er ég þess ávallt albúinn að gera mér það ljóst hvenær það er skjólstæðingi fyrir bestu að vísa honum til annars sérfræðings eða leita  álits þeirra.

7. Ég mun aldrei taka þátt  í athöfnum sem geta  túlkast á þann hátt að ég sé að notfæra mér sjúkling í ábataskyni, hvort sem það er félagslega, fjárhagslega eða kynferðislega.

8. Ég mun ekki nefna á nafn eða gefa upplýsingar um sjúkling, fyrrverandi sjúkling aðstandendur hans nema til annarra starfsmanna SÁÁ sem mál hans varða vegna meðferðar. Eina undatekningin frá þessari reglu ef sjúklingur gefur til þess sérstakt leyfi.

9. Ég geri mér ljóst að samband mitt sem starfsmaður SÁÁ við sjúkling lýkur ekki við útskrift og hef ég því þessar siðareglur í heiðri í samskiptum mínum við fyrrverandi sjúklinga SÁÁ.
10.Hvað varðar notkun mína á áfengi og ávanalyfjum leitast ég við að vera fyrirmynd sjúklinga og starfsmanna og sé ég alkahólisti nota ég hvorugt meðan ég er í starfi hjá SÁÁ.

Siðareglur SÁÁ á PDF formi

Sérstök viðbót við ráðningasamning lækna, sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga, ráðgjafa, sjúkraliða, næturvarða og annarra starfsmanna SÁÁ sem vinna að meðferð sjúklinga.

(Samþykkt á framkvæmdastjórnarfundi SÁÁ 5. sept. 1989)

1. Ráðgjafar SÁÁ skulu stunda AA eða Alanon og aðrir þeir  starfsmenn SÁÁ sem eru alkahólistar eða aðstandendur þeirra skulu stunda AA eða Alanon.

2. Ráðgjafa er óheimilt án sérstaks leyfis að stunda ráðgjöf utan starfssviðs SÁÁ. Stafrsmönnum SÁÁ  í fullu starfi er óheimilt án sérstaks leyfis að stunda önnur störf sem ætla má að geti truflað starf þeirra hjá SÁÁ.

3. SÁÁ lítur svo á að alkahólisti sem nýkominn er úr meðferð sé viðkvæmur og  áhrifagjarn. Fólki sem vinnur að meðferð ber að gera sér grein fyrir þessu. Engin samskipti við sjúklinga þar sem persónulegir hagsmunir starfsmanna geta komið til álita eru leyfð í að minnsta kosti 1 ár frá lokum meðferðar.

4. Ef starfsmaður SÁÁ sem er alkahólisti og vinnur að meðferð, drekkur áfengi eða neytir annara vímuefna hættir hann störfum þegar í stað. Sama gildir ef starfsmaður hefur óleyfileg samskipti við sjúkling í meðferð eða innan árs frá lokum meðferðar.  Stjórnnefndir fjalla um slík mál. Starfsmaður má hefja aftur störf eftir 6 mánuði enda sé stjórnarnefnd viðkomandi staðar samþykk því.

Sérstök viðbót á PDF formi