Silkihúfur ríkisins

Árið 2018 er framlag ríkisins til meðferðarsviðs SÁÁ, 278 milljón krónum lægra en árið 2009, á föstu verðlagi. Framlagið dugar ekki fyrir launakostnaði.

Meirihluti þeirra sem kemur í meðferð til SÁÁ í dag, var ekki fæddur þegar samtökin hófu starfsemi sína. Meðalaldur sjúklinga á sjúkrahúsinu Vogi er 35 ár og tæplega 600 manns eru á biðlista eftir afeitrun. Í fyrirspurnartíma á Alþingi í vor kom fram að á sama tíma og nokkur hundruð einstaklingar voru á biðlista eftir innlögn á sjúkrahúsið Vog var enginn biðlisti eftir þjónustu á fíknigeðdeild LSH. Hvernig getur staðið á því?

Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki veitt öðrum stofnunum en LSH og SÁÁ rekstrarleyfi til að sinna sérhæfðri meðferð fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga. Síðasta áratug hefur ríkið stöðugt verið að kroppa af þeim fjármunum sem áður runnu í heilbrigðisþjónustu SÁÁ fyrir þennan sjúklingahóp og LSH hefur dregið úr sinni þjónustu og notað fjármuni sem þannig sparast í eitthvað annað. Í dag er lítið eftir af inniliggjandi meðferð á LSH og heilstætt og samfellt meðferðarkerfi sem SÁÁ hefur byggt upp á 40 árum hangir á bláþræði vegna langvarandi fjársveltis. Hefur almenningur óskað eftir því að skorið sé niður í þessum málaflokki?

Á þessu ári eru bráða- og flýtiinnlagnir frá LSH, og öðrum opinberum ríkisreknum stofnunum, orðnar meira en helmingur innlagna á sjúkrahúsið Vog, sjá minnisblað. Það er helsta ástæða þess að erfiðlega gengur að vinna á biðlistanum. SÁÁ stendur ekki jafnfætis þeim ríkisstofnunum sem samtökin þjónusta með þessum hætti, því eins og allir vita þá fjármagnar SÁÁ sjálft stóran hluta rekstursins með söfnunarfé. Sú einkennilega staða er því komin upp að ráðuneytið, sem fjársveltir SÁÁ ár eftir ár, nýtir sér fjáraflanir samtakanna til að niðurgreiða þjónustu fyrir fullfjármagnaðar ríkisstofnanir. Þetta er nokkur klípa fyrir stjórnendur SÁÁ, sem vilja ekki yfirgefa sjúklinga sína og aðstandendur þeirra, þótt ríkið hafi gert það.

Naumt skammtaður þjónustusamningur Sjúkratrygginga Íslands um sjúkrahúsið Vog, takmarkast við 1530 innlagnir á ári þótt hægt væri að ná 2700 innlögnum með litlum tilkostnaði. Ekkert er greitt fyrir göngudeildarþjónustu SÁÁ sem fær yfir 30 þúsund heimsóknir á ári. Sjúkratryggingar Íslands sem á tyllidögum tala um að greiðsla ríkisins fyrir heilbrigðisþjónustu eigi að fylgja sjúklingnum þangað sem hann fær þjónustuna, meina svo ekkert með því alla hina daga ársins.

Rúmlega 25 þúsund einstaklingar hafa komið í meðferð til SÁÁ. Mikill meirihluti sjúklinganna hefur aðeins komið einu sinni eða tvisvar í meðferð. Ungt fólk í lífshættu með fíknsjúkdóm situr nú fast á biðlista eftir heilbrigðisþjónustu á meðan silkihúfur ríkisins spá og spegúlera á kaffi- og kleinufundum.

Það er að verða fullkomin ráðgáta hvernig heilbrigðisyfirvöld haga sér í þessum málaflokki. Íslenskt samfélag þar sem 90% karla og kvenna nota vímuefni verður að taka betur utan um þá sem detta af gleðivagninum. Það er auðvitað „no-brainer“.

Minnisblað vegna biðlista á sjúkrahúsið Vog >>

Höfundur greinar